Gunnar Tryggvason
Gunnar Tryggvason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjallað var um svonefnda útboðsleið á fundi samráðsnefndar um sjávarútvegsstefnu matvælaráðherra á mánudag í þessari viku. Til þess voru fengnir þeir Daði Már Kristófersson, prófessor í auðlindahagfræði og varaformaður Viðreisnar, og Gunnar Tryggvason, framkvæmdastjóri Faxaflóahafna og fv

Fjallað var um svonefnda útboðsleið á fundi samráðsnefndar um sjávarútvegsstefnu matvælaráðherra á mánudag í þessari viku. Til þess voru fengnir þeir Daði Már Kristófersson, prófessor í auðlindahagfræði og varaformaður Viðreisnar, og Gunnar Tryggvason, framkvæmdastjóri Faxaflóahafna og fv. aðstoðarmaður Oddnýjar G. Harðardóttur fjármálaráðherra. Gunnar sóttist jafnframt eftir því að leiða lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar.

Lengi hefur verið deilt um kosti og galla útboðsleiðarinnar, sem í stuttu máli snýst um það að að innkalla hluta af veiðiheimildum af veiðiréttarhöfum og bjóða aftur út til hæstbjóðenda.

Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans vakti val ræðumanna athygli fundargesta, en þeir voru ekki tilkynntir sérstaklega þegar fundurinn var boðaður. Tæplega 30 manns sitja í samráðsnefndinni en innan hennar starfa jafnframt fjórir starfshópar sem allir hafa ólíkum hlutverkum að gegna. Nefndin, sem skipuð er af Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í júní í fyrra, hefur það hlutverk að kortleggja „áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins“ eins og það var kynnt þegar henni var komið á fót. Þá er henni ætlað að leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga á frekari árangri og samfélagslegri sátt um umgjörð greinarinnar.

Á fundinum á mánudag var einnig kynnt ný könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir matvælaráðuneytið um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegsmála. Gerð könnunarinnar er á vef ráðuneytisins sögð mikilvæg til að breikka samráðsferlið.