Áfram Forward with Dance er danshópur fyrir unga dansara, 18-30 ára, og er Listahópur Reykjavíkur 2023.
Áfram Forward with Dance er danshópur fyrir unga dansara, 18-30 ára, og er Listahópur Reykjavíkur 2023.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Innblástur verksins er í stuttu máli samvinna. Ég er að spegla í verkinu skynjun, innsæi og næmi, ekki endilega út frá mannlegri reynslu heldur ímyndum við okkur óræðar verur lifna við og þroskast og þróast og hvernig þær vinna saman til að…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Innblástur verksins er í stuttu máli samvinna. Ég er að spegla í verkinu skynjun, innsæi og næmi, ekki endilega út frá mannlegri reynslu heldur ímyndum við okkur óræðar verur lifna við og þroskast og þróast og hvernig þær vinna saman til að ná sínu takmarki,“ segir Ernesto Camilo Aldazábal Valdes um verkið Harmony sem listahópurinn Forward with Dance frumsýnir í Tjarnarbíói á morgun, fimmtudag, kl. 18 og 20. Átta dansarar, sem allir eru að feta sín fyrstu spor á atvinnudansferlinum, taka þátt í verkinu en auk þess að semja verkið á Camilo einnig heiðurinn af tónlistinni sem hann semur samhliða verkinu.

„Ákveðnar hreyfingar sem verða í æfingaferlinu kalla á ákveðna tónlist og Unnsteinn Manúel [Stefánsson] hefur verið mér innan handar en já, verkið og tónlistin verða til á sama tíma, sem býður upp á að það taki stundum óvæntar stefnur og skemmtilegar, en gerir mér ekki beint auðveldara fyrir,“ segir hann og hlær.

Sprenglærður dansari

Ernesto Camilo fæddist árið 1990 á Kúbu. Hann lærði í listdansskólanum La Escuela Nacional de Arte og útskrifaðist með diplómu í dansi og kennslu. Í framhaldi af því stundaði hann nám við Instituto Superior de Arte, listaháskólann í Havana. Hann vann sem dansari í dansflokknum Danza Espiral þangað til hann flutti til Íslands 2011. Síðan þá hefur hann unnið sem dansari, danshöfundur og leikari í ýmsum uppsetningum hjá Íslenska dansflokknum, Íslensku óperunni, Borgarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu og ýmsum sjálfstæðum sviðsverkum. Hann hefur verið tilnefndur sem leikari ársins í Sögum – verðlaunahátíð barnanna, sem dansari ársins á Grímunni og fékk svo, ásamt Rebeccu Hidalgo, grímuverðlaun fyrir sviðshreyfingar í Rómeó og Júlíu í Þjóðleikhúsinu árið 2022. Camilo hefur unnið í Klassíska listdansskólanum frá árinu 2013 sem nútímadanskennari og aðstoðarskólastjóri.

Talar íslensku reiprennandi

Hvernig kom það til að þú fluttist til Íslands?

„Ég kynntist íslenskri listakonu sem var á Kúbu og bauð mér að koma til Akureyrar að kynnast listalífinu þar og kenna. Sem ég gerði í þrjá mánuði. Svo fékk ég samning í eitt ár árið 2012 og þá ákvað ég að flytja til Íslands.“

Camilo talar nánast lýtalausa íslensku og blaðamaður stenst ekki freistinguna að spyrja hvort það hafi verið erfitt að læra málið.

„Sko, þegar ég byrjaði að kenna þá kunni ég bara spænsku. Enga ensku. Ég held að það hafi auðveldað mér mjög mikið að læra málið því mjög fáir Íslendingar tala spænsku. Þetta gekk hægt í fyrstu en ég er altalandi í dag. Sem betur fer.“

Fá tækifæri fyrir unga dansara

Líður þér vel á Íslandi?

„Mjög vel. Það er auðvitað allt annað að búa hér en á Kúbu. Það var erfiðast að venjast vetrunum en ég hef fundið mig mjög vel á Íslandi og mér líður yndislega hérna.“

Hver er helsti munurinn á íslenskri dansmenningu og þeirri kúbversku?

„Á Kúbu eru listir gríðarlega stór hluti af hinu daglega lífi. Ef maður vill verða dansari og komast inn í virtan dansskóla þarf maður að þreyta inntökupróf með mörg hundruð öðrum krökkum. Sex hundruð krakkar þreyttu prófið árið sem ég komst inn og það ár komust 40 krakkar áfram. Fólk sækir mikið listsýningar, danssýningar og tónleika. Hér á Íslandi er sviðslistalífið enn að þróast og við þurfum bara að halda áfram og vanda okkur og þá kemur fólk og þá verður líka hægt að fjölga dansflokkum og koma dansi á hærra og virðulegra stig en er í dag. Það eru alltof margir krakkar hér á landi sem hafa áhuga á að læra dans og hafa hæfileika til að ná langt en skortir tækifærin.“