Guðrún Marta Jónsdóttir fæddist á Rana í Dýrafirði 5. júlí 1927. Hún andaðist á líknardeild Landakots 12. apríl 2023.

Foreldrar Mörtu voru Jón Matthíasson, f. 1. apríl 1862, d. 31. maí 1953, og Pálína Þórlaug Jóhannesdóttir, f. 25. júlí 1888, d. 16. júlí 1955. Fósturforeldrar Mörtu voru systkini Pálínu í Ytri-húsum í Dýrafirði, Kristín Jóhannesdóttir, f. 19. nóvember 1889, d. 13. ágúst 1978, og Jens Jón Jóhannesson, f. 3. október 1892, d. 15. desember 1982, sem einnig fóstruðu albróður hennar Guðmund Sigurð Jónsson, f. 10. nóvember 1928, d. 3. maí 1998. Marta átti 14 hálfsystkini að föður.

Eiginmaður Mörtu var Sigurþór Júníusson, f. 1. ágúst 1927, d. 11. júlí 2003. Gengu þau í hjónaband þann 1. desember 1956. Sonur þeirra er Kristinn Jens Sigurþórsson, f. 16. apríl 1961, prestur síðast í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, kvæntur Hjördísi Stefánsdóttur lögfræðingi, f. 2. september 1962. Dætur þeirra eru Marta Mirjam lögfræðingur, f. 21. desember 1987, og Hrafnhildur markaðsfræðingur, f. 2. ágúst 1992, gift Andra Friðrikssyni, tölvunarfræðingi, f. 14. nóvember 1990, og eru börn þeirra Friðrika Hjördís og Hilmir. Fósturdóttir Mörtu og Sigurþórs er Pálína Jóna Guðmundsdóttir, f. 10. september 1955, gift Ómari Castaldo, f. 5. apríl 1948. Sonur Pálínu er Sigurþór Marteinn, f. 29. október 1971, kvæntur Guðrúnu Fríði Hansdóttur, f. 24. október 1975, og eiga þau fjögur börn: Ragnar Loga, Kötlu, Arnald Pál og Sólrúnu.

Útför Mörtu fer fram frá Garðakirkju í dag, 19. apríl 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Eftir langa og góða samfylgd kveð ég nú Mörtu, tengdamóður mína. Lífsganga Mörtu hófst í fallega firðinum hennar fyrir vestan, þar sem fjaran, fjöllin og gott fólk var í öndvegi.

Hún minntist æsku sinnar í Dýrafirðinum með hlýju og var ávallt trú uppruna sínum. Eftir seinna stríð hleypti hún heimdraganum, hélt til höfuðborgarinnar og fór að vinna fyrir sér. Þar kynntist hún honum Sigga sínum, sem var svo ákveðinn í að hún væri sú eina rétta að hún lét undan, eins og hún sagði alltaf söguna, sposk á svip. Marta og Siggi voru ólík en einhvern veginn urðu þau sem eitt og voru einstaklega samhent alla tíð. Við fráfall Sigga árið 2003 sneri Marta seglum upp í vindinn og sigldi sínu fleyi eins og henni einni var lagið.

Marta var heilsteypt, heiðarleg og hugrökk kona. Hún vissi alltaf hvað hún vildi og hvert ferðinni var heitið. Hennar vopn í lífsbaráttunni var vestfirski viljinn. Engu skyldi fresta og gera helst allt í gær. Ekki skulda neinum neitt og mæta ávallt tímanlega en ekki bara stundvíslega. Hún sagði það sem henni bjó í brjósti, án nokkurs hiks, og það var ekki í hennar anda að staldra við það sem aflaga fór. Marta var bæði létt í lund og létt á fæti og gekk til sinna verka glöð í bragði. Hún tókst á við lífið af raunsæi og án þess að gera nokkrar kröfur á samferðafólk sitt.

Marta var fastur punktur stórfjölskyldunnar og í Grenilundinum kom fólkið hennar saman og hún naut þess að vera gestgjafinn. Hún hafði til að bera trygglyndi, sinnti frændfólki sínu öllu vel og var alveg einstaklega gjafmild.

Það eru liðin tæp fjörutíu ár síðan þræðir okkar Mörtu tengdamóður minnar ófust saman. Þræðir sprottnir úr ólíkum jarðvegi sem urðu þéttari og þéttari með árunum og tóku á sig blæbrigði lífsins. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þessari fallegu, fíngerðu og kviku konu, sem vildi allt fyrir alla gera.

Dætur mínar áttu einstakt skjól hjá ömmu Mörtu alla tíð og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Hún kenndi þeim kannski ekki með orðum, heldur frekar með sínu einfalda lífi sem byggðist á heiðarleika, trúmennsku og kærleika.

Hvíl í friði elsku Marta. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín

Hjördís.