Fjölskyldan Sigurður, Evelyn og dætur um síðustu jól.
Fjölskyldan Sigurður, Evelyn og dætur um síðustu jól.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Friðriksson, Diddi Frissa, fæddist 19. apríl 1949 í Sandgerði, á æskuheimili sínu Ási. Lengst af bjó fjölskyldan í Fagurhlíð og síðan Vallargötu 14. „Foreldrar mínir koma upp sjö börnum og það var sagt um Hönnu Rósu móður mína að hún hefði varla haft tíma til að fæða mig vegna vinnu

Sigurður Friðriksson, Diddi Frissa, fæddist 19. apríl 1949 í Sandgerði, á æskuheimili sínu Ási. Lengst af bjó fjölskyldan í Fagurhlíð og síðan Vallargötu 14.

„Foreldrar mínir koma upp sjö börnum og það var sagt um Hönnu Rósu móður mína að hún hefði varla haft tíma til að fæða mig vegna vinnu. Sú saga var þrálát í Sandgerði að mamma hefði skroppið heim úr vinnunni í hádeginu til að eiga mig. En auðvitað var sagan til marks um þann dugnað sem sögur fóru af móður minni.“

Í æsku Didda er Sandgerði þorp í kringum höfn sem lá að fengsælum fiskimiðum. „Leiksvæði barnanna var höfnin, móinn og heiðin í kringum húsin og íbúðabyggðina. Krían er fugl Sandgerðinga og kríuhreiður voru algeng í okkar nærumhverfi og húsalóðum.“

Í heiðinni stóðu fiskihjallar sligaðir af signum fiski sem þótti herramannsmatur og var algengur matur á borðum í æsku hans. Diddi fór oft á hjallana til að ná í soðningu og dró á eftir sér seilaðan bútunginn á moldugum vegslóðanum í heiðinni beint í pottinn. Þá var hann duglegri við að gella fiskhausa og ná í rauðmaga í fjörum og selja í hús en sækja námið í barnaskólanum. Hann fór þó að ráðum skólastjórans og lærði margföldunartöfluna á einu kvöldi. Sá lærdómur hefur fleytt honum lengra en flest annað í lífinu.

Diddi var 12 ára þegar hann var munstraður á sjóinn eða um það leyti þegar hann hætti stopulu námi í Barnaskóla Sandgerðis. Sjómannsferillinn stóð yfir í 46 ár og var hann lengst af skipstjóri og útgerðarmaður á Guðfinni KE 19. Hann var 15 ára kominn á togara og síðan á farskip og var því orðinn reyndur sjómaður áður en hann náði 16 ára aldri. Hann fór í Stýrimannaskólann í Reykjavík og sótti sér hið meira fiskimannspróf og II. stig í skólanum. Hann var stýrimaður á togurum og bátum þar til hann fór í eigin útgerð.

Diddi fékk fyrsta tækifærið sem afleysingaskipstjóri á bátum frá Sandgerði, fyrst á Mumma GK 120 og gekk vel að fiska á hann. Þá tók við bátur frá Vestmannaeyjum, Hannes lóðs VE 7. Þá tók hann við sem skipstjóri á Svartfugli GK 200 og í kjölfarið tók hann við Freyju GK 110 þar sem honum gekk mjög vel. Á þeim bát fór hann einn stærsta róður sinn á ferlinum þegar hann lagði línu utan Eldeyjarboða. Þá varð sá sjaldgæfi atburður að línan flaut öll upp, en fiskur var á hverju einasta járni. Þá tók hann við Bergvík KE 55 sem honum gekk ákaflega vel með og í framhaldi af því var ákveðið að Diddi færi í Stýrimannaskólann til að taka við stærri bátum.

Eftir skólann fór Diddi á skuttogarann Aðalvík KE með Markúsi Guðmundssyni skipstjóra og var þar um borð þar til Markús hætti. „Þá fór ég á Ólaf Jónsson GK og þaðan á Framtíðina KE. Var þar um borð með Sigurði Kristinssyni þar til ég fór í eigin útgerð.“

Útgerðarsaga Didda hófst 1. ágúst 1981 þegar hann í félagi við fleiri keypti Sturlaug II, sem var 30 tonna frambyggður bátur. Hann fékk nafnið Guðfinnur og fór báturinn í gegnum gagngerar endurbætur, vélarskipti og stækkanir sem Diddi hannaði eftir sínu höfði og þóttust takast með eindæmum vel.

