Á Boðnarmiði er staka eftir Bjarna Jónsson þar sem hann er staddur á Suðurströndinni 15. apríl 2023: Vorsins ríka vonarsól af veröld lýkur fargi Á klettabrík er kuldaskjól í Krýsuvíkurbjargi Guðmundur Arnfinnsson yrkir og kallar…

Á Boðnarmiði er staka eftir Bjarna Jónsson þar sem hann er staddur á Suðurströndinni 15. apríl 2023:

Vorsins ríka vonarsól

af veröld lýkur fargi

Á klettabrík er kuldaskjól

í Krýsuvíkurbjargi

Guðmundur Arnfinnsson yrkir og kallar „Röðulglóð“:

Burtu heldur himni frá,

hafsins veldi togar,

seint á kveldi sundum á

sólareldur logar.

Ingólfur Ómar Ármannsson bætir við:

Færist yfir lög og land

ljúfur aftanfriður.

Hjalar blítt við hlein og sand

hægur ölduniður.

Ingólfur Ómar orti við Héraðsvötnin sumarið 2019:

Þar sem sunnanblærinn blæs

brosir sól við skötnum.

Andinn flýgur eins og gæs

yfir Héraðsvötnum.

Björn Ingólfsson segist hafa haft þessa fallegu vorstemningu út úr Inga Steinari þennan sama morgun:

Geirmundur bóndi á Giljateig

gekk út í túnið og stoltur meig

yfir sitt land,

það var afburðahland

og uppskeruhvetjandi eðalveig.

Jón Atli Játvarðarson segir, að Svandís hafi greinilega tekið eitthvað með sér úr heilbrigðisráðuneytinu. Trúin sé enn þá eitthvað bundin við Kára:

Riðufjandinn fer um sveit,

flaumur saltra tára.

Mikla gena- mætt í leit

í Mýrinni hjá Kára.

Kristján H. Theodórsson um nýjar höfuðstöðvar Landsbankans:

Umbúðir þessar þykja mér,,

þverskurð sýna af heimsku.

Algjörlega okrið hér,

okkar þrífst á gleymsku.

Benedikt Jóhannsson yrkir limru:

Oft viðutan er ég um dásemdir dreyminn

á daglegu verkin þá títt er ég gleyminn,

því á minnismiða

mörg þeirra skrifa:

Fara úr með ruslið. Frelsa heiminn.


Sá einn mann hér sitja við,
silungsá og veiða.
Gerir það af gömlum sið,
gleymir öllum leiða.


Veiðin smitar vini enn,
veldur hjarta-slætti.
Kverkar væta vanir menn,
að veiðimanna-hætti.
Páll Jónasson í Hlíð um „brellinn bílasala“:
Húsbílaverslunin Hrabba
heimskingjann reynir að gabba,
og selja mér skrjóða
og segir þá góða
– ég held það sé langbest að labba.
Jóhann frá Flögu segir svo frá: „Þegar mölflugur, öðru nafni gestaflugur, sáust fljúga, var það talið boða gestakomu“:
Flugan gesta flýgur hér
falleg alla vega.
Því að fresta ekki er,
einhver sest í kvöld hjá mér.


Gestaflugan er hér enn
aftur á bak að fljúga.
Ekki koma margir menn;
mun hún þessu ljúga.
„Kaupmaðurinn“ eftir Svein frá Elivogum:
Kotungssálin kennist hér,
kvæði að engu metur.
Snorra og Njáli ólíkt er
andlaust kaupmanns tetur.
Þorvaldur Rögnvaldsson skáld á Sauðanesi kvað:
Þó fjöllin gæti eg fært úr stað
fyrir vísu og kvæði
mig girnir ekki að gera það
nema guð minn leyfi bæði.