Ásta Sigríður Hrólfsdóttir fæddist í Reykjavík 7. júní 1949. Hún lést á taugadeild Landspítalans í Fossvogi 3. apríl 2023.

Foreldrar hennar voru Ásta Guðmundsdóttir, f. 31.3. 1917, d. 27.5. 2003, og Hrólfur Benediktsson prentari, f. 23.8. 1910, d. 16.9. 1976. Systur Ástu eru Erna Lilja, f. 3.8. 1944, Birna, f. 4.2. 1948, og Hrefna, f. 14.11. 1954.

Eiginmaður Ástu er Agnar Frímann Svanbjörnsson, f. 18.2. 1946. Foreldrar hans voru Svanbjörn Frímannsson, bankastjóri, f. 14.7. 1903, d. 9.7. 1992, og Hólmfríður Andrésdóttir, f. 4.9. 1915, d. 30.5. 2005.

Dætur Ástu og Agnars eru: 1) Erna, f. 10.3. 1971, gift Má Mássyni, f. 9.2. 1971, börn þeirra eru: Birna María, f. 22.11. 1997, og Agnar Már, f. 21.2. 2003. 2) Fríða, f. 23.3. 1971, gift Huldu Ólafsdóttur Klein, f. 26.6.1970, synir Huldu eru Ólafur Þorri, f. 1.5. 1996, Kjartan Bjarmi, f. 12.9. 1998 og Elvar Breki, f. 7.4. 2002, fósturdóttir þeirra er Aldís María, f. 10.9. 2004. 3) Edda Björk, f. 28.3. 1978, gift Sigfúsi Ragnari Oddssyni, f. 11.3. 1978, börn þeirra eru: Elín Ósk, f. 3.12. 2009, Ásta Sif, f. 21.9. 2012, og Einar Bjarki, f. 6.2. 2018.

Ásta ólst upp á Barónsstíg 19 og bjó þar fram á fullorðinsár. Eftir grunnskólagöngu í Ísaksskóla og Austurbæjarskóla fór Ásta í skiptinám til Bandaríkjanna í eitt ár og í framhaldi af því hóf hún nám við Kennaraskólann og lauk þaðan kennaraprófi vorið 1971. Ásta kenndi í eitt ár í Álftamýrarskóla eftir útskrift. Sumrin 1968-1971 starfaði Ásta sem flugfreyja, fyrst hjá Flugfélagi Íslands og svo Loftleiðum.

Ásta og Agnar kynntust við störf sín hjá Flugfélagi Íslands og gengu í hjónaband þann 19.9. 1970. Þau stofnuðu fyrirtækið Gráfeld hf. árið 1970 sem fyrst um sinn rak saumastofu og verslun með mokka- og tískufatnað. Síðar var Gráfeldur hvað þekktastur fyrir sölu á gjafavörum og húsgögnum frá Skandinavíu og var verslunin lengst af til húsa á horni Bankastrætis og Þingholtsstrætis. Ásta og Agnar ráku Gráfeld saman til ársins 1990.

Árið 1987 hóf Ásta störf sem söluráðgjafi viðskiptaferða hjá Ferðaskrifstofu ríkisins, sem síðar varð að Ferðaskrifstofu Íslands. Hún hóf svo störf í viðskiptadeild Icelandair árið 2010 og starfaði þar til ársins 2019, þegar hún lauk störfum sökum aldurs, þá sjötug.

Ásta og Agnar bjuggu lengst af við Flókagötu í Reykjavík, en þeirra annað heimili á sumrin var sumarbústaðurinn Hlíðarkot við Þingvallavatn sem þau byggðu árið 1974 og hefur bústaðurinn verið griðastaður fjölskyldunnar alla tíð síðan.

Ásta verður jarðsungin frá Háteigskirkju í dag, 19. apríl 2023, klukkan 13.

Í dag kveðjum við elsku mömmu, sem lést eftir snarpa baráttu við hinn illvíga sjúkdóm MND.

Mamma var bjartsýn að eðlisfari, félagslynd og orkumikil og hafði ávallt nóg fyrir stafni, ræktaði sambönd við vini og fjölskyldu vel og hafði sérstaklega gaman að því að elda góðan mat. Það var því sérstaklega sárt að sjá sjúkdóminn ræna hana getunni til að tala og njóta góðs matar og smám saman taka frá henni orku og hreyfigetu. Allt hlutir sem fyrir ekki svo löngu síðan voru sjálfsagður hluti af hennar daglega lífi. En þrátt fyrir veikindin var mamma ávallt sterk, jákvæð og lausnamiðuð, með húmorinn að vopni og athyglina á því mögulega í þessum nýju, krefjandi aðstæðum. Eiginleiki sem er ekki sjálfgefinn en veitir okkur, sem stóðum henni næst, styrk til að takast á við sorgina.

Mamma var alla tíð mjög virk, var víðlesin, fylgdist vel með öllu og var barnabörnunum enginn eftirbátur í að fylgjast með tækninýjungum. Hún var ávallt tilbúin að prófa og læra nýja hluti, var mikil áhugamanneskja um íslenskt mál og hugarleikfimi af ýmsum toga.

Ég er þakklát fyrir allar þær góðu minningar sem ég á um mömmu í gegnum alla mína æsku og fram til síðasta dags. Af æskuheimilinu á Flókagötu, sem ávallt stóð vinum mínum opið og síðar okkur Mása og börnunum, úr Hlíðarkoti sem var okkar annað heimili á sumrin og frá árunum í Gráfeldi, þar sem ég fékk ung að hjálpa til við hin ýmsu verkefni undir góðri leiðsögn mömmu og pabba. En ekki síður á ég góðar minningar sem fullorðin um hlýja, ástríka og ráðagóða mömmu sem var ávallt til staðar fyrir mig og okkur fjölskylduna.

Í gegnum tíðina hefur mér oft verið líkt við mömmu, bæði í útliti og fasi og hef ég alla tíð verið stolt af þeirri samlíkingu. Meira að segja á unglingsárunum. Við mamma vorum góðar vinkonur og áttum margt sameiginlegt, hún studdi okkur systur í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur og var okkur fyrirmynd í svo mörgu.

Það er sárt að vita til þess að ekki verður lengur hægt að leita ráða hjá mömmu, eiga við hana hversdagslegt spjall eða segja henni frá framtíðaráformum barnabarnanna. En ég veit að í góðum minningum um hana mun ég sækja styrk og hlýju um ókomna tíð.

Blessuð sé minning elsku mömmu.

Erna.