Texasbúi fær sér einn kaldan á bar í Austin. Bud Light-málið ætti að vera öllum tilefni til að staldra aðeins við.
Texasbúi fær sér einn kaldan á bar í Austin. Bud Light-málið ætti að vera öllum tilefni til að staldra aðeins við. — AFP/Brandon Bell
Ætli það sé ekki vissara að ég byrji á að telja upp nokkrar trans konur sem eru í miklum metum hjá mér: Fyrst myndi ég þurfa að nefna Chelsea Manning, sem ljóstraði upp um voðaverk Bandaríkjahers og opinberaði fjölmargar syndir bandarískra stjórnvalda

Ætli það sé ekki vissara að ég byrji á að telja upp nokkrar trans konur sem eru í miklum metum hjá mér:

Fyrst myndi ég þurfa að nefna Chelsea Manning, sem ljóstraði upp um voðaverk Bandaríkjahers og opinberaði fjölmargar syndir bandarískra stjórnvalda. Manning hefur þurft að þola meira en flestir og hún er manneskja sem við mættum öll taka okkur til fyrirmyndar.

Ég fæ heldur ekki vatni haldið yfir snilli og persónutöfrum Wendy Carlos sem var frumkvöðull á sviði raftónlistar og samdi m.a. tónlist fyrir Kubrick-perlurnar A Clockwork Orange og The Shining, og fyrir vísinda-ævintýramyndina Tron. Á YouTube má finna eldgömul og einkar skemmtileg viðtöl BBC við Carlos þar sem hún sýnir tæki sín og tól og útskýrir tæknina á aðgengilegan hátt.

Þá stend ég í þakkarskuld við þær Lönu og Lilly Wachowski fyrir að semja og leikstýra mörgum af mínum uppáhaldskvikmyndum, s.s. Matrix-myndunum, V for Vendetta, og Cloud Atlas, en mig grunar að ef ég fengi einhvern tíma að sitja á skrafi með þeim systrum værum við ekki lengi að fara í hár saman – ég verandi hægrisinnaður karlpungur og þær hinum megin á pólitíska litrófinu. Mig grunar líka að ég myndi ekki eiga nokkra samleið með hinni geislandi fögru Dominique Jackson, sem er þekktust fyrir að fara með aðalhlutverkið í þáttaröðinni Pose sem allir ættu að sjá.

Þá verður Caroline Cossey alltaf í sérstöku uppáhaldi hjá mér, bæði fyrir þær sakir að vera (svo vitað sé) fyrsta trans konan til að birtast á skjánum í James Bond-mynd (For Your Eyes Only með Roger Moore), og fyrir baráttu hennar fyrir réttindum trans fólks.

Kemst þó engin þessara kvenna með tærnar þar sem Deirdre McCloskey er með hælana, en hún er ein af snjöllustu núlifandi fræðimönnum frjálshyggjuhagfræðinnar. McCloskey hóf ferilinn við Chicago-háskóla við hlið Miltons Friedmans en kennir í dag hagfræði, sögu og ensku við Illinois-háskóla í Chicagoborg. Sumum gæti þótt erfitt að hlusta á McCloskey vegna mislukkaðrar aðgerðar á raddböndum sem varð þess valdandi að það hvín í röddinni þegar hún talar. En hún er aftur á móti leiftrandi penni og skrifar bæði fræðandi og grípandi texta. Mæli ég sérstaklega með grein sem hún fékk birta í Wall Street Journal í júní 2016 þar sem hún lýsir því hvernig það var fyrir 53 ára gamlan mann að taka það skref að verða kona. Þar rifjar hún upp eftirminnilegt atvik snemma árs 1996 þegar hún stundaði fræðastörf við Erasmus-háskólann í Hollandi, þar sem allir eru víst fordómalausir og réttsýnir, og átti í hrókasamræðum við kollega sína:

