Finnbjörn A. Hermannsson
Finnbjörn A. Hermannsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Forystumenn í landssamböndum og félögum ASÍ hafa þrýst á Finnbjörn A. Hermannsson, fyrrverandi formann Samiðnar og Byggiðnar, að gefa kost á sér sem næsti forseti ASÍ á framhaldsþinginu, sem fram fer 27

Forystumenn í landssamböndum og félögum ASÍ hafa þrýst á Finnbjörn A. Hermannsson, fyrrverandi formann Samiðnar og Byggiðnar, að gefa kost á sér sem næsti forseti ASÍ á framhaldsþinginu, sem fram fer 27. til 28. apríl. Talið er að nokkuð víðtæk sátt gæti orðið innan verkalýðshreyfingarinnar um að hann taki við embættinu af Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni, fráfarandi forseta.

Finnbjörn staðfestir í samtali við Morgunblaðið að menn hafi að undanförnu spurt hann hvort hann sé tilleiðanlegur í að gefa kost á sér í embætti forseta. „Ég er bara að skoða þetta og þarf að gera upp hug minn fljótlega,“ segir Finnbjörn. Hann er í hópi reyndustu manna í verkalýðshreyfingunni, var m.a. lengi formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur og formaður Samiðnar um árabil og nú síðast formaður Byggiðnar. Lét hann þar af störfum 30. mars sl.

Ólöf Helga Adolfsdóttir, fulltrúi Eflingar, bauð sig fram til forseta á þinginu í haust og það framboð stendur óbreytt á þinginu í næstu viku að sögn hennar í samtali í gær. Kristján Þórður hefur gefið kost á sér sem 1. varaforseti ASÍ. Embætti varaforseta ASÍ eru þrjú. Skv. heimildum Morgunblaðsins er Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og formaður SGS, sterklega orðaður við framboð til varaforseta en ekki hefur náðst í Vilhjálm til að fá það staðfest. Á þinginu sl. haust buðu þrjú sig fram til varaforseta, Phoenix Jessica Ramos, varafulltrúi VR, Trausti Jörundsson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, og Gundega Jaunlinina, varaformaður Hlífar. Eru þau framboð enn í gildi á þinginu í næstu viku og ekkert þeirra verið dregið til baka svo vitað sé.
omfr@mbl.is