[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Rio Ferdinand kveðst svo gott sem hafa lagt Cristiano Ronaldo í einelti þegar þeir voru samherjar hjá Manchester United á árunum 2003 til 2009 með það fyrir augum að styrkja Portúgalann andlega

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Rio Ferdinand kveðst svo gott sem hafa lagt Cristiano Ronaldo í einelti þegar þeir voru samherjar hjá Manchester United á árunum 2003 til 2009 með það fyrir augum að styrkja Portúgalann andlega. Í samtali við ástralska útvarpsþáttinn Kyle and Jackie O sagði Ferdinand að hann og Quinton Fortune hafi verið gjarnir á að espa hann þegar þeir léku borðtennis sín á milli. „Hann var mun yngri en við, þetta var kannski á mörkunum að vera einelti en var bara í því skyni að byggja hann upp, byggja upp þessa seiglu. Hann fór nánast að gráta, hann var með svo mikið keppnisskap,“ sagði Ferdinand meðal annars.

Karlalið ÍA í knattspyrnu hefur fengið sænska miðvörðinn Pontus Lindgren að láni frá KR. Lindgren er ætlað að fylla skarð skoska miðvarðarins Alexander Davey, sem sleit hásin á dögunum og verður því að öllum líkindum ekkert með á tímabilinu. Svíinn gekk til liðs við KR frá Sylvia í heimalandinu fyrir síðasta tímabil og lék 16 leiki í Bestu deildinni, auk þriggja bikarleikja og tveggja Evrópuleikja.

Álftanes og KA náðu yfirhöndinni í undanúrslitaeinvígum Íslandsmóts kvenna í blaki í gær. Álftanes lagði Aftureldingu að velli á Álftanesi, 3:2, þar sem hrinurnar enduðu 25:19, 25:21, 17:25, 14:25 og 15:13. Þá vann KA 3:2-sigur gegn Völsungi á Akureyri þar sem hrinurnar enduðu 23:25, 25:14, 25:17, 20:25 og 15:9. Næstu leikir liðanna fara fram í Mosfellsbæ og á Húsavík á föstudaginn.

Framtíð senegalska knattspyrnumannsins Sadio Mané hjá Þýskalandsmeisturum Bayern München er í mikilli óvissu þessa dagana. Mané fékk eins leiks bann hjá félaginu og fjársekt fyrir að kýla liðsfélaga sinn Leroy Sané í andlitið eftir tap Bayern gegn Manchester City í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á dögunum. Sky í Þýskalandi greinir frá því að leikmönnum þýska liðsins líki ekki vel við Mané og að stjórinn Thomas Tuchel hafi ekki mikinn áhuga á því að vinna með honum heldur. Hann gæti því yfirgefið Bayern München í sumar eftir stutta dvöl í München.

Hamar og Afturelding náðu á mánudaginn undirtökunum í undanúrslitaeinvígjum Íslandsmóts karla í blaki. Íslandsmeistarar Hamars fengu þá Vestra í heimsókn til Hveragerðis og unnu öruggan sigur, 3:0. Hrinurnar enduðu 25:20, 25:13 og 25:20. Þá vann Afturelding sannfærandi sigur gegn KA, 3:1, en hrinurnar enduðu 22:25, 25:22, 25:23 og 25:20. Leikir númer tvö fara fram á Ísafirði og Akureyri á morgun, sumardaginn fyrsta.

Egypski sóknarmaðurinn Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, sló á mánudaginn met í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar hann skoraði tvívegis í 6:1-útisigri á Leeds United. Hinn örvfætti Salah hefur nú skorað 107 mörk með vinstri fæti í deildinni og hefur enginn leikmaður í rúmlega 30 ára sögu hennar skorað fleiri mörk með vinstri fæti. Robbie Fowler, fyrrverandi framherji Liverpool, skoraði 105 mörk með vinstri fæti í deiildinni en Salah er nú kominn upp fyrir Fowler.