Lára Sesselja Hansdóttir fæddist í Reykjavík 18. apríl 1940. Hún lést á elliheimilinu Grund 6. apríl 2023.

Foreldrar Láru voru hjónin Arndís Skúladóttir, f. 25. janúar 1911, d. 5. júní 1987, og Hans Guðmundsson, f. 24. nóvember 1914, d. 27. maí 1967. Systkini Láru eru Othar, f. 1934, d. 2006, Elín f. 1938, d. 2017, og Hrafnhildur f. 1943.

Lára giftist 8. nóvember 1957 Þorgeiri Halldórssyni, f. 20. ágúst 1937, d. 15. júlí 2003. Móðir Þorgeirs var Guðbjörg Sigurðardóttir, f. 20. september 1913, d. 18. júní 1987. Faðir Þorgeirs var Halldór Ásgeirsson, f. 5. ágúst 1893, d. 17. júní 1976.

Börn Láru og Þorgeirs eru: 1) Hrafn, f. 11. júlí 1958. Fyrrverandi kona Hrafns er Margrét Ágústsdóttir. Dóttir þeirra er Lára. Hennar sambýlismaður er Ásbjörn Daníel Ásbjörnsson og eiga þau soninn Matthías. Fyrir á Margrét börnin Kristínu Ágústu og Franklín Jóhann. Sambýliskona Hrafns er Vilda Tamosaityte. 2) Halldór, f. 25. janúar 1960, kvæntur Guðnýju Halldórsdóttur. Sonur þeirra er Halldór f. 1985, kvæntur Magneu Guðmundsdóttur. Börn Halldórs eru Kári, Guðný og Flosi. Fyrir á Halldór dæturnar Eddu Margréti, í sambúð með Christopher David Wright, þeirra sonur er Benjamín Bjarki, og Tinnu Björk, í sambúð með Halldóri Þór Helgasyni. 3) Arndís, f. 29. september 1967, í sambúð með Helga Sverrissyni. Þeirra synir eru Þorgeir, f. 1992, sambýliskona hans er Elín Edda Þorsteinsdóttir, og Hringur, f. 1994, sambýliskona hans er Sunna Dögg Guðmundsdóttir. Sonur Helga er Svafar.

Lára ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Lára og Þorgeir fluttust búferlum vestur um haf árið 1962 og settust að á Long Island í New York. Lára var heimavinnandi húsmóðir á meðan fjölskyldan bjó í Bandaríkjunum en þau sneru aftur til Íslands í apríl 1970. Sætún á Seltjarnarnesi varð heimili þeirra hjóna í rúma tvo áratugi. Þau bjuggu um skeið við Austurbrún í Reykjavík en eftir að Þorgeir lést flutti Lára á Sólvallagötuna og síðar á Vitastíg. Hún bjó á Grund við Hringbraut frá 2018 til dánardags.

Lára starfaði lengst af sínum starfsferli hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur, síðar Tryggingastofnun. Hún hafði ævinlega ábyrgðarstörf með höndum og var deildarstjóri um langt árabil. Lára lét af störfum hjá Tryggingastofnun skömmu fyrir sjötugsafmælið sitt.

Lára sinnti félagsmálum af kappi alla tíð. Hún var félagi í Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness en hún lét sig kjarabaráttu einnig varða og átti sæti í stjórn og samninganefnd SFR um árabil.

Útför Láru verður gerð frá Neskirkju í dag, 19. apríl 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er erfitt að kveðja ömmu sína. Jafnvel þó maður sé að nálgast fertugt. Jafnvel þó maður hafi kvatt hana í huganum fyrir mörgum árum – þegar hún gufaði hljóðlega upp og villtist í þeim þéttvaxna skógi sem vex á milli skynjunar manneskjunnar á núinu og minninganna um það sem er liðið. Ömmur eru svolítið eins og úlpur, maður tekur þeim sem sjálfsögðum hlut, en í fjarveru þeirra finnur maður hvað kuldinn er sár og hlýjan notaleg – nauðsynleg.

Ég eyddi miklum tíma á Lambastaðabrautinni, hjá ömmu Láru og afa Dodda. Þar átti ég litla leyni-veröld, algjörlega ólíka þeirri sem ég átti í Mosfellsdalnum. Þar var keypt Stöð 2, Cocoa Puffs og fleiri munaðarvörur sem voru langt í frá sjálfsagðar á tíunda áratugnum. Ég fór með þeim í sumarbústaði á vegum verkalýðsfélaga, fjölskylduskemmtanir fyrirtækja, ég fékk að hanga á skrifstofu Tryggingastofnunar í miðbænum einstaka sinnum. Þótti það kannski ekki ýkja spennandi þá, en í dag vildi ég óska þess að hafa verið þar oftar, verið þar lengur, leiðst enn meira. Bara óska þess að hafa átt fleiri augnablik með ömmu minni.

Amma mín er í minningunni ein af þeim sem eru yfirleitt sammála síðasta ræðumanni. Henni leiddist að deila við fólk, leiddist að vera ósammála. Hún var spör á óánægju sína, flækti ekki hlutina – lét sjálfa sig ekki flækjast fyrir að óþörfu. Og það er nákvæmlega þetta fótspor sem hún skildi eftir í hjartanu á mér. Og það er þetta spor sem ég ætla að innræta mínum eigin börnum, og vonandi barnabörnum sem ég get matað á Cocoa-puffsi um leið.

Þegar ég hugsa um þessar helgar á Seltjarnarnesi, þá hugsa ég um fransbrauð með osti og sultu. Ég var vanur venjulegu samlokubrauði og alveg óvanur sultu. En svona var amma Lára. Hún var drottning hins hversdagslega munaðar.

Í dag kveðjum við fjölskyldan Láru Hansdóttur og mér finnst notalegt að sjá tárin falla á lyklaborðið, notalegt að hugsa um ömmu mína, skrifstofu Tryggingastofnunar, Mitsubishi Lancerinn, hugsa um hlýjuna – bara eins og úlpan sé þarna ennþá, þrátt fyrir allt.

Bless elsku amma mín. Ég mun flagga þínum litríka fána í huga mínum og sjá þig birtast lifandi fyrir hugskotssjónum mínum í hvert skipti sem ég bít í ristað brauð með osti og sultu.

Halldór Laxness

Halldórsson.