Vopnakerfi USS Seawolf er í hópi þeirra sem þjónusta má við Ísland.
Vopnakerfi USS Seawolf er í hópi þeirra sem þjónusta má við Ísland. — Ljósmynd/Bandaríski sjóherinn
Kjarnorkukafbátar Bandaríkjanna verða þjónustaðir frá Helguvík á Reykjanesi. Bátarnir munu sjást vel frá landi, en þeir verða að líkindum í 5-10 km fjarlægð frá strandlengjunni. Fyrsti bátur er væntanlegur mjög fljótlega og er gert ráð fyrir að heimsóknir verði allt að tíu sinnum á ári

Kjarnorkukafbátar Bandaríkjanna verða þjónustaðir frá Helguvík á Reykjanesi. Bátarnir munu sjást vel frá landi, en þeir verða að líkindum í 5-10 km fjarlægð frá strandlengjunni. Fyrsti bátur er væntanlegur mjög fljótlega og er gert ráð fyrir að heimsóknir verði allt að tíu sinnum á ári.

Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. Hún segir langan aðdraganda vera að baki þessari ákvörðun. Sjóher Bandaríkjanna hafi fyrst óskað eftir þjónustuaðstöðu á Íslandi í apríl á síðasta ári. Þá mun skip Landhelgisgæslunnar m.a. sinna eftirliti þegar verið er að þjónusta kafbáta Bandaríkjanna.

Ohio ekki boðið í heimsókn

Bandaríski sjóherinn hefur yfir að ráða þrenns konar bátum, þ.e. eldflaugakafbátum (SSBN) af Ohio-gerð, árásarkafbátum (SSN) af gerðunum Los Angeles, Seawolf og Virginíu og stýriflaugakafbátum (SSGN). Þeir voru upphaflega af Ohio-gerð en breytt á árunum 2002-2007 til að hýsa mikið magn af stýriflaugum. Þeim er einnig ætlað að flytja sérsveitarmenn, allt að 66 talsins, og búnað þeirra til aðgerða.

Í ljósi áherslna íslenskra stjórnvalda um að hingað til lands komi ekki kjarnavopn má útiloka komu Ohio-báta. Þeir hafa það hlutverk sérstaklega að flytja kjarnavopn, eða 20 kjarnaflaugar af gerðinni Trident. Hinir bátarnir, þ.e. árásar- og eldflaugakafbátarnir, eru ekki sérstaklega hannaðir fyrir þetta hlutverk. Þeim er ýmist ætlað að granda öðrum bátum eða skotmörkum í landi. Eru þeir því líklegastir til að koma hingað. khj@mbl.is