Össur Torfason fæddist 17. desember 1939 á Felli í Dýrafirði. Hann lést 10. apríl 2023 á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað.

Foreldar hans voru Torfi Össurarson, f. 28.2. 1904, d. 11.9. 1993, bóndi og búfræðingur á Felli í Dýrafirði, og Helga Sigurrós Jónsdóttir, f. 10.1. 1897, d. 16.2. 1994, húsfreyja.

Systkini hans eru Hákon Guðmundur, f. 1.3. 1929, látinn. Anna Guðrún, f. 22.11. 1930, látin. Jón Sigmundur, f. 23.7. 1932. Bergur, f. 18.1. 1937. Dagbjört Kristín, f. 28.8. 1938. Anna Guðrún, f. 24.3. 1942.

Össur kynntist eiginkonu sinni, Marý Önnu Hilmars Hjaltadóttur frá Hokinsdal í Arnarfirði, á Núpi í Dýrafirði þar sem hún starfaði. Þeirra búskapur hófst í Reykjavík. Dóttir Össurar og Önnu er Anna Sigurrós, hún er gift Erling S. Kjærnested og eiga þau Svavar og Erlu Dröfn. Barnabörnin eru sjö talsins.

Árið 1977 fluttu hjónin til Egilsstaða. Þar starfaði hann hjá Trésmiðju Fljótsdalshéraðs, en starfaði síðan við heilsugæsluna á Egilsstöðum í 12 ár sem ráðsmaður og sjúkraflutningamaður. Össur starfaði líka í dyravörslu í Valaskjálf og starfaði með Héraðslögreglunni um tíma. Starfsævi sinni lauk hann síðan hjá timburdeild KHB.

Össur lét um sig muna í félagsstörfum og samfélagsuppbyggingu. Hann var hluti af stofnun jódódeildar í Gerplu í Kópavogi og þjálfaði júdó í Keflavík og Ármanni í Reykjavík. Össur sinnti því áhugamáli áfram þegar til Egilsstaða var komið og starfaði einnig þar sem júdóþjálfari. Stofnaði ásamt Jökli Hlöðverssyni júdódeild UMFA, sem starfaði í nokkur ár, en var svo lögð niður.

Útför fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 19. apríl 2023, klukkan 11.

Veistu ef þú vin átt

þann er þú vel trúir

og vilt þú af honum gott geta.

Geði skaltu við þann blanda

og gjöfum skipta,

fara að finna oft.

(Hávamál)

Hann fóstbróðir minn er fallinn. Hvað gerir maður þá? Jú, maður rifjar upp góðar stundir og þær eru ótal margar, góðu stundirnar sem ég átti með Össa. Hittumst fyrst tveggja eða þriggja ára, hann í dyrunum á svefnherberginu, ég inni, sitjandi á koppnum. Þeirri stund gleymdum við aldrei þótt ungir værum þarna. Óþekktarormar í barnaskólanum á Núpi. Beðnir að vera úti meðan hin börnin lærðu að syngja svo að við trufluðum ekki. Tjaldfélagar í vegavinnunni. Svömluðum yfir Vöðin í Önundarfirði til að ná í hann Benna Odds á vörubílnum og komast í bíó á Flateyri. Gengum á Mýrafell og blönduðum blóði þar í sumarnóttinni, þegar sólin var að skríða upp fyrir fjallstindana við norðanverðan Dýrafjörð. Smöluðum Skagahlíðar tvö eða þrjú haust. Þær eru ekki beinlínis greiðfærar en voru þér enginn farartálmi. Ég stóð eitt sinn á hlaðinu á Arnarnesi ásamt henni Guðnýju gömlu. Hún fylgdist með þér í sjónauka og var með böggum hildar yfir því hvort þú kæmist lifandi úr henni Lambaskál. Það var að sjálfsögðu óþarfi að vera með áhyggjur þess vegna. Svo liðu árin. Þú fórst að læra bifvélavirkjun, ég á sjóinn. Þegar ég hætti á sjónum þá varst þú orðinn innsti koppur í búri júdódeildar Ármanns og tældir mig til að fara að æfa með þér.

Aldrei náðum við keppnisárangri þar enda orðnir fullorðnir menn þegar við byrjuðum. En það fullyrði ég að engir hér á landi komust með tærnar þar sem þið hjónin, Anna Hjaltadóttir og þú, voruð með hælana þegar kom að kunnáttu í júdó. Öll þau kata-kerfi sem þið kunnuð og æfðuð, þau kann ég ekki að nefna. Síðan fluttuð þið til Egilsstaða. Þar gerðist þú bílstjóri á sjúkrabíl með meiru, til dæmis varstu leiðsögumaður á hreindýraveiðum í mörg ár og verð ég að þakka veiðiferðirnar þar sem þú varst minn leiðsögumaður á ógleymanlegum hreindýraveiðum nokkur sumur. En þó að þarna hafi ég talið ýmislegt upp þá er eitt eftir, og það dýrmætasta í mínum huga. Það eru mannkostir þínir og vinátta í rúm 80 ár. Það er ekki oft sem maður finnur slíka. Fyrir það fæ ég aldrei, aldrei fullþakkað. Að rifja upp góðar stundir með góðum manni, það hjálpar í sorginni. Og þó að svarið sé augljóst þá spyr ég samt:

Hvers vegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Anna mín, ég samhryggist þér og fjölskyldunni innilega. Þakka þér fyrir þína vináttu í gegn um árin, og ég veit að okkar samskiptum er ekki lokið þó að nú verði kaflaskipti.

Þóroddur Þórhallsson (Doddi).