Magdalena Helga Óskarsdóttir fæddist í Reykjavík 21. ágúst 1958. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Roðasölum í Kópavogi 9. apríl 2023.

Móðir hennar var Oddný Nanna Jónsdóttir, f. 5. maí 1935, d. 23. desember 2014. Faðir hennar var Óskar Guðmundsson, f. 20. maí 1933, d. 18. janúar 2016. Hún var næstelst fjögurra barna þeirra, en systkini Helgu eru Bjarni Þór Óskarsson, f. 19.8. 1955, Anna Kristín Óskarsdóttir, f. 14.11. 1960, og Oddný Nanna Óskarsdóttir, f. 29.8. 1964.

Eftirlifandi eiginmaður Helgu er Snorri Traustason f. 1.12. 1962. Þau gengu í hjónaband þann 13. júlí 1991 á Kýpur. Sonur Helgu er S. Sölvi Stefánsson, f. 1988. Dóttir Helgu og Snorra er Nanna María Björk Snorradóttir, f. 1992.

Helga stundaði grunnnám við Emerson College í Englandi og lauk þar námi í listmeðferðarfræði frá Tobias School of art & therapy árið 1985. Helga lauk meistaranámi í Waldorf-uppeldis- og kennslufræði frá Rudolf Steinerhoyskolen í Ósló árið 2009.

Helga er einn af frumkvöðlum Waldorf-stefnunnar á Íslandi. Hún var einn af stofnendum fyrsta Waldorf-leikskólans á Íslandi árið 1989 og síðan stofnaði hún Waldorfleik- og grunnskólann Sólstafi árið 1994 ásamt eiginmanni sínum og fleirum. Skólastarfið var hennar hjartans mál alla tíð og skilur hún eftir sig mikilvægt brautryðjendastarf í anda Waldorf-stefnunnar.

Útför hennar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 19. apríl 2023, klukkan 15.

Elsku mágkona, vinkona og systir.

Með sorg í hjarta og hugann fullan af góðum minningum kveð ég þig í dag, elsku Helga.

Við höfðum fengið að fylgjast að í tæp 40 ár. Ég hélt að árin yrðu miklu fleiri. Sá fyrir mér tvær gamlar kerlingar sem ræktuðu lífrænt grænmeti í sveitinni, fengju sér súkkulaðiköku í morgunmat og færu í búðir að skoða og kaupa skó fyrir næsta tilefni.

Þú varst eitt mesta náttúrubarn sem ég hef fengið að kynnast. Ef þú sást fallegan hyl, lækjarsprænu eða lygnan sjó hikaðir þú ekki við að fletta þig klæðum, fara út í og baða þig. Sagðir þú mér að tilfinningin við köld böð væri ólýsanleg, en hún líktist helst því að vera ástfanginn. Með þessa vitneskju og síðan upplifun fór ég að stunda sjóböð með þér um tíma.

Þú sást fegurðina í því smæsta, bentir mér á og opnaðir augu mín fyrir ýmsu í umhverfinu sem ég hafði ekki tekið eftir áður. Eftir göngur úti í náttúrunni var bakpokinn þinn fullur af dýrgripum sem þú ætlaðir að nota í skólanum eða garðinum þínum.

Mér er mjög minnisstætt þegar ég sagði þér að ég hafði farið út með bekkinn sem ég kenndi að tína upp rusl í nágrenninu. Þú bentir mér á að það væri alls ekki rétta nálgunin að benda börnunum á ruslið og ljótleikann, heldur ætti að leggja áherslu á fegurðina, að við værum að fara út að fegra og bæta umhverfið. Báðar vorum við kennarar en hvor með sinn grunninn. Við gátum endalaust talað um kennsluaðferðir og börn. Margt af því sem þú fræddir mig um færði ég inn í skólastofuna hjá mér.

Þú varst einn af stofnendum Waldorf- leik- og grunnskóla Sólstafa. Elja þín og óbilandi trú á Waldorf-hugmyndafræðinni var aðdáunarverð.

Þú varst alltaf með hugann við skólann, byggðir upp ný skólahús, hlúðir vel að þeim og gekkst í öll störf. Það var ósjaldan, þegar við hittumst, að þú sagðir að þú þyrftir að fara fyrst niður í skóla til að gera og græja.

Fyrir sjö árum buðuð þið Snorri mér vinnu við leikskólann, sem ég þáði og varð þar með hluti af Sólstafa-Waldorfsamfélaginu. Vorum við þá líka orðnar vinnufélagar og kynntist ég enn annarri hlið á þér.

Það er mér ógleymanleg og dýrmæt minning á síðustu skólaslitum þínum i fyrravor, þegar þú varst heiðruð fyrir störf þín við skólann. Undir ræðunni stóð ég við hlið þér, við héldumst í hendur, tár fylltu augu okkar beggja.

Á þeim tíma trúði ég því ekki að þetta væru þín síðustu skólaslit.

Elsku Helga, takk fyrir samfylgdina, samveruna og vináttuna í gegnum árin. Ég sakna þín.

Elín Traustadóttir.