Hafdís Aðils Gunnarsdóttir fæddist í Brautarholti í Dalasýslu 8. maí 1951. Hún lést á Landakoti 9. apríl 2023 eftir langvarandi veikindi.

Foreldrar hennar voru Gunnar A. Aðalsteinsson, f. 3.9. 1926, d. 16.11. 2002, og Steinunn Árnadóttir, f. 15.5. 1929, d. 22.6. 2021. Systkini Hafdísar eru: Sólrún, f. 1950, Trausti, f. 1953, Tryggvi, f. 1956, Ingileif, f. 1958, og Árný, f. 1964.

Hafdís giftist 29.9. 1972 eftirlifandi eiginmanni sínum, Nikulási Árna Halldórssyni, f. 3.5. 1946, skipstjóra og húsasmíðameistara. Börn þeirra eru: 1) Gunnur Steinunn, gift Þorkeli Má Hreinssyni. Þeirra börn eru: a) Nikulás Árni, í sambúð með Hrafnhildi Helgadóttur. Barn þeirra er Guðrún Myrra, b) Hafdís Guðrún, maki Sigurður Bjarni Sigurðsson, c) Lárus Aðils. 2) Halldór Þorsteinn, kvæntur Gisleine Ribeiro. Börn þeirra eru: a) Eric Ribeiro, b) Nikulás Árni, c) Eva Björt. 3) Steinar Árni, kvæntur Karen Björnsdóttur. Börn þeirra eru: a) Kristján Bjarni, b) Hafsteinn Árni, c) Guðrún Auður.

Hafdís ólst upp í Brautarholti og var hún þar foreldrum sínum stoð og stytta við heimilisstörfin enda vel verki farin og forkur dugleg. Hún fór í Húsmæðraskólann á Laugarvatni fyrir tvítugt og jók þar enn við kunnáttu sína og þekkingu á öllu því sem sneri að heimilishaldi. Eins og við var að búast fékk slíkur kvenkostur ekki að vera laus og liðugur lengi. Á vegi hennar varð eðaldrengurinn Nikulás Árni og varð þá ekki aftur snúið. Þeim fæddist fljótlega dóttir og var hún skírð í brúðkaupi þeirra. Þau hófu búskap á Kársnesbraut 49 í íbúð sem Nikki hafði eignast áður en þau kynntust. Síðan fluttu þau í Völvufell 34 og bjuggu þar í nokkur ár þangað til þau fluttu í Stórahjalla 15. Þar bjuggu þau lengst af sín búskaparár eða allt þar til þau minnkuðu við sig og fluttu í Austurkór 125.

Fyrstu árin vann Hafdís verslunarstörf í Nesti og víðar en á meðan börnin voru að komast á legg var hún að mestu heimavinnandi, enda sjómannskona og þurfti sem slík að annast allan rekstur heimilisins og uppeldi barnanna í fjarveru Nikka. Þegar um hægðist fór hún aftur út á vinnumarkaðinn og unnu þær systurnar Sólrún og hún saman við ræstingar um árabil.

Hafdís var ekki gömul þegar heilsan fór að gefa sig. Um sextugt var hún orðin illa haldin af ýmsum alvarlegum sjúkdómum. Hún tókst á við heilsuleysið af aðdáunarverðu æðruleysi og dugnaði og var það með hreinum ólíkindum hvað þessi fíngerða kona var mikill hörkunagli í öllum sínum veikindum. Hún breytti sínum lífsstíl þannig að hún helgaði krafta sína nær eingöngu sínum nánustu en minnkaði samskiptin út á við. Reyndist það verða þeim öllum mjög farsælt.

Útför Hafdísar verður gerð frá Digraneskirkju í dag, 19. apríl 2023, klukkan 13.

Í dag kveðjum við okkar yndislegu móður sem vildi allt fyrir alla gera, var umhyggjusöm, hjartahlý, úrræðagóð og hugsaði alltaf fyrst og fremst um aðra. Allar ljúfu minningarnar úr æsku og líka í seinni tíð eru orðnar dýrmætar fjársjóðsperlur. Skipsferðirnar með henni og pabba til erlendra landa, sumarbústaðaferðirnar og alltaf heimabakað fyrir þær ferðir og ferð okkar systkinanna með mömmu til Glasgow er ógleymanleg. Mamma var handlagin kona og lék allt í höndunum á henni, dugleg við saumaskap og snillingur í tertubakstri.

Mamma var vinmörg og hrókur alls fagnaðar þar sem hún kom, var fljót að snúa út úr, sá spaugilegu hliðarnar á hlutunum og var mjög stríðin. Hún var mikið fyrir tónlist og talaði hún oft um Brautarholt og söng í sömu setningunni, var dugleg í spilamennsku og að fá hana til að spá í bolla var mjög spennandi. Í veikindum sínum þótti henni mjög gott að hlusta á tónlist og var oftar en ekki sungið með. Mamma elskaði hópinn sinn og voru barnabörnin öll mjög hænd að henni, þau lýsa ömmu sem góðri ömmu og hún hafi gefið bestu faðmlögin auk þess var hún mjög dugleg að fylgjast með þeim.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir upp ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Góða nótt, Guð geymi þig og dreymi þig vel.

Takk fyrir allt elsku mamma.

Þín börn,

Gunnur, Halldór

og Steinar.

Nikulás Árni:

Amma mín var alltaf svo góð við mig og alltaf svo glöð. Hún hugsaði alltaf vel um mig þegar ég kom í heimsókn. Hún var með hlýjasta og besta faðminn.

Ég bjó hjá ömmu og afa í 3 ár og hef alla tíð verið mjög tengdur ömmu.

Ég sakna þín, amma, svo sárt og elska þig svo mikið. Ég mun aldrei gleyma þér og stundunum okkar saman. Hvíldu í friði elsku amma mín, þú verður alltaf í hjartanu mínu.

Eva Björt:

Þú varst alltaf svo skemmtileg og góð, ég sakna þín rosalega mikið og ég elska þig.

Ég var að syngja í Kópavogskirkju síðasta sunnudag með kór Kársnesskóla og ég hugsaði til þín þegar við sungum lagið "Vorið kemur", lagið sem við sungum svo oft saman.

Gleruglan sem þú gafst mér hefur alltaf verið á náttborðinu mínu

og ég mun geyma hana vel alveg eins og ég mun geyma þig í hjarta mínu.

Nikulás Árni

og Eva Björt.