Öryggismál Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra er gestur Dagmála og ræðir þar um nýjustu ákvörðun sína og fleira.
Öryggismál Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra er gestur Dagmála og ræðir þar um nýjustu ákvörðun sína og fleira.
„Þetta er ákvörðun sem skiptir raunverulegu máli og mun bæta getu Bandaríkjamanna og þar með Atlantshafsbandalagsins til þess að hafa yfirsýn yfir það sem er að gerast hérna í höfunum og auðvitað hefur það einnig óbein áhrif á okkur líka með…

Gísli Freyr Valdórsson

Stefán E. Stefánsson

„Þetta er ákvörðun sem skiptir raunverulegu máli og mun bæta getu Bandaríkjamanna og þar með Atlantshafsbandalagsins til þess að hafa yfirsýn yfir það sem er að gerast hérna í höfunum og auðvitað hefur það einnig óbein áhrif á okkur líka með tilliti til neðansjávarkapla og annars slíks.“

Með þessum orðum lýsir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra inntaki þeirrar tilkynningar sem hún hefur sent frá sér þess efnis að bandarískum kjarnorkukafbátum verði kleift að koma upp á yfirborðið, sækja vistir og hafa áhafnaskipti, skammt utan strandlengju landsins.

Þórdís er gestur í nýjasta þætti Dagmála sem tekinn var upp strax í kjölfar ríkisstjórnarfundar í gær þar sem þessi ákvörðun var kynnt.

Þjónustan boðin út

„Að þessu koma Geislavarnir ríkisins og við höfum sett upp ákveðna ferla. Það hefur verið keyptur búnaður til að geta sinnt því, ríkislögreglustjóri og Landhelgisgæslan og svo eru aðilar sem munu þjónusta bátana sem slíka. Það er eitthvað sem Bandaríkjamann munu fara með í útboð og einhver tekur að sér,“ segir Þórdís.

Í viðtalinu útskýrir Þórdís að það hafi verið á fundum í Washington í fyrra vor sem hermálayfirvöld í Bandaríkjunum hafi ámálgað heimild af þessu tagi við hana. Mikil vinna hafi í kjölfarið farið í gang á vettvangí íslenska stjórnkerfisins til þess að greina stöðuna og hvað þyrfti að koma til svo verða mætti við þessari beiðni.

Hún segir að ekkert hafi breyst í afstöðu yfirvalda um að lögsagan í kringum landið sé friðlýst fyrir kjarnavopnum. Bandaríkjaher hyggist ekki flytja kjarnavopn með þeim kafbátum sem héðan verði þjónustaðir. Hún segir að á sama tíma og að þessi afstaða yfirvalda hér á landi liggi fyrir þá sé hennar mat að taka eigi alvarlega beiðnum bandalagsþjóða okkar um frekari uppbyggingu, m.a. á Keflavíkurflugvelli og í öðrum fjárfestingum. Hún metur það svo að umræðan í kringum slík umsvif hafi breyst talsvert frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst í lok febrúar í fyrra.

Umræðan þarf að fullorðnast

Segir hún að alvarleg staða í samskiptum þjóða í milli kalli á Íslendingar taki umræðuna um öryggis- og varnarmál af alvöru.

„Við erum á leiðinni í ranga átt að svo mörgu leyti en segjum svo að það endi einhvern veginn vel. Fljótlega vona ég samt að við hér á Íslandi byggjum á því að fullorðnast frekar í umræðu um öryggis- og varnarmál til lengri tíma. Ég held að það sé ábyrgðarhluti,“ segir Þórdís Kolbrún í viðtalinu í Dagmálum.

Fullorðnast hvernig?

„Í því að átta okkur á því hvernig heimurinn raunverulega er. Hann er ekkert nákvæmlega eins og við viljum hafa hann. Og fullorðnast í því að þetta snúist ekki allt um okkur sjálf heldur okkur meðal annarra þjóða. Að Ísland taki því alvarlega að við höfum hlutverki að gegna sem sjálfstætt og fullvalda ríki.“

Hermálafulltrúi í Washington

Segir Þórdís að íslensk yfirvöld taki stöðu mála alvarlega. Fulltrúar landsins taki nú virkan þátt í nefndafundum á sameiginlegum öryggisvettvangi hjá NATO sem áður hafi verið haldnir afskiptalausir. Þá verði t.a.m. skipað í stöðu sérstaks hermálafulltrúa í sendiráði Íslands í Washington.

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson