Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Frá árinu 2014, þegar Dagur B. Eggertsson settist í stól borgarstjóra, til 2021 hækkuðu rekstrargjöldin um liðlega 39 milljarða á föstu verðlagi.

Óli Björn Kárason

Það er því miður ekki sérlega bjart yfir höfuðborginni. Borgarsjóður er í fjárhagslegri kreppu og stendur veikt. Afleiðingin er aukinn vanmáttur borgarinnar til að veita borgarbúum þá þjónustu sem þeir greiða fyrir. Nú er því miður svo komið að Reykjavíkurborg er helsti óvissuþátturinn í þróun opinberra fjármála og þar með ógn við stöðugleika á næstu árum.

Það þarf ekki sérfræðiþekkingu á rekstri sveitarfélaga til að átta sig á að rekstur A-hluta borgarsjóðs – þess hluta borgarinnar sem er fjármagnaður með sköttum og gjöldum á íbúana – er kominn í ógöngur. Útgjöldin virðast stjórnlítil. Frá árinu 2014, þegar Dagur B. Eggertsson settist í stól borgarstjóra, til 2021 hækkuðu rekstrargjöldin um liðlega 39 milljarða króna á föstu verðlagi. Sé litið yfir valdatíma Samfylkingarinnar í borginni frá 2010 þá hafa rekstrargjöld A-hluta hækkað um rúma 53 milljarða.

Fyrir hönd borgarbúa hefur Samfylkingin og samstarfsflokkar hennar aukið skuldir borgarinnar. Í lok árs 2021 skuldaði hver Reykvíkingur 1.085 þúsund krónur vegna A-hluta eða um 448 þúsund krónum meira á föstu verðlagi en 2010.

Lítum á nokkrar fleiri staðreyndir um þróun borgarsjóðs frá 2014 til 2021:

Heildartekjur borgarsjóðs námu alls 142 milljörðum árið 2021 sem er 42 milljarða raunhækkun frá 2014. Borgin glímir ekki við tekjuvanda heldur útgjaldavanda.

Að raunvirði voru útsvarstekjur 25,6 milljörðum hærri árið 2021 en árið sem Dagur B. Eggertsson settist í stól borgarstjóra.

Fasteignagjöld skiluðu borginni 7,5 milljörðum meira 2021 en 2014.

Árið 2021 kostaði A-hluti borgarsjóðs hverja fjögurra manna fjölskyldu um 4,1 milljón eða liðlega einni milljón meira en 2014, á föstu verðlagi. Alls hækkaði rekstrarkostnaður um 39,2 milljarða.

Launakostnaður A-hluta hækkaði um 32,3 milljarða króna. Í árslok 2021 voru stöðugildi hjá A-hluta borgarsjóðs 8.401 og hafði fjölgað um 1.541 frá 2014.

Skuldir borgarsjóðs jukust um rúmlega 67 milljarða króna. Frá því að Samfylkingin komst til valda í borginni 2010 hafa skuldir hækkað um 78 milljarða á föstu verðlagi.

Eiginfjárhlutfall lækkaði úr 58% í lok árs 2014 í 34% árið 2021. Árið 2010 var eiginfjárhlutfallið 63%.

Uppsafnaður halli á borgarsjóði í tíð Dags B. Eggertssonar sem borgarstjóra er tæplega 14 milljarðar.

Í byrjun maí verður ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir liðið ár birtur. Því miður má reikna með því að myndin sem þá blasir við sé enn dekkri en hér hefur verið dregið upp. Búist er við að hallinn verði um og yfir 15 milljarðar króna. Auðvitað verður reynt að fegra myndina eitthvað. Það hefur áður verið gert í samstæðuuppgjöri borgarinnar. Tekjufært endurmat á eignum Félagsbústaða hefur numið tugum milljarða króna á síðustu árum. Slíkt endurmat kemur ekkert við undirliggjandi rekstur borgarinnar og tengdra fyrirtækja. En þótt borgarbúar njóti í engu slíkra bókhaldsæfinga lina þær kannski samvisku meirihluta borgarstjórnar sem hefur misst tökin á rekstrinum.

Tvennt er öruggt. Reykjavíkurborg verður að ráðast í róttækan uppskurð og endurskipulagningu á rekstrinum. Og borgarbúar geta, að óbreyttu, hætt að gera sér vonir um að álögur verði lækkaðar á komandi árum – hvorki skattar né gjaldskrár borgarfyrirtækja. Það er nöturleg staðreynd að Reykvíkingar njóta í engu hagkvæmni stærðarinnar. Þvert á móti. Og það er áhyggjuefni fyrir okkur öll, hvort sem við búum í Reykjavík eða í öðrum sveitarfélögum, að afrek Samfylkingarinnar við stjórn borgarinnar skuli ekki síst birtast í því að fjárhagsstaða borgarinnar er helsta áhyggjuefnið þegar opinber fjármál eru annars vegar.

Ó, borg mín borg. Tímarnir hafa svo sannarlega breyst.

Höfundur er formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Óli Björn Kárason