Náttúruvernd Gísli Ásgeirsson, Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra og Sir Jim Ratcliffe við upphaf ráðstefnu Six Rivers um framtíð laxins.
Náttúruvernd Gísli Ásgeirsson, Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra og Sir Jim Ratcliffe við upphaf ráðstefnu Six Rivers um framtíð laxins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Það er nauðsynlegt að finna leiðir til að vernda villta laxastofna í Atlantshafi. Ef við ætlum að gera eitthvað í því þarf að bregðast skjótt við. Þeir eru ekki margir eftir. Ég met það sem svo að við höfum útrýmt 95% af laxastofnunum á síðustu tvö til þrjú hundruð árum

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

„Það er nauðsynlegt að finna leiðir til að vernda villta laxastofna í Atlantshafi. Ef við ætlum að gera eitthvað í því þarf að bregðast skjótt við. Þeir eru ekki margir eftir. Ég met það sem svo að við höfum útrýmt 95% af laxastofnunum á síðustu tvö til þrjú hundruð árum. Það eru ekki margar laxveiðiár sem verða áfram til í núverandi mynd ef ekki verður brugðist við,“ segir Sir Jim Ratcliffe. Hann er stofnandi Six Rivers Iceland verkefnisins sem efnir til alþjóðlegrar ráðstefnu í Reykjavík um framtíð Atlantshafslaxins.

Six Rivers Iceland leggur áherslu á verndun bæði lands og vistkerfis nokkurra þekktra laxveiðiáa á Norðausturlandi og að styðja viðgang laxastofna þeirra. Þekktastar þeirra eru Selá og Hofsá enda eftirsóttar veiðilendur.

Ratcliffe tekur sterkt til orða í samtali við Morgunblaðið. Hann segir óumdeilt að villtir laxastofnar fari hratt minnkandi. Þess sjáist merki í öllum ríkjum sem eigi land að Atlantshafinu. Vá sé fyrir dyrum og staðan alvarleg. Hann telur mannskepnuna ekki hafa gengið nægilega vel um laxveiðiauðlindina. „Um leið og mannfólkið kemur til sögunnar rennur mengun í árnar, veiðiþjófnaður vex og veiðiálag hefur verið of mikið.“

Ratcliffe telur mikilvægt að ná meira jafnvægi milli manns og náttúru. Laxinn sé einstakt dýr á jarðarkringlunni. „Það væri mjög sorglegt ef villti laxinn hyrfi. Við erum ekki fjarri því að útrýma honum alfarið.“

Hann telur vernd og stangveiðar geta farið vel saman þar sem veiðiálagi sé stýrt mjög vel. Ratcliffe telur að veiðiálag hafi verið of mikið í gegnum árin sem hafi gengið nærri laxveiðiám og nefnir í því samhengi Laxá í Aðaldal. „Þar er nánast enginn fiskur eftir vegna þess að hún hefur verið ofveidd.“ Hann segir að afleiðingar séu þekktar, veiði minnki ásamt tekjum landeigenda og þá sé stöngum fjölgað. „Það er synd og skömm því í Laxá er að finna erfðaefni íslenskra stórlaxa.“

Hvað rekur hann áfram? Hvers vegna er hann að fjárfesta í laxveiðiám á Ísland og dvelja hér langdvölum? „Ég hef verið heppinn og mér hefur vegnað vel í lífinu. Ég er í þeirri stöðu að geta látið gott af mér leiða. Þú getur ekki gert allt og þarft að velja og hafna.“ Ratcliffe valdi laxinn og hann hefur engin önnur áform þó svo að hann hafi mætt tortryggni vegna umsvifa sinna á Íslandi. „Nei alls ekki,“ segir hann ákveðinn.