Kartúm Sumir af íbúum borgar- innar hafa reynt að flýja átökin.
Kartúm Sumir af íbúum borgar- innar hafa reynt að flýja átökin. — AFP
Átök á milli stjórnarhersins í Súdan og RSF-vígasveitanna héldu áfram í gær, fjórða daginn í röð, þrátt fyrir áköll alþjóðasamfélagsins um að boðað yrði til vopnahlés. Sameinuðu þjóðirnar áætla að 185 manns hafi fallið hið minnsta í átökunum og…

Átök á milli stjórnarhersins í Súdan og RSF-vígasveitanna héldu áfram í gær, fjórða daginn í röð, þrátt fyrir áköll alþjóðasamfélagsins um að boðað yrði til vopnahlés. Sameinuðu þjóðirnar áætla að 185 manns hafi fallið hið minnsta í átökunum og rúmlega 1.800 til viðbótar særst, en óttast er að réttar mannfallstölur geti verið mun hærri.

Bandaríkjastjórn greindi frá því að skotið hefði verið á bílalest frá sendiráði sínu, og Evrópusambandið lýsti því yfir að ráðist hefði verið að sendiherra sínum á heimili hans. Þá hafa hjálparstofnanir sagt að birgðir sínar af lyfjum og annarri neyðaraðstoð hafi verið teknar í gripdeildum.

Fregnir bárust af átökum vítt og breitt um landið, og er óttast að þau geti breiðst út til nágrannaríkja Súdans. Þá skekja sprengingar höfuðborgina Kartúm kvölds og morgna. Flestir af íbúum borgarinnar hafa neyðst til þess að halda sig heima við, en einhverjir munu þó hafa reynt að flýja átökin að sögn fréttaritara AFP-fréttastofunnar í Kartúm, þó að fá tækifæri gæfust til þess.

Utanríkisráðherrar sjö helstu iðnríkja heims funduðu í gær í Japan og sendu þeir frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem skorað var á báðar fylkingar að hætta átökunum þegar í stað. Þá lögðu Rauði krossinn og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) áherslu á að gert yrði vopnahlé svo að hægt yrði að koma mannúðaraðstoð til bágstaddra.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að hann hefði rætt við Abdel Fattah al-Burhan, yfirmann herforingjastjórnarinnar og Mohamed Hamdan Daglo, yfirmann RSF, og hvatt þá til að leggja niður vopn. Sagði Daglo í yfirlýsingu að RSF væri reiðubúið til að hætta átökum í einn sólarhring af mannúðarástæðum. Stjórnarherinn sagði hins vegar að yfirlýsing Daglos væri yfirvarp.