Fenix 7 frá Garmin er alhliða íþrótta- og útivistarúr.
Fenix 7 frá Garmin er alhliða íþrótta- og útivistarúr.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svo lengi sem ég man eftir mér hef ég verið afskaplega mikill kyrrsetumaður. Uni ég mér best í mjúku rúmi, undir hlýrri sæng, með fartölvu í fanginu og með aðra höndina á lyklaborðinu en hina ofan í sælgætisskál

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Svo lengi sem ég man eftir mér hef ég verið afskaplega mikill kyrrsetumaður. Uni ég mér best í mjúku rúmi, undir hlýrri sæng, með fartölvu í fanginu og með aðra höndina á lyklaborðinu en hina ofan í sælgætisskál. Þökk sé góðum genum hefur kroppurinn haldist tiltölulega spengilegur þrátt fyrir allt letilífið og nammiátið.

Af og til hef ég tekið stuttar syrpur í íþróttum eða líkamsrækt, og jafnvel á köflum að hefur mátt sjá móta fyrir magavöðvunum (þeir sáust síðast í Mexíkóborg fyrir um tveimur árum eftir rösklegt átak, og létta matareitrun), en slík heilsuræktarverkefni hafa alltaf fjarað út á endanum.

En nú virðist makindalífið vera á enda. Fertugsafmælið er í baksýnisspeglinum og líkaminn farinn að senda ögn skýrari skilaboð um að huga verði betur að reglulegu viðhaldi. Liggur beinast við að kenna Frakklandi um, því eins og glöggir lesendur vita flutti lífsstílsblaðamaður ViðskiptaMoggans til Parísar fyrir ári og fylgdu því ýmsar breytingar á mataræðinu. Þannig hefur kampavínsdrykkjan aukist töluvert, sem og nart í osta og langbrauð, að ekki sé talað um frönsku kökurnar. Það er margt sem kvarta má yfir í Frakklandi, en almáttugur hvað þetta land á góð bakarí.

Til að gera langa sögu stutta hefur mittið tekið að blása út jafnt og þétt, í takt við skuldir franska ríkissjóðsins.

Hvað gerir þá maður á miðjum aldri sem að eðlisfari hefur afskaplega takmarkaða hreyfiþörf? Jú, hann tekur tæknina í sína þjónustu.

Æfingafélagi á úlnliðnum

Það hefur sína kosti að skrifa reglulega lífsstílspistla fyrir dagblað og hef ég t.d. komist upp á lagið með það að fá að prófa alls kyns skemmtileg tól og tæki sem framleiðendur lána blaðamönnum með glöðu geði. Bað ég snjallúraframleiðandann Garmin að senda mér úr til að fjalla um og fékk send heim að dyrum þrjú af þeirra bestu úrum. Langaði mig að sannreyna að hvaða marki það hjálpar við íþróttaiðkunina og aðhaldið að mæla hreyfinguna og líkamsástandið með fullkomnu íþróttaúri.

Garmin þarf varla að kynna fyrir lesendum en þetta fyrirtæki, sem varð upphaflega til í kringum framleiðslu GPS-tækja á 9. áratugnum, hefur lengi verið leiðandi í framleiðslu sérhæfðra úra fyrir íþrótta- og útivistarfólk. Hefur snjallúratækninni fleygt fram og hægt að gera ótrúlegustu hluti með þeim úrum sem eru á markaðinum í dag, en um leið hefur samkeppnin harðnað og framboðið af alls kyns heilsu-úrum eykst ár frá ári. Nær Garmin þó enn, að margra mati, að tróna á toppnum.

Lengi að komast af stað

Garmin-úrin eru þó ekki gallalaus, og raunar var fyrsti vandinn sem ég stóð frammi fyrir að reyna að velja rétta úrið því margir tugir mismunandi gerða af úrum eru í boði, hvert með sín sérkenni: sum úrin með GPS-búnaði og önnur ekki, sum með sólarsellu, sum með harðan disk til að geyma tónlist, og þar fram eftir götunum. Mætti Garmin alveg einfalda framboðið.

Úr varð að prófa Fenix 7, sem er sportlegt alhliða íþrótta- og útivistarúr, Forerunner 955, sem er vandað og létt úr tilvalið fyrir skokkarana, og loks MARQ Aviator, sem er hefðbundið snjall-armbandsúr smíðað úr títaníummálmi og gert til að höfða sérstaklega til flugáhugamanna. Gætti ég þess að úrin byðu öll upp á þann möguleika að mæla púls og súrefnismettun í blóði, og streyma tónlistarupptökum yfir blátannartengingu.

