Víðir Finnbogason fæddist 20. apríl 1930. Hann lést 7. apríl 2023.

Foreldrar Víðis voru hjónin Jóna Friðrika Hildigunn Franzdóttir, f. 26. september 1910, d. 11. janúar 1965, og Finnbogi Halldórsson, f. 3. apríl 1900, d. 27. mars 1954. Systkini Víðis eru Karl D. Finnbogason, f. 25. nóvember 1928, Hólmar Finnbogason, f. 21. febrúar 1932, d. 6. apríl 2008. Björk Finnbogadóttir, f. 18. maí 1942, og Linda Finnbogadóttir Venegas, f. 18. maí 1942, d. 5. október 2022.

Víðir giftist 29. október 1955 Karenu Júlíu Magnúsdóttur, f. 4. apríl 1931, d. 19. mars 2019. Foreldrar Karenar voru hjónin Anna S.M. Einarsson, f. 28. júlí 1901, d. 24. febrúar 1986, og Magnús Einarsson, f. 13. janúar 1901, d. 6. mars 1970.

Dætur Víðis og Karenar eru: 1) Anna Jóna, f. 23. febrúar 1956, börn hennar eru Víðir, maki Monika Magdalena. Karen Björk, maki Gunnar Máni, synir þeirra eru Ríkharður Darri, Örn Dagur og Víðir Máni. Hrannar Darri, maki Anna Borg, dóttir þeirra er Lovísa Rún. 2) Stella Kristín, f. 13. september 1958, sonur hennar er Viktor Hrafn, maki Margrét Berg, börn þeirra eru Kári Berg og Una Berg. 3) Berglind, f. 10. maí 1964, maki Knútur Þórhallsson. Synir þeirra eru Sindri Hrafn. Þórhallur Kári, maki Harpa Guðrún. Víðir Snær, unnusta Ísabella Erna. Dóttir Knúts er Elísabet Inga, maki Máni, börn þeirra eru Bjarki Reyr, Fannar Nói og Hekla Steinunn. 4) Harpa, f. 29. júní 1970, maki Oddur Ingason. Börn Hörpu og Árna Friðleifssonar eru Lena María, sonur hennar er Andri Leó. Emil Örn, maki Ásta María. Börn Odds eru Fannar Már, maki Heiður Karítas, Daníel og Katrín Sóley. Barnabarnabörnin eru sjö.

Fyrir hjónaband átti Víðir tvo syni; Jón Hólm, maki Gréta Jóhannsdóttir, dætur þeirra eru Sólveig og Jóhanna Lilja. Sverri E. Ragnarsson, maki Kristín H. Kristmundsdóttir, dóttir þeirra er Linda.

Víðir ólst upp á Siglufirði og gekk þar í barna- og gagnfræðaskóla. Víðir útskrifaðist úr farmannadeild Stýrimannaskólans í Reykjavík árið 1957.

Víðir starfaði sem stýrimaður hjá Eimskip 1953-1962, stofnaði heildverslunina Víðir Finnbogason ehf. 1963, opnaði Innréttingabúðina og síðar Teppaland 1967 og útibú Teppalands á Akureyri 1980. Einnig var Víðir þátttakandi í stofnun Brimness í Vestmannaeyjum 1973 og Núps á Ísafirði 1990. Árið 1995 sneri Víðir sér að umsýslu bygginga og endurgerð húseigna ásamt öðrum rekstri.

Víðir sat í stjórn Hafskips, Tollvörugeymslunnar og Alpan um árabil.

Víðir var meðliðmur í JCI á Íslandi og meðlimur í Oddfellow-reglunni í tæp 50 ár.

Útför Víðis fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 19. apríl 2023, klukkan 15.

Það er sárt að kveðja elsku pabba sem var mín helsta fyrirmynd í lífinu, leiðbeinandi og vinur. Ég hugga mig við að nú er hann kominn til mömmu sem hann saknaði alla daga frá því hún kvaddi fyrir fjórum árum.

Ég á pabba svo ótal margt að þakka og af honum gat maður lært svo mörg góð lífsgildi. Hann sýndi öllu sem maður tók sér fyrir hendur svo mikinn áhuga, var alltaf svo styðjandi og ráðagóður. Pabbi hvatti mig til að ganga menntaveginn og studdi mig á allan hátt. Honum fannst mikilvægt að geta staðið á eigin fótum og verið sjálfstæður einstaklingur. Hann missti foreldra sína ungur og þurfti því snemma að bjarga sér sjálfur og taka mikla ábyrgð. Það setti mark sitt á hann og endurspeglaðist í hans vinnusemi, dugnaði, ósérhlífni og sterkri ábyrgðartilfinningu gagnvart fjölskyldunni sinni. Pabbi mundi tímana tvenna og minnti okkur fjölskylduna oft á þakklætið, hann sagði gjarnan „þetta er ekki allt svo sjálfsagt“.

Pabbi var sterkur persónuleiki sem náði vel til fólks í kringum sig með sinni fallegu framkomu, kurteisi og prúðmennsku. Pabbi gat verið ákveðinn og fylginn sér en um leið svo mildur og hlýr.

Pabbi og mamma voru bæði keppnisfólk á skíðum á sínum yngri árum. Pabbi vann til fjölda verðlauna bæði í alpagreinum og skíðastökki. Þau voru mikið útivistarfólk, elskuðu íslenska náttúru og ferðuðust mikið og lifðu lífinu lifandi. Síðar varð sumarbústaðurinn bækistöð fjölskyldunnar en þar elskuðu allir að vera. Þar var aðalmálið hjá pabba að setja upp afþreyingu fyrir barnabörnin enda samband hans við barnabörnin sín einstakt. Hann hlustaði á hvað þau höfðu að segja enda sóttu þau í afa sinn og elskuðu hann af öllu hjarta. Þau sögðu gjarnan „afi er svo ungur í anda“. Þegar litlu langafagormarnir mættu svo til leiks þá færðist sælubros yfir andlit pabba.

Pabbi fylgdist vel með öllum íþróttum og hafði brennandi áhuga á frjálsum íþróttum og hlaupum. Það var því einstakt að upplifa það með honum að fara á Ólympíuleikana í London árið 2012 en þar áttum við pabbi skemmtilega daga með Viktori Hrafni syni mínum og Sindra Hrafni systursyni mínum.

Fram á síðasta dag fylgdist pabbi vel með viðskipta- og atvinnulífinu enda byggði hann upp sitt fyrirtæki og stundaði viðskipti og verslunarrekstur árum saman. Hann var mikill athafna- og framkvæmdamaður og var í essinu sínu ef einhverjar framkvæmdir voru í gangi í fjölskyldunni. Pabbi var mikið til sjós á sínum yngri árum og fram á síðasta dag fylgdist hann vel með aflatölum fiskiskipa og var sífellt að reikna út hvað afli einstakra fiskiskipa gáfu í þjóðarbúið.

Þrátt fyrir háan aldur var pabbi ótrúlega hress fram á síðasta dag, hugurinn alveg skýr þó líkaminn hafi aðeins verið farinn að gefa sig. Hann hélt sitt fallega heimili fram á síðasta dag sem var honum svo mikilvægt.

Pabbi var alla tíð öryggið mitt og kletturinn og mikið þótti mér vænt um að geta gefið til baka og finna að síðustu árin gat ég verið öryggið hans.

Hvíl í friði elsku yndislegi pabbi minn,

Þín dóttir,

Stella.