Leo með goðsögninni Steven Gerrard. Hann heillaðist ungur af leik Gerrard með Liverpool.
Leo með goðsögninni Steven Gerrard. Hann heillaðist ungur af leik Gerrard með Liverpool.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Instagram-síðan, Liverpool Goals, er með 1,1 milljón fylgjenda. Á degi hverjum læka tugþúsundir Liverpool-aðdáenda um allan heim við færslur á síðunni eða skrifa við þær ummæli. Leo, sem er 23 ára gamall, bjó á Íslandi um nokkurra ára skeið með fjölskyldu sinni

Instagram-síðan, Liverpool Goals, er með 1,1 milljón fylgjenda. Á degi hverjum læka tugþúsundir Liverpool-aðdáenda um allan heim við færslur á síðunni eða skrifa við þær ummæli.

Leo, sem er 23 ára gamall, bjó á Íslandi um nokkurra ára skeið með fjölskyldu sinni. Hann segir að ævintýrið hafi einmitt byrjað hér á landi þegar hann var ungur drengur. Hann og vinir hans hafi safnað Match Attax leikmannaspjöldum. Einn daginn eignaðist Leo verðmætt spjald með goðsögninni Steven Gerrard, fyrirliða Liverpool á þeim tíma. Leo segist í kjölfarið hafa fengið mikinn áhuga á að sjá Gerrard spila fótbolta. Vinur Leos, sem var mikill Liverpool-aðdáandi, bjó yfir upptöku af leik með liðinu og leyfði Leo að horfa á. „Þegar ég sá Gerrard spila fann ég að blóðið fór að renna hraðar og það kviknaði ástríða fyrir liðinu sem hefur bara vaxið síðan,“segir Leo.

Margir með ástríðu

Hann segist snemma hafa áttað sig á hvað Liverpool-samfélagið á Íslandi er stórt og hvað það sé sameiginleg ástríða margra á landinu að halda með liðinu. „Ég eignaðist marga vini í gegnum áhugamálið og nú teygir þetta sig um allan heim í gegnum Instagram.“

Hann segist hafa stofnað Liverpool Goals þegar hann var 12-13 ára gamall. „Ég var mjög heppinn. Þetta var rétt eftir að Instagram var sett á laggirnar og notendur forritsins voru á þessum tíma ekki mjög margir. Ég vildi tengjast vinum sem héldu með klúbbnum. Ég hafði búið í Frakklandi, Íslandi og í New York og það að halda úti reikningnum var leið til að tengjast fólki um allan heim. Síðan hefur þetta bara vaxið og vaxið.“
Leo segir það fallega við fótbolta sé að fólk opni sig á annan hátt og lifi sig inn í stemmninguna. „Fótbolti er frábær leið til að hitta fólk og vera virkur. Þegar ég horfi á Liverpool spila og þegar ég tala um félagið gleymi ég áhyggjum og daglegu amstri. Þú ferð inn í ákveðna sápukúlu (e. bubble).“

Hann segir að honum líði ekki eins og hann sé að vinna þegar hann færir efni inn á síðuna. „Ég hef svo mikla ástríðu fyrir þessu. Oft þegar eitthvað bjátaði á í skólanum þegar ég var yngri, eins og stundum getur gerst, þá gat ég alltaf snúið mér að þessu áhugamáli sem ég hafði svo sterkar tilfinningar til.“

Helst í hendur við gengið

Hann segir að notkun síðunnar og vinsældir hennar haldist að nokkru leyti í hendur við gengi félagsins á hverjum tíma, sem hefur reyndar ekki verið upp á marga fiska þetta tímabilið. „Eftir að Jurgen Klopp tók við sem knattspyrnustjóri fór félaginu að ganga betur. Við unnum Meistaradeildina árið 2019 og svo ensku deildina árið 2020. Vinsældir síðunnar uxu samhliða.“

Fjórir vinna í lausamennsku við Liverpool Goals auk Leos. „Starfsmennirnir eru á ólíkum stöðum í heiminum, í Indlandi, Malasíu, Svartfjallalandi og í Lundúnum.“

Spurður um viðskiptahliðina segir Leo að því miður bjóði Instagram ekki upp á leiðir til að fá tekjur af færslum á síðuna, líkt og t.d. YouTube hefur gert. Eina leiðin til að afla tekna sé því að vinna með fyrirtækjum og vörumerkjum og það hafa Liverpool Goals einmitt gert. Þó dugi tekjurnar ekki enn þá til að hafa fólk í fullri vinnu við síðuna. „Við erum til dæmis með samning við afþreyingarfyrirtækið SoRare sem býður fólki að skiptast á stafrænum leikmannaspjöldum m.a. og nota í tölvuleikjum. SoRare er með þriggja ára samning við Liverpool og þeir borga okkur fyrir færslur og fyrir að segja frá því sem þau eru að gera.“

Leo hefur sjálfur oft farið á Anfield til að sjá liðið spila.

Spurður að því hvort hann hafi átt fundi með forráðamönnum félagsins segir Leo að Liverpool sé stórt fyrirtæki og erfitt sé að nálgast menn í toppstöðum. „En ég á vini sem vinna hjá klúbbnum og tengjast honum.“

Fleiri myndbönd

Leo segir að á döfinni hjá Liverpool Goals sé að vinna meira myndbandsefni og gera síðuna persónulegri og skemmtilegri. „Ég bý núna í París eftir að hafa búið í New York, og kemst því oftar á leiki en áður. Notendur Liverpool Goals eru mjög alþjóðlegir og fólk vill fá að sjá fleiri ljósmyndir af liðinu og borginni. Við viljum uppfylla þessar þarfir og segja góðar sögur.“