Á fyrstu metrunum rak ég mig á að það gat verið nokkuð flókið að stilla úrin rétt, uppfæra í þeim hugbúnaðinn og þar fram eftir götunum. Einhvern veginn hafði mér tekist að hlaða niður tveimur Garmin-forritum í símann og einu forriti í fartölvuna þegar upp var staðið. Ættu lesendur að vera við því búnir að verja töluverðum tíma í uppsetningu, og að læra á úrin, einfaldlega vegna þess hve fullkomin tæki er um að ræða og hve miklir notkunarmöguleikarnir eru: Ætlarðu bara að skokka, eða hjóla? Klifra eða synda? Er ferðinni heitið í flúðasiglingar eða út á golfvöll? Garmin býður upp á sérsniðnar lausnir fyrir þetta allt, og gæti í fyrstu virkað eins og frumskógur.

Ný upplifun í skokkinu

Eins var það helst til flókið að hlaða tónlist inn á úrin. Fyrst þarf að kaupa áskrift að veitu á borð við Spotify, svo búa til (eða finna) heppilegan lagalista, tengja úrið við þráðlausa netið á heimilinu, og svo hlaða tónlistinni niður yfir tiltölulega hæga tengingu.

Þarf að játast að ég var orðinn svolítið ergilegur þegar ég gat loksins haldið út að skokka, en þá breyttist líka allt:

Það er merkileg upplifun að halda af stað með hlaupaskóna á fótunum, góðan lagalista kláran, og heyrnartólin á sínum stað. Allt sem þarf er að láta úrið vita að æfing sé hafin og tekur innbyggt þjálfunarforritið þá við. Í mínu tilviki sagði úrið mér að hlaupa hægar, enda verða kyrrsetumenn að gæta sín á að púlsinn fari ekki upp úr öllu valdi þegar þeir loksins byrja að hreyfa sig. Frekar en að sprengja mig með stuttum sprettum hægði ég ferðina og stóð mig allt í einu af því að hafa skokkað – hægt – í lengri tíma samfleytt en nokkurn tíma áður á ævinni. Hjálpaði örugglega til að ég fann nokkuð góða lagalista á Spotify: einn með diskótónlist og hinn með góðu rokki, og ef mér leiddist eitthvert lagið gat ég spilað það næsta í röðinni með því að ýta á einn takka á úrinu.

Þegar heim er komið sendir úrið síðan upplýsingar yfir í Garmin-snjallsímaforritið þar sem hægt er að skoða hlaupaleiðina og greina frammistöðuna í þaula, og vakta framfarirnar ef því er að skipta.

Fyrir utan að vera hinn besti æfingafélagi þá má hafa töluvert gagn af því að hafa Garmin-úrið á sér allan sólarhringinn: það fylgist t.d. með skrefafjöldanum, og mælir svefngæðin hjá fólki (ég reyndist sofa eins og steinn en eiginmaðurinn ekki).

Freistar flugmanna

Af úrunum þremur líkaði mér best við Forerunner 955, sem kostar 95.000 kr. á Íslandi. Úrið er létt og stílhreint, með skýran og bjartan skjá. Fenix 7, sem kostar frá 126.00 kr., var á margan hátt sambærilegt við Forerunner-úrið, en virkaði ögn þyngra og klossaðra og þess vegna ekki heppilegt að sofa með á úlnliðnum.

MARQ Aviator er síðan ekki eiginlegt íþróttaúr, þyngdarinnar og stærðarinnar vegna, heldur frekar hugsað sem valkostur fyrir þá sem vilja hafa verulega fallegt úr á úlnliðnum með alla helstu snjallmæla. Kostar úrið nærri 400.000 kr. á Íslandi og eru gæðin og frágangurinn í samræmi við verðið en úrið er með skarpan og bjartan Amoled-skjá og rafhlöðu sem er lengi að tæmast. Er úrið með innbyggðu flugleiðsögukerfi og því leikfang sem flugnördar ættu að eiga erfitt með að standast, og einnig með heilsuforriti sem á að hjálpa fólki að losna hraðar við flugþreytu.

Er MARQ Aviator skemmtilegur kostur, en þegar komið er í þennan verðflokk þarf þó ekki að bæta mjög mörgum hundraðþúsundköllum við til að kaupa gangverksúr frá framleiðendum á borð við Grand Seiko eða Jaeger-LeCoultre. Gangverksúrin geta þó ekki vísað mönnum leið um 2.000 skíðasvæði og 42.000 golfvelli víðs vegar um heiminn eða virkað sem snertilaust greiðslukort.