Rómantík „Þyrnirós er vakin með kossi, en prinsinn reynist ekki ýkja rómantískur heldur karlremba sem hugsar aðeins um kynlíf,“ segir í rýni, en Þyrnirós leikur Vala Kristín Eiríksdóttir.
Rómantík „Þyrnirós er vakin með kossi, en prinsinn reynist ekki ýkja rómantískur heldur karlremba sem hugsar aðeins um kynlíf,“ segir í rýni, en Þyrnirós leikur Vala Kristín Eiríksdóttir. — Ljósmynd/Grímur Bjarnason
Borgarleikhúsið Prinsessuleikarnir ★★★½· Eftir Elfriede Jelinek. Íslensk þýðing: Bjarni Jónsson. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikmynd, búningar, lýsing og leikgervi: Mirek Kaczmarek. Tónlist: Gísli Galdur Þorgeirsson og Jón Örn Eiríksson. Aðstoð við lýsingu: Fjölnir Gíslason. Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Birgitta Birgisdóttir, Jörundur Ragnarsson, Sólveig Arnarsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir. Frumsýning á Nýja sviði Borgarleikhússins föstudaginn 17. mars 2023, en rýnt í 2. sýningu á sama stað sunnudaginn 26. mars 2023.

Leiklist

Silja Björk

Huldudóttir

Er eftirsóknarvert að skipa hlutverk prinsessunnar eins og það birtist í ævintýrunum? Vera ímynd fullkomnunar og bíða eftir prinsinum á hvíta hestinum? Hverjar eru prinsessur samtímans? Þetta er meðal þeirra spurninga sem Nóbelsverðlaunahöfundurinn Elfriede Jelinek veltir upp í Prinsessuleikunum sem Borgarleikhúsið hefur frumsýnt í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar og í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur.

Prinsessuleikarnir, með undirtitilinn Dauðinn og stúlkan (þ. Prinzessinnendramen: Der Tod und das Mädchen), samanstendur af fimm einþáttungum um sex „prinsessur“ sem frumsýndir voru í Deutsches Schauspielhaus og Deutsches Theater árið 2002. Jelinek skrifar um ævintýraprinsessurnar Mjallhvíti og Þyrnirós (sem Disney hefur gert ódauðlegar í teiknimyndum sínum), rithöfundana Sylviu Plath, Ingeborg Bachmann (sem er landi Jelinek) og sjálfa sig og loks bandarísku forsetafrúna Jackie Kennedy.

Í uppfærslu Borgarleikhússins hittum við fyrir Mjallhvíti (Birgitta Birgisdóttir), Þyrnirós (Vala Kristín Eiríksdóttir) og Jackie Kennedy (Sólveig Arnarsdóttir) í jafnmörgum einþáttungum. Þær eru staddar í mjallhvítum og lífvana heimi þar sem uppstoppuð dýr stara tómum augum út í loftið og lækurinn er frosinn fastur sem spegill. Mirek Kaczmarek, sem hannar leikmynd, búninga, lýsingu og leikgervi, býður upp á einstaklega spennandi sjónrænan heim þar sem glerkista er í forgrunni, bleikar risabrúður eru nýttar með skemmtilegum hætti og kröftugir litir í búningum og lýsingu njóta sín vel í hvítu rýminu.

Mjallhvít og Þyrnirós eiga það sameiginlegt að vakna í glerkistunni. Mjallhvít er ein í skóginum þar til hún hittir veiðimanninn (Bergur Þór Ingólfsson) sem tekur á sig hlutverk dauðans. Þyrnirós er vakin með kossi, en prinsinn (Jörundur Ragnarsson) reynist ekki ýkja rómantískur heldur karlremba sem hugsar aðeins um kynlíf. Eftir hlé hittum við síðan fyrir Jackie Kennedy, sem rekur raunir sínar í hjónalífinu þar sem skuggi Marilyn Monroe hvílir yfir öllu. John F. Kennedy (Jörundur Ragnarsson) deilir sviðinu með konu sinni, en ólíkt hinum tveimur körlum verksins er hann þögull allan tímann.

Jelinek beinir sjónum okkar að því hvað felist í því að hafa rödd og hver fái að segja söguna. Texti hennar er uppfullur af orðaleikjum, sem Bjarni Jónsson hefur snarað yfir á íslensku með meistaralegum hætti. Oft á tíðum minnir hrynjandi textans á tónlist. Á sama tíma þurfa áhorfendur að hafa sig alla við til að ná utan um og reyna að skilja þær heimspekilegu pælingar sem verkið miðlar og meðtaka gagnrýnina á hugmyndakerfi feðraveldisins sem Jelinek vinnur iðulega með í skrifum sínum, sem er langt frá því að vera léttmeti. Lítil sem engin framvinda er í þáttunum þremur sem leiknir eru á Nýja sviði Borgarleikhússins og frá höfundarins hendi fara persónur verksins ekki í neitt tilfinningalegt ferðalag. Fyrir vikið verður efniviðurinn ekki mjög dramatískur eða leikbær.

Þar með er ekki sagt að ekki sé hægt að dást að hugvitsamlegri nálgun Unu Þorleifsdóttur leikstjóra sem í samstarfi við framúrskarandi leikhóp gerir sitt besta til að gæða efniviðinn lífi. Vala Kristín og Jörundur gera sér mikinn mat úr þeim hlægilegu aðstæðum sem miðverkið um Þyrnirós býður upp á, þar sem vonir og væntingar persónanna tveggja eru afar illa samstilltar. Notkun leikhópsins á tveimur risabrúðum kom mjög vel út í grótesku sinni.

Erfitt er að skynja Mjallhvíti og Þyrnirós sem persónur af holdi og blóði, sem helgast mögulega af ævintýrauppruna þeirra. Ýktur leikstíllinn, sem er mest áberandi í þættinum um Mjallhvíti, teiknar upp tvívíða mynd af persónum sem erfitt er að hafa samúð með. Sólveig Arnarsdóttir kemst sem Jackie Kennedy næst því að skapa raunverulega manneskju á sviðinu sem hreyfir við áhorfendum, enda Sólveig í fantaformi eftir að hafa brillerað sem lafði Macbeth á öðru sviði leikhússins fyrr í vetur.

Prinsessuleikarnir í Borgarleikhúsinu eru mikið sjónarspil undir styrkri stjórn Unu og þökk sé hugvitsamlegri sjónrænni útfærslu Mireks Kaczmareks. Textinn er á köflum hins vegar svo tyrfinn að það dugar varla að heyra hann mæltan heldur þyrfti að marglesa hann af blaði til að skilja hugsun og framsetningu höfundar.