Guðmundur Ólafsson
Guðmundur Ólafsson
Besta stærðfræðikennslan byggist á góðri og kröftugri íslenskukunnáttu. Það atriði er stórlega vanmetið.

Guðmundur Ólafsson

Ég var spurður: Af hverju fórstu að kenna stærðfræði? Svarið var auðvitað einfalt: Af því ég lærði hana. Þá var aftur spurt: Margir læra stærðfræði, en af hverju geta þeir svo ekki kennt hana? Og nú verður svarið ekki stutt.

Mikilvægast í stærðfræðikennslu er að nota gott mál og tala skýrt, en getan til þess kemur ekki af sjálfu sér. Ég get ekki svarað þessu á annan hátt en lýsa því hvernig ég lærði að lesa og nota íslensku, en það hefur líklega fylgt mér síðan.

Um 12 ára aldur lagðist ég í kvefpest og það varð mér þá til lífs nánast að ég las „Bréf til Láru“ eftir Þórberg Þórðarson, sem hafði mjög djúp áhrif á hugsun mína og málskilning. Árið eftir lenti ég í sveit upp í Borgarfirði fyrir hreina tilviljun hjá Andrési bónda Jónssyni í Deildartungu, og hafði ekkert lesið af viti síðan ég las „Bréfið“.

Fyrsta daginn í Tungu rétti Andrés mér bók og sagði: „Lestu þetta, ég hlýði þér yfir á morgun.“ Þetta var „Gerpla“ eftir Halldór Kiljan Laxness. Næstu dagar fóru í að lesa bókina á kvöldin og síðan að svara spurningum um efni bókarinnar. Við þessa meðferð umturnaðist hugsun unglingsins.

Síðan koma „Salka Valka“ og áfram flestar bækur Kiljans. Þegar því lauk hófst sami leikur með bækur Knuts Hamsuns og var byrjað á „Pan“, sem er eins og rothögg fyrir 14 ára ungling á gelgjuskeiði. Þá kom „Gróður jarðar“ og þá hófust umræður um hve mikið Kiljan hefði fengið að láni hjá Hamsun. En þessi bókmenntaskóli naut að sjálfsögðu þýðinga Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi (18.2. 1886 – 31.10. 1957), eins mesta meistara tungunnar.

En áfram var haldið með Hamsun en inn skotið léttmeti á borð við Pílon (eða „Kátir voru karlar“) eftir John Steinbeck og „Mýs og menn“ eftir þann sama í frábærum þýðingum. En allan þennan tíma var stöðugt lesið upp úr ljóðum og ljóðaþýðingum Magnúsar Ásgeirssonar frá Reykjum í Lundarreykjadal.

Þennan nestisbagga hafði ég með mér þegar ég var hjá hinum sæla Gísla Jónssyni menntaskólakennara á Akureyri, sem sá strax að ég átti við nokkra lesblindu að stríða, skrifaði „go“ í staðinn fyrir „og“, sem hann sagði ekki vera ritvillu heldur blindu og sagði mér að lesa ritgerðir aftur á bak setningu fyrir setningu, þá sæi ég betur villurnar. Einkunn í íslenskri ritgerð rauk upp við þetta.

Við Menntaskólann á Akureyri kenndi Þórir Sigurðsson eðlisfræði og Jón Hafsteinn Jónsson stærðfræði. Báðir höfðu lag á að nota góð íslensk orð yfir hugtök og sambönd í sínum greinum. Mér er nær að halda að orðið „stak“ komi frá Þóri en orðið „mengi“ kom frá Guðmundi Arnlaugssyni, sem hóf sinn kennsluferil í MA.

Eftir á að hyggja sýnist mér að besta stoðin við mína stærðfræðikennslu hafi verið þeir bragðamágusarnir Kiljan, Hamsun, Magnús Ásgeirsson og Jón frá Kaldaðarnesi. Að afar mörgum orðhögum mönnum frátöldum.

Að sumu leyti losnar maður aldrei við Kiljan og Hamsun og því til staðfestingar er þessi sanna saga. Einhverju sinni var frændi minn, Halldór Einarsson Laxness, staddur á Kastrup í Kaupmannahöfn. Þá er leiddur til hans maður og frændi minn kynnir sig: „Halldór Laxness, góðan dag.“ Maðurinn svarar: „Sæll, ég er Knut Hamsun, god dag.“ Þá voru þeir mættir barnabörn þessara meistara. Þarna hefði þurft að hafa sjónvarp.

Höfundur er lífeyristaki.