Guðmundur Ingi Guðbrandsson vinnumarkaðsráðherra ætlar ekki að leggja fram frumvarp sem myndi skýra valdheimildir ríkissáttasemjara.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson vinnumarkaðsráðherra ætlar ekki að leggja fram frumvarp sem myndi skýra valdheimildir ríkissáttasemjara. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Greint var frá því nýlega að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmálaráðherra og þar með ráðherra vinnumarkaðar, hygðist ekki leggja fram stjórnarfrumvarp um breytingar á vinnumarkaðslöggjöfinni á yfirstandandi þingi

Greint var frá því nýlega að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmálaráðherra og þar með ráðherra vinnumarkaðar, hygðist ekki leggja fram stjórnarfrumvarp um breytingar á vinnumarkaðslöggjöfinni á yfirstandandi þingi. Frumvarpið átti meðal annars að tryggja aukin áhrif og völd ríkissáttasemjara þegar viðræðum er vísað til embættisins. Til að mynda gæti ríkissáttasemjari látið greiða atkvæði um miðlunartillögu, sem er hugtak sem flestum er í dag kunnugt um. Vinnumarkaðsráðherra hefur látið hafa eftir sér að í kjölfar samtals við forystufólk verkalýðshreyfingarinnar hyggist hann koma til móts við sjónarmið þeirra og „freista þess að ná betri samstöðu um málið“ eins og haft var eftir ráðherranum.

Það er ástæða til að gera athugasemd við þessi vinnubrögð. Lengi hefur legið fyrir að skýra þyrfti valdheimildir ríkissáttasemjara og reynsla síðustu ára hefur enn frekar ýtt á að það verði gert. Þá voru allir stjórnarflokkar búnir að samþykkja umrætt frumvarp og það má ætla að ekki hafi þurft mikla pólitíska kænsku til að koma því í gegnum þingið.

Fyrir áramót undirrituðu Starfsgreinasambandið og Samtök atvinnulífsins (SA) kjarasamning til skamms tíma. Báðum aðilum mátti vera ljóst að aðstæður í efnahagslífinu fram undan væru erfiðar og það má segja báðum aðilum til hróss að um skynsamlegt skref var að ræða í ljósi aðstæðna, þó samningarnir væru atvinnulífinu dýrir. VR fylgdi stuttu á eftir en allir þekkja hvernig samningaviðræður SA og Eflingar þróuðust með tilheyrandi verkfalls- og verkbannsboðunum og óljósum lagatúlkunum um það hvaða völd ríkissáttasemjari hefur í raun og veru.

Næsta kjaralota er nú þegar hafin og það er engin ástæða til annars en að ætla að hún lendi í sama hnút og fyrri viðræður hafa gert. Það má öllum vera ljóst að tal ráðherrans um að „freista þess að ná betri samstöðu“ á sér enga stoð í raunveruleikanum. Stórum hluta verkalýðshreyfingarinnar er stýrt af fólki sem kýs alltaf ófrið umfram frið og hefur sýnt að það er tilbúið til að fórna hagsmunum félagsmanna sinna í þeim tilgangi að boða löngu úrelta stefnu um sósíalisma.

Óvissa um lagaheimildir ríkissáttasemjara mun án efa setja sterkan svip á íslenskan vinnumarkað á komandi vetri. Hún er nú á ábyrgð vinnumarkaðsráðherra – og um leið ríkisstjórnarinnar allrar.