Reyndur Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í gær.
Reyndur Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég er spenntur fyrir þessari áskorun. Ég hef hitt fólk og fundið fyrir því að það er mikill vilji til þess að gera vel, það er góð tilfinning fyrir þjálfara. Ég veit að þetta var einróma ákvörðun hjá stjórninni, þau sögðu mér það

Landsliðið

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Ég er spenntur fyrir þessari áskorun. Ég hef hitt fólk og fundið fyrir því að það er mikill vilji til þess að gera vel, það er góð tilfinning fyrir þjálfara. Ég veit að þetta var einróma ákvörðun hjá stjórninni, þau sögðu mér það.

Það er mér mikilvægt því þá veit ég að allir styðja við bakið á mér,“ sagði Åge Hareide, nýr þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið að loknum sínum fyrsta blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í gær.

„Fyrir mér er ávallt spennandi að mæta á nýjan stað en ég þekki til Íslands, ég veit hverju liðinu hefur áorkað og þekki nokkra af leikmönnunum. Ég er ánægður með að vera kominn hingað og hlakka til að hefjast handa,“ hélt hann áfram.

Hareide sagði ráðningarferlið ekki hafa tekið langan tíma.

„Það tók mjög fljótt af. Þau tjáðu mér að þau hefðu verið í þjálfaraleit en ég held að þau hafi mjög fljótlega ákveðið að ráða mig. Þegar mér var boðið starfið var það mjög hvetjandi fyrir mig til að koma mér af stað, þannig að ég flaug hingað þegar í stað.“

Eðlilegt ef við komumst á EM

Samningur hans gildir fram yfir EM 2024 í Þýskalandi, komist Ísland þangað. „Samningurinn er settur þannig upp að ef við komumst á EM þá rennur hann út í júní. Við myndum þá þurfa að ræða saman að nýju eftir það.

Ég myndi segja að ef okkur tekst að ná árangri væri það einungis eðlilegt að líta einnig til næstu undankeppni, það væri alveg sjálfsagt. En aðalatriðið núna er að komast á EM, það er mitt markmið, og svo þyrftum við að ræða framhaldið við stjórnina,“ útskýrði Hareide.

Þjálfa eins lengi og ég get

Norðmaðurinn er 69 ára gamall og hefur komið víða við á löngum ferli. Hann hefur meðal annars stýrt karlaliðum Helsingborg og Malmö til sænskra meistaratitla, Rosenborg til norska meistaratitilsins og Bröndby til danska meistaratitilsins, auk þess að þjálfa karlalandslið Danmerkur og Noregs.

„Á mínum aldri skiptir það máli að vera í fínu formi og heilsuhraustur. Svo lengi sem ég er það mun ég reyna að þjálfa eins lengi og ég mögulega get,“ sagði Hareide er hann var spurður hvort hann hygðist þjálfa lengi enn.

Enginn munur á þremur liðum

Blaðamanni lék forvitni á að vita hvort Hareide teldi sig nú standa frammi fyrir sinni stærstu áskorun á þjálfaraferli sínum.

„Þetta er áskorun. Það er alltaf áskorun að koma landsliði á stórmót því það er mikil og hörð samkeppni. Ég er búinn að skoða riðilinn og vitanlega er Portúgal sigurstranglegast í honum. En það er enginn munur á Bosníu, Slóvakíu og Íslandi. Þau eru mjög áþekk að getu. Við verðum að vinna Lúxemborg og Liechtenstein, það er alveg ljóst. Ef við gerum það ekki eigum við hvort eð er ekkert erindi á EM. Leikirnir við Bosníu og Slóvakíu eru mikilvægastir,“ sagði Hareide.

Hæfileikaríkir leikmenn

Hann hefur fylgst vel með íslenska liðinu undanfarið.

„Ég hef séð töluvert af núverandi liði. Í því eru reyndir leikmenn, hæfileikaríkir leikmenn og ungir, hæfileikaríkir leikmenn. Við þurfum að reyna að finna réttu blönduna en við verðum einnig að festa sterka og pottþétta vörn í sessi.

Það er aðalatriðið í þessu öllu saman, því þannig höldum við okkur inni í leikjum. Með einu eða tveimur færum geturðu skorað mörk, það er mikilvægt,“ sagði Hareide.

Megum ekki gera mistök

Spurður hvernig tegund af fótbolta hann muni leggja upp með að spila sem þjálfari íslenska landsliðsins sagði Hareide:

„Við verðum skipulagðir og munum geysast fram eins hratt og við getum. Við erum með blöndu af leikmönnum fram á við. Leikmenn sem eru fljótir; lágvaxnir og snöggir leikmenn. Til dæmis [Hákon Arnar] Haraldsson, [Albert] Guðmundsson og [Arnór] Sigurðsson, sem er í toppformi með Norrköping um þessar mundir.

Við erum með leikmenn sem geta klárað færi eins og [Alfreð] Finnbogason, sem ég þekki mjög vel, ég þjálfaði hann hjá Helsingborg. Við búum yfir sóknarþunga en fyrst og fremst þurfum við að vera gífurlega vel skipulagðir, spila mjög skipulagðan fótbolta.

Þess er þörf í landsliðsfótbolta, það má ekki gefa neitt frá sér því andstæðingurinn þarf aðeins eitt eða tvö færi til þess að skora. Við sáum það í Bosníu-leiknum, ein lítil mistök og þeir skora. Við megum ekki gera nein mistök.“

Jákvætt að hafa tvo möguleika

En hvernig metur hann möguleika Íslands á að komast á EM þarnæsta sumar? „Það eru tveir möguleikar í boði. Fyrri möguleikinn er að ná öðru eða fyrsta sæti, við skulum reyna að ná öðru sætinu.

Hinn möguleikinn er umspil í mars þannig að okkur hafa verið færðir tveir möguleikar, sem er jákvætt. Ég tel okkur að minnsta kosti færa um að komast í umspil,“ sagði Hareide að lokum í samtali við Morgunblaðið í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal.