Tvenna Rodrygo skoraði bæði mörk Real Madrid í gærkvöldi.
Tvenna Rodrygo skoraði bæði mörk Real Madrid í gærkvöldi. — AFP/Javier Soriano
Evrópu- og Spánarmeistarar Real Madrid eru komnir áfram í undanúrslit Meistaradeildar karla í knattspyrnu eftir sigur gegn Chelsea í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum keppninnar á Stamford Bridge í Lundúnum í gær

Evrópu- og Spánarmeistarar Real Madrid eru komnir áfram í undanúrslit Meistaradeildar karla í knattspyrnu eftir sigur gegn Chelsea í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum keppninnar á Stamford Bridge í Lundúnum í gær.

Leiknum lauk með 2:0-sigri Real Madrid en Rodrygo skoraði bæði mörk Real Madrid í síðari hálfleik. Real Madrid vann einvígið því samanlagt 4:0 en þetta er í ellefta sinn á síðustu þrettán árum sem Real Madrid tryggir sér sæti í undanúrslitum keppninnar.

Frá árinu 2014 hefur Real Madrid fimm sinnum fagnað sigri í Meistaradeildinni en alls hefur Real Madrid unnið keppnina fjórtán sinnum og oftast allra liða. AC Milan kemur þar á eftir með sjö sigra en liðið varð síðast Evrópumeistari árið 2007.

AC Milan á ennþá möguleika á því að bæta áttunda bikarnum í safnið en liðið gerði 1:1-jafntefli gegn Napólí í fjörugum síðari leik liðanna í Napólí. Olivier Giroud kom AC Milan yfir á 43. mínútu eftir að hafa látið verja frá sér vítaspyrnu á 22. mínútu. Khvicha Kvaratskhelia lét svo verja frá sér vítaspyrnu í liði Napólí á 82. mínútu áður en Victor Osimhen jafnaði metin fyrir Napólí í uppbótartíma en það mark kom of seint.

AC Milan vann fyrri leik liðanna í Mílanó þar sem Ismaël Bennacer skoraði sigurmark leiksins og AC Milan vann einvígið því 2:1.

Í kvöld geta svo Manchester City og Inter Mílanó tryggt sér sæti í undanúrslitunum en City leiðir 3:0 gegn Bayern München og Inter leiðir 2:0 gegn Benfica.