Vesturbær Lóðin umrædda við Ásvallagötu þar sem stendur til að reisa fjölbýlishús. Íbúar í grenndinni eru ósáttir við þessi áform.
Vesturbær Lóðin umrædda við Ásvallagötu þar sem stendur til að reisa fjölbýlishús. Íbúar í grenndinni eru ósáttir við þessi áform. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kristján Jónsson kris@mbl.is Íbúar á Ásvallagötu, Sólvallagötu og víðar í hverfinu eru margir hverjir mjög ósáttir við að Reykjavíkurborg skuli hafa tekið jákvætt í erindi um að byggja fjölbýlishús á Ásvallagötu 48 í Vesturbænum, að sögn viðmælenda blaðsins. Guðbrandur Jóhannesson, íbúi á Sólvallagötu, er einn þeirra. Hann segir að margir nágrannar sínir séu verulega ósáttir og séu að vinna að því að senda inn greinargerðir til að verjast þeim fyrirætlunum að þar rísi sex hæða fjölbýlishús í stað einbýlishúss sem þar stendur.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íbúar á Ásvallagötu, Sólvallagötu og víðar í hverfinu eru margir hverjir mjög ósáttir við að Reykjavíkurborg skuli hafa tekið jákvætt í erindi um að byggja fjölbýlishús á Ásvallagötu 48 í Vesturbænum, að sögn viðmælenda blaðsins. Guðbrandur Jóhannesson, íbúi á Sólvallagötu, er einn þeirra. Hann segir að margir nágrannar sínir séu verulega ósáttir og séu að vinna að því að senda inn greinargerðir til að verjast þeim fyrirætlunum að þar rísi sex hæða fjölbýlishús í stað einbýlishúss sem þar stendur.

Guðbrandur segir að það sé sérkennilegt svo ekki sé meira sagt að Reykjavíkurborg hafi tekið jákvætt í fyrirspurn um að rífa umrætt einbýlishús í þeim tilgangi að byggja fjölbýliskumbalda í staðinn, því það sé ekki í samhengi við verndunarsjónarmið, hvorki húsafriðun né með hliðsjón af verndun svipmóts hverfisins. Öðru máli myndi gegna ef byggja ætti sambærilegt hús í stað þess sem fyrir var. Ekki sé hægt að verjast þeirri tilhugsun að sú ákvörðun eiganda Ásvallagötu 48 að sinna ekki viðhaldi einbýlishússins hafi staðið í beinum tengslum við þá fyrirætlun að leggja fram ósk um að rífa það og byggja fjölbýlishús í þess stað.

Vegna þessa máls brá Guðbrandur á það ráð að senda inn efnislega sömu fyrirspurn og eigendur Ásvallagötu 48 sendu inn til að kanna viðbrögðin hjá skipulagsyfirvöldum.

„Ég taldi mig vita að ég myndi ekki fá sömu málsmeðferð hjá borginni ef ég sækti um að flytja eða rífa hús okkar fjölskyldunnar í því skyni að byggja fjölbýlishús. Ég hef ekki og hafði ekki hug á að gera það, en tilgangurinn hjá mér var að fá þetta ósamræmi fram og fólk í nágrenninu vissi af því. Ég gerði reyndar ráð fyrir að fá samþykkta heimild til að byggja hús í hófstilltu nýtingarhlutfalli og ætlaði ég að nota þá niðurstöðu sem fordæmi til að vísa í fyrir minna og eðlilegra byggingarmagni á Ásvallagötu 48. Skipulagsyfirvöld höfnuðu hins vegar erindinu í heild sinni, sem verður að teljast sérkennilegt. Enda eru lóðirnar hjá mér og á Ásvallagötu 48 nánast jafn stórar og bæði húsin timburhús, yfir 100 ára gömul. Þrátt fyrir það fengu lóðirnar mismunandi málsmeðferð hjá Reykjavíkurborg.“

Ekki nógu frjótt ímyndunarafl

Guðbrandur fékk á tilfinninguna að huglæg sjónarmið skiptu máli.

„Ásvallagata 48 fékk jákvæð svör um að húsið verði rifið og þar komi sex hæða fjölbýlishús, en Sólvallagata 47 fékk synjun um að það væri flutt eða rifið og byggt fjölbýlishús. Var í svarinu vegna Sólvallagötu 47 vísað til huglægra sjónarmiða, sögulegra sjónarmiða, varðveislu byggðar og þess háttar. Í umsögn að baki Ásvallagötu 48 er hins vegar ekkert vísað í slík sjónarmið. Ef þessi sögulegu sjónarmið, og varðveisla götumyndar, eiga að vera ofan á, þá hefði maður talið að einvörðungu væri heimilt að byggja annað einbýlishús í stað þess sem er í dag á lóð Ásvallagötu 48 eða annað hús í sambærilegri mynd. Eru ég og nágrannarnir mjög undrandi á þessu.“

Þegar Guðbrandur festi kaup á húsinu á Sólvallagötu segir hann ekkert hafa bent til þess að fjölbýlishús yrði byggt í stað núverandi einbýlishúss. Húsið mun að öllu óbreyttu takmarka birtu, auka skuggavarp og telur Guðbrandur að hann missi sólina stóran hluta ársins á heimili sínu, til að mynda á nýuppbyggðum sólpalli. Fleiri íbúar óttast að byggingin muni hafa svipuð áhrif hjá sér.

„Ég keypti þetta hús fyrir tveimur árum og fór í verulegar framkvæmdir, enda hafði ég enga ástæðu til að ætla að fjölbýlishús kæmi í stað einbýlishúss sem þar stendur, en ekkert deiliskipulag er á þessum reit. Þá hafði ég ekki nægilega frjótt ímyndunarafl til að ætla að skipulagsyfirvöld tækju jákvætt í að byggt yrði fjölbýlishús, nánast yfir bakgarðinn hjá mér, sem er breiðara, hærra og með meira nýtingarhlutfall en nær öll húsin á þessum reit á Ásvallagötu og Sólvallagötu,“ segir Guðbrandur.

Höf.: Kristján Jónsson