Sáttamiðlun BSRB-félögin vísuðu deilunni 4. apríl til sáttasemjara.
Sáttamiðlun BSRB-félögin vísuðu deilunni 4. apríl til sáttasemjara. — Morgunblaðið/Golli
Ellefu aðildarfélög BSRB hafa sameiginlega vísað kjaradeilum félaganna og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) til ríkissáttasemjara. Félögin náðu í lok mars samkomulagi um nýja kjarasamninga við ríkið og Reykjavíkurborg en ekki…

Ellefu aðildarfélög BSRB hafa sameiginlega vísað kjaradeilum félaganna og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) til ríkissáttasemjara. Félögin náðu í lok mars samkomulagi um nýja kjarasamninga við ríkið og Reykjavíkurborg en ekki hefur gengið saman í viðræðunum við samninganefnd sveitarfélaganna að undanförnu. Árangurslaus sáttafundur var síðast haldinn í fyrrakvöld og hefur ekki verið boðað til frekari funda.

Viðsemjendur eru bundnir trúnaði um innihald viðræðnanna og geta litlu svarað um ástæður þess að ekki hefur tekist að ganga frá kjarasamningum við sveitarfélögin eins og gengið var frá við ríki og Reykjavíkurborg. „Það eru atriði í kjarasamningnum og framkvæmd hans sem við höfum ekki náð saman um,“ segir Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis. BSRB, BHM og KÍ voru í samfloti í samningagerðinni við viðsemjendur hjá ríki, borg og SNS, sem voru líka í samfloti, en Þórarinn bendir á að eðli máls samkvæmt sé umhverfi bæði félaganna og launagreiðendanna ekki nákvæmlega eins á milli allra. „Samt sem áður fannst okkur við vera á nokkuð góðri leið með að ná vel utan um öll verkefnin í þessum skammtímasamningum sem eru ekki mjög flóknir.“ Ýmsir þættir kjarasamninga séu að ýmsu leyti ólíkir á milli félaga og á milli launagreiðenda og því miður hafi félögin ekki enn náð landi með sveitarfélögunum. „Það ber þarna aðeins á milli um atriði sem við teljum að við verðum að ná lagfæringu á áður en við getum skrifað undir en það reynist vera þyngra fyrir fæti en við áttum von á.“ Félögin ætla nú að bera saman bækur sínar og reyna að sameinast um einhvers konar heildarmynd og ætla að gefa sér tíma til að skoða það vandlega.
omfr@mbl.is