„Líkt og hagfræðinga er siður barst samtalið yfir í hagfræði. Ég var eina konan í hópnum,“ segir McCloskey söguna: „Ég kom með ábendingu, sem karlarnir hundsuðu. Tveimur mínútum síðar kom kollegi minn George með alveg sömu ábendingu og lifnaði þá yfir öllum hópnum: „Skarplega ályktað, George! Þú getur skrifað um þetta í American Economic Review! Nóbelsverðlaunin hljóta að vera á næsta leiti.“ Ég sagði við sjálfa mig: „Húrra! Þeir eru að koma fram við mig eins og konu!“ Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég varð aðnjótandi þessa vafasama heiðurs, sem allar konur þekkja vel.“

Verð ég líka að láta það fylgja þessum lista að vitaskuld þarf trans fólk ekki að vera meiriháttar listamenn og fyrirsætur, mannréttindahetjur eða hagfræðisnillingar til að verðskulda tillitsemi og vinsemd samborgara sinna, og fá að lifa með reisn. Ég er ekki svo merkilegur að það skipti nokkru máli hvort ég hef á þeim einhverja sérstaka velþóknun eður ei.

Rándýr réttsýni

Trans konan Dylan Mulvaney náði að hleypa öllu í háaloft fyrr í mánuðinum þegar hún upplýsti að hún hefði verið gerð að talsmanni bandarísku bjórtegundarinnar Bud Light. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og kepptust bandarískir íhaldsmenn við að snúa baki við þessum vinsæla og kaloríusnauða bjór. Tónlistarmaðurinn Kid Rock (þessi síðhærði sem er alltaf með hatt og var kvæntur Pamelu Anderson í nokkra mánuði) gekk svo langt að birta af sér myndskeið á samfélagsmiðlum, þar sem hann sést skjóta af hríðskotariffli á stæðu af Bud Light-dósum. Fljótlega bárust fréttir af því að Bud Light, og aðrar vörur bjórrisans Anheuser-Busch Inbev sætu óhreyfðar í hillum matvöruverslana. „Woke“-hugmyndafræðin hafði greinilega farið öfugt ofan í bandaríska bjórdrykkjumenn.

Á tæpum tveimur vikum lækkaði hlutabréfaverð Annheuser-Busch um liðlega 5% og þegar mest lét náði Mulvaney-uppátækið að þurrka út um það bil 5 milljarða dala af markaðsvirði félagsins, eða á við hálf fjárlög ríkissjóðs Íslands. Undanfarna viku hefur hlutabréfaverðið þó náð að rétta ögn úr kútnum.

Hafa fréttaskýrendur bent á að finna megi fleiri dæmi af svipuðum toga, sem sýna að það virðist hreint ekki alltaf vera samhljómur á milli viðhorfa hins almenna neytanda og þeirrar pólitísku réttsýni sem í dag er varla hægt að þerfóta fyrir í dægurmenningu, í fjölmiðlum, og jafnvel í ársreikningum stórfyrirtækja á Vesturlöndum.

Er þess t.d. skemmst að minnast þegar töluverður samdráttur varð í sölu Gilette-rakvéla árið 2019 eftir að framleiðandinn birti fræga auglýsingu sem átti að vera beint gegn „eitraðri karlmennsku“. Disney hefur heldur ekki átt sjö dagana sæla. Streymisáskrifendurnir hafa horfið í milljónavís og kvikmyndirnar ekki náð að trekkja fólk í bíó, og vilja ófáir fréttaskýrendur meina að minnkandi áhuga á efni bandaríska afþreyingarrisans megi ekki síst skýra með því hve áberandi hinsegin pólitík og réttsýnisáróður er orðinn í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum fyrirtækisins.

Grunar mig að það eigi við um flest fólk, jafnt í Bandaríkjunum sem annars staðar, að vera velviljað í garð minnihlutahópa en þykja réttindabaráttan – sérstaklega í LGBT-málaflokkinum – komin langt út á ystu nöf og vissara að hægja ögn ferðina til að leyfa samfélaginu að ná áttum.

