Veggur Stórskyttan Björgvin Þór Hólmgeirsson úr Stjörnunni lendir á vegg frá Vestmannaeyjum í leik liðanna í Mýrinni í gærkvöldi.
Veggur Stórskyttan Björgvin Þór Hólmgeirsson úr Stjörnunni lendir á vegg frá Vestmannaeyjum í leik liðanna í Mýrinni í gærkvöldi. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÍBV og FH tryggðu sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta. Mætast þau í undanúrslitum og verður FH með heimavallarrétt, en FH hafnaði í öðru sæti úrvalsdeildarinnar og ÍBV í því þriðja

Handboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

ÍBV og FH tryggðu sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta. Mætast þau í undanúrslitum og verður FH með heimavallarrétt, en FH hafnaði í öðru sæti úrvalsdeildarinnar og ÍBV í því þriðja.

ÍBV hafði betur gegn Stjörnunni á útivelli, 27:23, á meðan FH vann öruggan 33:24-útisigur á Selfossi.

Eyjamenn voru langt frá sínu besta í fyrri hálfleik gegn Stjörnunni og voru Garðbæingar yfir allan hálfleikinn. Munurinn varð mestur sex mörk, en fimm mörk skildu liðin að í hálfleik, 15:10.

Hægt og bítandi minnkaði ÍBV muninn í seinni hálfleik, jafnaði loks í 20:20 og var sterkara liðið í lokin. Rúnar Kárason fór á kostum fyrir ÍBV og skoraði ellefu mörk. Innkoma Petars Jokanovic í markið hjálpaði gestunum einnig, en hann var með um 50 prósenta markvörslu og varði tvö víti. Þá réði Stjarnan illa við Kára Kristján Kristjánsson undir lokin.

Hergeir Grímsson lék gríðarlega vel fyrir Stjörnuna í fyrri hálfleik og skoraði sex mörk. Hann bætti ekki við einu einasta í seinni hálfleik og góð frammistaða Björgvins Þórs Hólmgeirssonar dugði Stjörnumönnum skammt.

Rétt eins og í fyrri leiknum fékk lykilmaður Stjörnunnar rautt spjald eftir aðeins fimm mínútna leik og reyndist það dýrkeypt. Í gær var það Starri Friðiksson. Leikmenn Stjörnunnar áttu minna eftir af tankinum í lokin, enda að spila á færri mönnum.

Sannfærandi hjá FH

FH átti ekki í neinum vandræðum með að vinna Selfoss á útivelli, 33:24. FH-ingar unnu fyrsta leik einvígisins á heimavelli með einu marki eftir háspennu, en allt annað var uppi á teningnum á Selfossi í gær.

FH-ingar komust í 9:2 snemma leiks og voru Selfyssingar ekki líklegir til að jafna eftir það. Staðan í hálfleik var 19:10 og þrátt fyrir að Selfoss hafi skorað fjögur af fyrstu fimm mörkum seinni hálfleiks, var sigurinn aldrei í hættu.

Einar Bragi Aðalsteinsson var markahæstur hjá FH með sjö mörk og Hannes Höskuldsson gerði slíkt hið sama fyrir Selfoss.

Ljóst er að Selfossliðið mætir breytt til leiks á næstu leiktíð, því Guðmundur Hólmar Helgason og Ísak Gústafsson yfirgefa félagið. Guðmundur fer í Val og Ísak fer í Hauka. Selfyssingar þurfa að bæta í hópinn, ætli þeir sér lengra á næstu leiktíð.

ÍBV og FH er spennandi einvígi, því liðin voru tvö af bestu liðum deildarinnar eftir áramót. Sigurvegarinn í einvíginu á góða möguleika í úrslitaviðureigninni.