Diddi var þekktur aflamaður og enginn stóðst honum snúning á rækjuveiðum við Eldey á árunum 1981-1996. Margar fréttir birtust um ótrúleg aflabrögð hans í fjölmiðlum og sýnt fram á að hann aflaði jafnvel tvöfalt á við næstu báta. Pláss á bátum hans voru eftirsótt sem tekjuhæstu plássin á Suðurnesjum um árabil.

Diddi þótti harður sjósóknari og fylginn sjálfum sér þrátt fyrir erfiðan og kvalafullan gigtarsjúkdóm sem hefur hrjáð hann í áratugi. Þá rak útgerðin fiskverkun og var það einstakt að afurðir vinnslunnar voru ekki veðsettar, sem endurspeglar góða fjárhagsstöðu fyrirtækis hans. Því hefur verið haldið fram af þeim sem þekkja sögu Didda Frissa best að líklega hafi hann aldrei tekið ranga ákvörðun í fjárfestingum í útgerðinni æ síðan.

Árið 2006 keypti Diddi hótel í Reykjavík og í framhaldinu stofnaði hann bílaleigu. Í dag hefur hann selt hótelið en rekur eina stærstu bílaleigu landsins á Ásbrú, rútubílaútgerð, ferðaskrifstofu og hótel.

Diddi hefur um árabil verið
í forystusveit SÁÁ og var varaformaður samtakanna og lengst af í framkvæmdastjórn og byggingarnefnd en þar hefur hann mikið látið til sín taka. Á hans tíma var Von í Efstaleiti byggð, stækkun sjúkrahússins á Vogi og keyptur var hluti af göngudeildinni á Viðarhöfða 2, þar sem er 15 íbúða áfangaheimili, en sjálfur átti hann helminginn af húsinu sem hann leigði SÁÁ. Uppbygging áfangaheimilisins var hans persónulega áhugamál. Meðferðarstöðin Vík á Kjalarnesi var stækkuð um 3.500 fermetra með 61 einstaklingsherbergi. Talað hefur verið um að nýbyggingin á Vík væri mesta breytingin á meðferðarumhverfinu hjá SÁÁ á sl. 40 árum.

Diddi hefur stundað sjóböð við Ísland og Grænland í fjölda ára. „Það felst í því heilsubót að synda í köldum sjö, jafnvel innan um ísjaka.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurðar er Evelyn Rojas Tagalog, f. 21.4. 1965 í borginni Ormoc City Leyte á Filippseyjum. Foreldrar hennar: Casimera Tagalog, f. 1937, d. 2023, og Macario Tagalog, f. 1938.

Dóttir Sigurðar og Evelyn er
Amanda, f. 13.8. 2004. Fósturdóttir þeirra er Sophie Tagalog, f. 25.9. 2016.

Börn Sigurðar með fyrrverandi maka, Margréti Sigurðardóttur, f. 1.1. 1954 eru: 1) Ragnheiður, f. 28.12. 1977, húsmóðir í Hafnarfirði og á þrjú börn. Maki: Guðmundur Sigurðsson; 2) Hafrún, f. 12.6. 1981, húsmóðir á Akranesi og á fjögur börn. Maki: Þorsteinn Benediktsson. Margrét átti fyrir tvær dætur, þær eru: Elínborg Kristinsdóttir, f. 20.8. 1972, húsmóðir í Keflavík og á tvö börn. Maki: Helgi Bragason; Lóa Kristín Kristinsdóttir, f. 26.4. 1974, vinnur í Myllubakkaskóla, búsett í Keflavík og á tvö börn. Maki: Sigurður Hinriksson.

Systkini Sigurðar: Guðmundur, f. 14.3. 1947, Sæmundur, f. 24.10. 1949, d. 9.10. 2022, Einar, f. 13.3. 1951, d. 8.10. 2008, Erlendur, f. 17.4. 1953, Guðlaug, f. 14.1. 1958, og Hafdís Hulda, f. 29.8. 1962.

Foreldrar Sigurðar voru hjónin Friðrik Sigurðsson, f. 25.11. 1920, d. 10.8. 1974, vélstjóri, og Jóhanna Rósa Guðmundsdóttir, f. 24. 1925, d. 2.1. 2000, húsmóðir. Þau bjuggu allan sinn hjúskap í Sandgerði, en Jóhanna var síðast búsett í Reykjavík.