Um Dylan Mulvaney hef ég annars það að segja að mér þykir hún frekar fráhrindandi manneskja. Hefur það ekkert að gera með það að hún skuli vera trans kona. Hún er einfaldlega tilgerðarleg í fasi, gervileg, yfirborðskennd og athyglissjúk, ekkert sérstaklega góður fulltrúi sinnar kynslóðar og fær mun meiri tíma í sviðsljósinu en hún verðskuldar.

Það sama gæti ég sagt um Kid Rock.

Öfgar gegn öfgum

Mulvaney-málið kallar á nánari skoðun, og hvort sem Annheuser-Busch nær sér aftur á strik eður ei er ljóst að fyrirtæki þurfa að hugsa sig vandlega um áður en markaðsdeildirnar fá að reyna að skora prik hjá neytendum með því að taka afstöðu í hitamálum. Mættu stjórnendur t.d. velta því fyrir sér hvort að þau málefni og þær skoðanir sem fjölmiðlar hampa endurspegli veruleikann eins og hann blasir við öllum þorra fólks.

Þá ætti það að vera öllum áhyggjuefni hvað uppátæki Mulvaney og Bud Light framkallaði sterk viðbrögð. Í Bandaríkjunum og víðar hefur mátt sjá æ meiri öfgar hjá vinstrinu, ekki síst þegar kemur að málum sem snerta kyn, kynvitund og kynfræðslu, og kannski ekki að furða ef því er síðan mætt með jafn miklum öfgum úr hægri áttinni.

Þessu tengt má sjá það af könnunum og kosninganiðurstöðum að róttækir hægriflokkar eru víða að sækja í sig veðrið, og hafa ekki síst bætt við sig fylgi hjá yngri kjósendum. Í síðustu forsetakosningum í Frakklandi – þar sem allir elska að vera réttsýnir – fékk t.d. Le Pen fleiri atkvæði en Macron hjá aldurshópnum 25 til 34 ára (en hjá þessum hópi var vinstri-popúlistinn Mélenchon þó vinsælastur). Hjá Frökkum á aldrinum 18 til 24 ára, fengu Le Pen, og Zemmour næstum fjórða hvert atkvæði en hvorugt þeirra er mjúka, sæta og geðþekka gerðin af hægrimanni. Eftir því sem farið er austar í Evrópu hallast æ stærra hlutfall bæði yngri og eldri kjósenda til hægri, og ófá þeirra lengst-lengst til hægri.

Það eru fleiri en ein ástæða fyrir þeirri skörpu hægri beygju sem er að eiga sér stað, og hefur fært allróttæka leiðtoga á borð við Meloni á Ítalíu, Trump í Bandaríkjunum, Orbán í Ungverjalandi og Bolsonaro í Brasilíu. Sums staðar koma innflytjendamálin við sögu, annars staðar eru það Evrópumálin eða einfaldlega efnahagsmálin. En grunngildi fólks, hefðir og heimssýn koma líka við sögu og ekki að furða að sumum gæti þótt full þörf á að sveifla pendúlinum af krafti í hina áttina þegar háværir hópar í samfélaginu virðast vilja snúa á haus hefðbundnum hugmyndum um t.d. kyn, kynlíf og fjölskyldumál.

Jafnvel velviljað fólk er líklegt til að vita ekki í hvorn fótinn á að stíga þegar ekki virðist lengur mega ræða suma hluti, og allir þurfi að samþykkja sjónarmið sem fyrir tíu eða tuttugu árum hefðu þótt algjör fjarstæða.

Þessar vangaveltur mínar myndu seint geta kallast sérstaklega djúpar eða frumlegar, en það má alveg minna á að ef venjulegt fólk upplifir að það megi ekki lengur segja upphátt það sem því býr í brjósti, ella hætta á að vera útmálað sem fordómafull fúlmenni, þá finnur það einfaldlega aðrar leiðir til að tjá sig: inni í kjörklefanum eða við bjórkælinn.