Elvar Örn Þormar
Elvar Örn Þormar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjártæknisprotinn Standby gerði nýverið samstarfssamning við stóran bandarískan fjártæknibanka og hefur að auki tryggt sér fjármögnun að upphæð samtals 5,3 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði um 720 milljóna króna

Fjártæknisprotinn Standby gerði nýverið samstarfssamning við stóran bandarískan fjártæknibanka og hefur að auki tryggt sér fjármögnun að upphæð samtals 5,3 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði um 720 milljóna króna. Með þessu mun félagið hefja innreið á Bandaríkjamarkað með nýja vöru sem kemur í stað hefðbundinnar húsaleigutryggingar.

Morgunblaðið ræddi við aðstandendur Standby í október 2021 og hafði félagið þá hafið tilraunir með þjónustu sína í Flórída. Nýlundan við vöru Standby felst í því að gegn vægu mánaðarlegu gjaldi er leigjanda veittur aðgangur að ábyrgð sem draga má á í lok leigutíma til að standa straum af kostnaði leigusala sem annars væri dreginn af því tryggingafé sem reitt var fram við undirritun leigusamnings. Með þessu móti þarf leigjandinn ekki að binda háa fjárhæð þegar íbúð er tekin á leigu og leigusalinn losnar við það umstang sem fylgir því að gæta tryggingafjárins. Ef gengið er á ábyrgðina verður til skuld sem leigjandi getur síðan endurgreitt með þægilegum afborgunum.

Með því að veita ábyrgð með þessum hætti nær Standby fram verulegri hagræðingu og getur boðið viðskiptavinum sínum mun hagstæðari kjör en sést hafa á Bandaríkjamarkaði til þessa.

Elvar Örn Þormar, framkvæmdastjóri vörustýringar og annar stofnenda Standby, segir að versnandi ástand á fjármagnsmörkuðum hafi ekki torveldað fjármögnun fyrirtækisins og raunar þýði hækkandi vextir að lausn Standby Deposits njóti enn betra samkeppnisforskots: „Efnahagsástandið styrkir okkar vöru enda getum við selt okkar þjónustu á hagstæðara verði en önnur félög á þessum markaði,“ segir hann og bætir við að undanfarið ár hafi m.a. nýst vel til að sinna tækniþróun og finna heppilegan samstarfsbanka sem fjármagnar veittar ábyrgðir.

Ekki fæst gefið upp að svo stöddu hver samstarfsbankinn er en þó er um að ræða einn af stærstu fjártæknibönkum Bandaríkjanna og segir Elvar að með þennan eina banka sem bakhjarl geti Standby tryggt leigusamninga fyrir um og yfir tvo milljarða bandaríkjadala.

Í dag vinna fimmtán manns hjá Standby en félagið starfrækir tækniteymi sín á Íslandi og í Póllandi, auk þess að halda úti hópi sölumanna, markaðs- og vöruteymi og fleiri í Bandaríkjunum en íslensku fjárfestingafélögin Brunnur og Stoðir eru stærstu fjárhagslegu bakhjarlar félagsins.

Tugir milljóna leiguíbúða

Egill Almar Ágústsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Standby, segir næstu skref að bjóða upp á þjónustu félagsins í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna. Markaðurinn er risastór og er áætlað að um 36% Bandaríkjamanna búi í leiguhúsnæði. Hefur félagið þegar fengið stóran hóp húsaleigufélaga í viðskipti við sig og tengt hugbúnað Standby við þau umsjónarkerfi sem leigufélögin nota. Er ferlið allt mjög straumlínulagað og þurfa leigjendur að hafa sáralítið fyrir því að kaupa þjónustu Standby:

„Þegar húsaleigufélag hefur samþykkt umsókn leigutaka fáum við tilkynningu og sendum leigjandanum sjálfvirkt tölvupóst með hlekk á vefsíðu þar sem hann getur á einfaldan hátt gengið frá leigutryggingunni sinni,“ segir Egill. „Ferlið tekur aðeins nokkrar mínútur og fær leigusalinn staðfestingu strax og ábyrgðin er samþykkt.“

Með því að einbeita sér í fyrstu að húsaleigufélögum vonast Standby til að ná hratt til stórs hóps leigjenda en þjónustan verður einnig gerð aðgengileg almennum leigjendum og leigusölum. Er það þá samningsatriði á milli aðila hvort leigusali tekur við ábyrgð frá Standby en Egill bendir á að víða um Bandaríkin hafi lögum verið breytt í þá veru að tryggja rétt leigjanda til að nýta þjónustu af þessu tagi í stað þess að reiða fram jafnvirði nokkurra mánaða leigu sem tryggingu.