Kindur Aðgerðir til að útrýma riðu verða endurskoðaðar í ljósi rannsókna á verndandi arfgerð í fjárstofninum.
Kindur Aðgerðir til að útrýma riðu verða endurskoðaðar í ljósi rannsókna á verndandi arfgerð í fjárstofninum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Fyrstu niðurstöður úr rannsókn á riðu í stóru evrópsku rannsóknarverkefni benda til þess að verndandi arfgerð fyrir riðu, ARR, sem fundist hefur hér á landi í fé á bænum Þernunesi við Reyðarfjörð virki vel á íslenskt smitefni riðu. Einnig eru vonir um að erfðabreytileikinn T137 sem fundist hefur í fé á átta bæjum hér á landi sé einnig verndandi fyrir riðu en beðið er frekari niðurstaðna. Hrútar með verndandi arfgerðina voru mikið notaðir á fengitímanum undir lok síðasta árs og er búist við að 800-900 hrútlömb fæðist í vor sem hægt verði að nota til kynbóta stofnsins strax á þessu ári, auk svipaðs fjölda gimbra. Á að vera hægt að koma verndandi arfgerðinni hratt inn í sauðfjárbú á svæðum þar sem mesta áhættan er fyrir riðu en talið ráðlegt að fara hægar í sakirnar með þess konar kynbætur fyrir sauðfjárstofn landsins í heild.

Evrópska samstarfsverkefnið um rannsóknir á riðu hófst í byrjun ársins og er það hugsað til þriggja ára. Hluti af verkefninu felst í því að beitt er svonefndri PMCA-aðferð sem lítið hefur verið notuð hér en felst í umbreytingu og mögnun á príonpróteininu í tilraunaglasi. Það er unnið á rannsóknarstofu í Frakklandi og notað smitefni úr íslensku fé. Dr. Stefanía Þorgeirsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum, segir að sent hafi verið út smitefni úr nokkrum eldri tilfellum riðu sem til voru hjá Tilraunastöðinni og einnig nýtekin heilasýni úr kindum með mismunandi erfðabreytileika. Lætur hún þess getið að ekki hafi verið hægt að fórna gripum með ARR erfðabreytileikann, þeir séu fáir og verðmætir til kynbóta hér, en í staðinn hafi sú arfgerð verið fengin frá Sviss.

T137 gagnast líka

Stefanía segir að fyrstu niðurstöður staðfesti að ARR-erfðabreytileikinn sem er alþjóðlega viðurkenndur sem verndandi gegn riðu virki vel í íslensku sauðfé „og styður okkur í þeirri trú að rétt sé að fjölga sem mest arfgerðinni frá Þernunesi.“ Staðfest hefur verið að T137 erfðabreytileikinn er verndandi gegn riðu í ítölskum fjárstofni, þótt Evrópusambandið hafi ekki enn samþykkt hann. Vísbendingar hafa komið fram í evrópska rannsóknarverkefninu um að hann sé verndandi fyrir riðu í íslensku fé en Stefanía tekur fram að ARR virki betur.

Í þeim leitarverkefnum sem unnið hefur verið að, meðal annars með beinni þátttöku bænda, hafa um 10% lifandi gripa verið greind, mest hrútar, auk sýna sem tekin hafa verið í sláturhúsum. ARR-genasamsætan hefur aðeins fundist í fé frá Þernunesi en T137 á átta bæjum, aðallega á Norðurlandi. Eyþór Einarsson, sauðfjárræktarráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, telur að þessar sýnatökur gefi ágæta mynd af samsetningu stofnsins þótt vissulega væri áhugavert að greina stærri hluta hans. Hann segist vera orðinn vonlítill um að gripir með ARR finnist víðar en telur ekki ótrúlegt að breytileiki í sæti T137 leynist víðar en komið hafi í ljós.

Stefanía Þorgeirsdóttir telur að áhugavert væri að leita betur á Austurlandi. Það segir hún í ljósi þess að þar sé Þernunes og langt sé síðan skorið hafi verið niður fé á svæðinu vegna riðu eða annarra sjúkdóma og búast megi við margbreytilegri flóru í fjárstofnum.

Þrír hrútar frá Þernunesi voru teknir inn á sæðingastöð og um tíu til viðbótar voru keyptir til notkunar á einstökum sauðfjárbúum. Enginn fór þó í Miðfjarðarhólfið þar sem riða hefur nú greinst á tveimur bæjum enda var það svæði talið ósýkt. Eyþór telur mikilvægt að ljúka rannsóknunum í Frakklandi, fá mat á þær arfgerðir sem ekki eru enn alþjóðlega viðurkenndar sem verndandi og helst að fá viðurkenningu á þeim. Eins þurfi að fylgja eftir notkun á þeim hrútum sem teknir voru inn á sæðingastöð.

