Hermigervill Hoppaði eins og kengúra.
Hermigervill Hoppaði eins og kengúra.
Íslenska rafpoppsenan hefur fram að þessu verið alveg lokuð bók fyrir mér. Þess vegna vissi ég ekki hverju ég átti von á þegar hljómsveitin FM Belfast steig á svið á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður um páskana

Orri Páll Ormarsson

Íslenska rafpoppsenan hefur fram að þessu verið alveg lokuð bók fyrir mér. Þess vegna vissi ég ekki hverju ég átti von á þegar hljómsveitin FM Belfast steig á svið á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður um páskana. Rúsínan í pylsuendanum. Fyrr í útsendingu RÚV 2 hafði verið rætt við talsmenn sveitarinnar, yfirvegað fólk sem mætt var á svæðið með börnin sín, þannig að ég átti svona frekar von á vel spíruðu gáfumannapoppi.

Ekki aldeilis. Slegið var upp balli frá fyrstu nótu og þegar kom að viðlaginu í virðingarvotti þeirra Belfastliða við Prins heitinn póló þá vorum við hundurinn báðir byrjaðir að hoppa heima í stofu. Það sætir svo sem engum sérstökum tíðindum með hundinn, hann hoppar reglulega af engu tilefni, en ég átti ekki orð yfir stuðið á sjálfum mér. En gleðin á sviðinu og í salnum, þar sem hver einasti maður hoppaði, var bara bráðsmitandi.

Af mörgum vel hressum var Hermigervill hressastur og þegar mest gekk á var hann kominn úr buxunum. Um tíma var meira að segja annar Hermigervill á sviðinu. Það reyndist vera Óskar Logi úr The Vintage Caravan í dulargervi. Maður hafði raunar ekki undan að fylgjast með fjörinu og ég náði ekki hoppinu úr mér fyrr en undir morgun. En það var vel þess virði.

Höf.: Orri Páll Ormarsson