Í Árborg er tekið á vandanum, í Reykjavík er höfðinu stungið í sandinn

Ólíkt hafast þeir að stjórnendur hjá Árborg og Reykjavíkurborg þó að aðstæður séu svipaðar. Bæði þessi sveitarfélög hafa fengið aðvörunarbréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga en munurinn er sá að í Árborg hefur bréfið verið tekið alvarlega en í Reykjavík er það talið „rútínubréf“ sem best sé að setja ólesið ofan í skúffu.

Í Árborg var boðað til fundar við íbúa þar sem stjórnendur sveitarfélagsins fóru yfir stöðuna og ræddu vandann. Í Reykjavík stinga stjórnendur sveitarfélagsins höfðinu í sandinn, tala ekki við nokkurn mann, svara ekki helst ekki spurningum fjölmiðla og vona líklega að með því hverfi vandinn.

Í Árborg grípa stjórnendur sveitarfélagsins til verulegra hagræðingaraðgerða, meðal annars fjöldauppsagna þar sem 57 starfsmönnum af rúmlega eitt þúsund er sagt upp störfum. Í Reykjavík hefur starfsmönnum fjölgað um 25% á fimm ára tímabili en íbúum aðeins um 10%. Þar er fjölgunin á þessu ári mest í miðlægri stjórnsýslu, að sögn oddvita sjálfstæðismanna, sem greindi einnig frá því að boðað hefði verið til fundar nærri sex hundruð stjórnenda borgarinnar í Hörpu! Trúir því einhver að ekkert svigrúm sé til að hagræða?

Meirihlutinn í Reykjavík hefur fyrir löngu misst tökin á rekstrinum og báknið blæs stjórnlaust út, líkt og skuldirnar. Fyrsta skrefið væri að viðurkenna vandann en það gerir borgarstjóri ekki. Og verðandi borgarstjóri, boðberi breytinga í síðustu kosningum, hefur bersýnilega engar áhyggjur heldur.