Vígafley USS Springfield, hér staddur í Busan í Suður-Kóreu, tilheyrir sömu framleiðslulínu kafbáta og bandaríski sjóherinn notar á norðurslóðum.
Vígafley USS Springfield, hér staddur í Busan í Suður-Kóreu, tilheyrir sömu framleiðslulínu kafbáta og bandaríski sjóherinn notar á norðurslóðum. — Ljósmynd/Bandaríski sjóherinn
„Þetta er frekari varnarþátttaka í samræmi við okkar skuldbindingar og við stöndum við þær,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um þjónustu við bandaríska kjarnorkukafbáta við Ísland

„Þetta er frekari varnarþátttaka í samræmi við okkar skuldbindingar og við stöndum við þær,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um þjónustu við bandaríska kjarnorkukafbáta við Ísland. Því hafi verið haldið til haga við Bandaríkjamenn að íslenskt land og landhelgi séu friðlýst fyrir kjarnavopnum og skilaboð þeirra séu að sú afstaða sé virt.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra segir ákvörðunina um að veita þjónustuna skipta verulegu máli og muni hún bæta getu Bandaríkjamanna og Atlantshafsbandalagsins til að hafa yfirsýn yfir það sem gerist á hafinu.

Hér á heimavelli

Friðrik Jónsson, sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum, segir við Morgunblaðið að ákvörðun íslenskra stjórnvalda sýni með óyggjandi hætti að þau séu ekki eins feimin við að sýna opinberlega stuðning við aðgerðir í öryggis- og varnarmálum og áður.

„Það er eitt að styðja við Úkraínu með ýmsum hætti en nú er þetta orðið hér á heimavelli. Og þetta er líka jákvætt vegna þess að þetta felur í sér meira gagnsæi við ákvarðanir gagnvart almenningi,“ segir Friðrik og bætir því við aðspurður að hann telji ekki mega lesa það úr þessum atburðum að stríðið í Úkraínu sé að stigmagnast.

Aukin hernaðartengd umferð Bandaríkjamanna við og um Ísland hafi verið að aukast í kjölfar fyrri innrásarinnar í Úkraínu. „Öryggisumhverfið hefur verið að breytast í Evrópu, við höfum séð aukna flugumferð hingað, meðal annars kafbátavéla [...] Við erum í alfaraleið og þá má alveg gera ráð fyrir að Bandaríkjamenn muni vilja nýta þá aðstöðu sem hér er með meiri hætti en áður,“ segir Friðrik.