Fyrstu lömbin undan sæðingahrútunum frá Þernunesi og hrútum sem seldir voru þaðan fæðast í vor. Hrútarnir eru blendingar og er við því að búast að um helmingur beri hina verndandi arfgerð. Eyþór segir að áætlanir geri ráð fyrir að um 800-900 hrútar nýtist til kynbóta, auka svipaðs fjölda gimbra. Notkunin takmarkist þó af reglum Matvælastofnunar um bann við flutningum fjár á milli og innan sauðfjárveikivarnahólfa. Segir Eyþór æskilegt að slakað verði á þessum reglum þannig að hægt verði að miðla hrútunum innan áhættusvæða, til þess að koma verndandi arfgerðinni sem hraðast inn í fjárstofnana á þeim svæðum. Matvælastofnun sé að fara yfir reglurnar og vonandi skýrist málin fljótt.

Stórt átak á næsta ári

Verið er að fara yfir það hvað þörf er á mörgum hrútum á sæðingarstöð fyrir komandi fengitíma. Ef sæðingahrútarnir verða nýttir vel á fengitímanum í ár og einnig hrútarnir sem fæðast á einstökum bæjum gætu fæðst 30-40 þúsund lömb sem þyrfti að greina næsta vor en um helmingur þeirra gæti þá borið ARR-arfgerðina vorið 2024. Er þá miðað við að liðkað verði til með flutning fjár á milli búa. Jafnframt er búist við að allar nothæfar gimbrar undan þessum hrútum verði settar á en ekki er búist við að mikið framboð verði á þeim til sölu milli búa.

Spurður hvað það taki langan tíma að láta verndandi arfgerðina verða ráðandi í fjárstofnum segir Eyþór að markmiðin geti verið mismunandi eftir svæðum. Hann segir mælt með því að ARR-arfgerðin verði innleidd sem hraðast á mestu áhættusvæðum fyrir riðu. Það þýði að þetta atriði verði haft í fyrsta sæti við kynbætur en slegið af hefðbundnum ræktunarkröfum. Innleiðingin geti þá tekið innan við 10 ár og í raun hægt að keyra þetta inn á þrem til fjórum árum á einstaka búum. Eyþór bendir þó á að ákveðinn fórnarkostnaður myndi fylgja mjög hraðri innleiðingu vegna þess að ám yrði lógað út úr hjörðunum áður en þær hafi skilað sínu og skyldleikarækt myndi aukast mjög sem væri þó ekki áhyggjuefni fyrir einstaka bú.

Aftur á móti er ekki mælt með því að þannig sé unnið fyrir sauðfjárstofninn í landinu, að sögn Eyþórs. Mikilvægt sé að halda fjölbreytileika og koma í veg fyrir of mikla skyldleikarækt í heildar fjárstofni landsins svo að búin á mestu áhættusvæðunum geti síðar sótt sér erfðaefni til hefðbundinna kynbóta.

Þessar aðferðir geta ekki bjargað málum í Miðfjarðarhólfi sem er í umræðunni nú vegna niðurskurðar vegna riðu á tveimur stórum sauðfjárbúum. Bændur á svæðinu hafa lýst þeirri skoðun sinni að breyta ætti um aðferðir í baráttunni gegn riðu, nota kynbótaaðferðina í stað algers niðurskurðar. Innleiðing nýrrar stefnu tekur væntanlega lengri tíma. Matvælastofnun hefur óskað eftir því við vísindamenn við Landbúnaðaháskóla Íslands að þeir meti aðferðirnar. Hyggst Svandís Svavarsdóttir nýta ráðgjöf þeirra við endurskoðun reglna til framtíðar. Eyþór segir mikilvægt að gripum með verndandi arfgerð verði þyrmt þegar riðuniðurskurður er ákveðinn, strax á næsta ári. Til þess þurfi breytingar á reglugerð.

Riðumálin hafa verið til umfjöllunar víða, meðal annars á fundum í Miðfirði. Stefanía flytur erindi um rannsóknirnar á vísindadegi Keldna sem er í dag á bókasafni Tilraunastöðvarinnar, í tilefni af 75 ára afmæli stöðvarinnar.