Kumite Karen Vu hefur lagt rækt við íþróttina og unnið til verðlauna, síðast gull á NM í Gautaborg.
Kumite Karen Vu hefur lagt rækt við íþróttina og unnið til verðlauna, síðast gull á NM í Gautaborg.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Karen Vu, nemi á fyrsta ári á náttúrufræðibraut í Menntaskólanum í Reykjavík, varð á dögunum Norðurlandameistari í kumite í flokki unglinga undir 48 kg. „Þetta er hápunkturinn á ferlinum,“ segir hún um gullið í Gautaborg í Svíþjóð, en hún fékk silfur á mótinu í fyrra. Hún hefur verið sigursæl, unnið fjölda Íslandsmeistaratitla og ætlar sér langt í karategreininni á alþjóðlegum vettvangi.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Karen Vu, nemi á fyrsta ári á náttúrufræðibraut í Menntaskólanum í Reykjavík, varð á dögunum Norðurlandameistari í kumite í flokki unglinga undir 48 kg. „Þetta er hápunkturinn á ferlinum,“ segir hún um gullið í Gautaborg í Svíþjóð, en hún fékk silfur á mótinu í fyrra. Hún hefur verið sigursæl, unnið fjölda Íslandsmeistaratitla og ætlar sér langt í karategreininni á alþjóðlegum vettvangi.

Karen byrjaði að æfa hjá ÍR í Breiðholti þegar hún var átta ára en hætti eftir tvo mánuði. Um það bil ári síðar tók hún upp þráðinn á ný hjá Fylki í Árbænum og hefur æft hjá félaginu síðan. „Mamma vildi endilega að ég æfði karate og þess vegna byrjaði ég aftur í íþróttinni. Eftir því sem á leið fékk ég stöðugt meiri áhuga á karate og nú er þetta helsta áhugamál mitt.“ Hún bætir við að hún hafi ekkert æft þegar flest lá niðri í covid en tekið vel á því frá september 2021. „Ég var fyrst valin í landslið þegar ég var 12 ára og svo aftur í desember 2021.“

Árangurinn hefur ekki látið á sér standa hjá Karen. Hún sigraði meðal annars í kumite í opnum flokki 16-17 ára á alþjóðlegu Reykjavíkurleikunum í byrjun árs en segir að annað sætið á NM í fyrra hafi verið umfram væntingar. „Ég bjóst ekki við að ná svo langt, en síðan hef ég bætt mig og ætlaði mér sigur að þessu sinni.“ Hún æfi þrisvar til fjórum sinnum í viku með skólanum og hlutastarfi. „Ég hef alveg nóg að gera og lífið snýst um þetta þrennt; skólann, vinnuna og karate.“

Nafnið í söguna

Æfingar og árangur í keppni hafa ýtt undir Karen að gera enn betur. „Mig langar til þess að skrá nafn mitt í sögu karateíþróttarinnar á Íslandi og verða fyrst Íslendinga til þess að vinna til verðlauna á Evrópumeistaramóti og heimsmeistaramóti í greininni.“ Hún verður 17 ára innan skamms og hefur því nægan tíma til að ná markmiðinu. Næst á dagskrá er heimsbikarmót ungmenna í Coruna á Spáni 27.-30. apríl, en það er hluti heimsmótaraðarinnar. Á mótinu í fyrra hafnaði Karen í 13.-16. sæti af yfir 50 keppendum og hefur hug á að gera betur í lok mánaðarins. „Núna stefni ég á gullið.“

Karen er létt og lipur en hún leggur áherslu á að þyngdin hafi lítið sem ekkert að segja í kumite enda sé keppt í mörgum þyngdarflokkum. „Aðalatriðið er að hafa góða tækni og hraða, koma mótherjanum á óvart og bregðast fljótt við brögðum hans hverju sinni.“

Elías Guðni Guðnason, varaformaður Karatesambands Íslands, segir að árangur Karenar á NM hafi ekki komið á óvart. Hún hafi tapað naumlega í keppni um gullið á NM í fyrra og nú hafi hún verið reynslunni ríkari. Hún sé dugleg, leggi sig alla fram og sé góð fyrirmynd. „Henni standa allar dyr opnar,“ segir hann.