Það var óvænt fjöður í hatt snókersins, að spellvirkjar töldu kominn tíma á að nota frægð íþróttarinnar

Þeir sem þykjast fara fyrir göfugum málstað, þótt slíkir orki iðulega tvímælis, telja sig mega trufla aðra, svo sem þá, sem stytta sér stundir við að taka þátt í eða horfa á íþróttir, og kosta jafnvel töluverðu til þess, miðað við fjárhagslega getu sína. Mótmælendur af ýmsu tagi lögðu fótboltaleiki og áhangendur þeirra í einelti með því að trufla þá, þegar hæst stóð. Þessi „mótmæli“ voru heldur til leiðinda fyrir þá sem mættu á völlinn. Rugludallarnir vissu að þeir fengju ekki samúð tugþúsunda vallargesta, sem kostuðu sparifénu til, og þurftu iðulega að verja tveimur tímum eða meir til að koma sér að og frá vellinum og öðru eins í vallarstæðunum til að fylgjast með leiknum. Truflanir og tímatafir voru því óvinsælar svo ekki sé meira sagt.

En „mótmælendur“ voru ekki að ganga í augun á gestunum. Þeir vildu komast í fréttir. Lengi vel tókst þeim það, en þá tóku sjónvarpsstöðvar sig saman um að hætta að sýna uppátækin á mynd og dró þá nokkuð hratt úr.

Nú eru það meintir áhangendur loftslagsmeinlokunnar, sem helst mótmæla „olíunni“ og stöðva bíla annarra með því að líma sig niður á götur og í mannvirki. Við þau uppátæki safnast upp fjöldi bifreiða, jafnvel tugir þúsunda ef „vel tekst til“, sem eru þá hafðir í gangi og bætist því sá útblástur við þann sem almennt myndi duga þeim til að komast til áfangastaðar. Mjög er óljóst, svo ekki sé meira sagt, að mótmælendurnir nái nokkrum raunverulegum árangri öðrum en þeim að gera lífsbaráttu annarra pínulítið meiri bölvun en ella.

Sagt er að dekurbörn háskólanna í velmegunarlöndunum séu hvað fyrirferðarmest í hópi mótmælenda, en þeir sem mest þurfa að hafa fyrir lífinu séu hvað fámennastir. Í fyrradag urðu tímamót og nokkurt nýjabrum í slíkum uppþotum þegar andstæðingar „olíunotkunar“ þustu inn á heimsmeistaramótið í „billjarð“, snóker, sem nú fer fram í Sheffield í Bretlandi. Sú íþrótt átti löngum upphafsskjól í bjórkrám Bretlands, en hefur smám saman öðlast nokkrar vinsældir víðar og þar með talið á sjónvarpsskermunum og fangaði þannig athygli upphlaupsmanna. Það varð nokkurt uppnám á keppnisstaðnum í Sheffield, en aðstandendur áttuðu sig þó fljótt og gættu þess að gera ekki hlut uppþotsmanna meiri en þurfti og sennilega verður þessa þáttar enn betur gætt síðar.