Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Framkvæmdir eru að hefjast við nýjan hafnarbakka við aðalhafnargarð Akraneshafnar, sem er helsta mannvirki hafnarinnar. Jafnframt verður höfnin dýpkuð og snúningssvæði skipa stækkað. Þegar verkinu lýkur árið 2024 mun það gjörbreyta höfninni til hins betra. Höfnin verði skjólbetri fyrir skip og báta. Ennfremur verður þá hægt að taka á móti stærri skemmtiferðaskipum en hingað til og eru skip þegar byrjuð að bóka viðlegu við kantinn. Kostnaður við verkið er rúmur milljarður króna.
Til að bæta aðgengi fyrir fiskiskip, farþegaskip og önnur þau skip sem höfnin á Akranesi þjónustar ákvað stjórn Faxaflóahafna að ráðast í þá framkvæmd að lengja ytri hluta aðalhafnargarðsins um 120 metra. Heildarlengd þess hluta bakkans verður þá 220 metrar að framkvæmdum loknum.
Tilboð í verkið voru opnuð hjá Faxaflóahöfnum 24. janúar sl. Tvö tilboð bárust. Hagtak hf. og Þróttur ehf. buðu sameiginlega krónur 1.018.361.356 sem var 92% af kostnaðaráætlun, sem var krónur 1.109.446.400. Borgarverk ehf. bauð krónur 1.636.575.000. Faxaflóahafnir gengu til samninga við Hagtak og Þrótt á grundvelli tilboðsins.
Samkvæmt upplýsingum Bjarka Ómarssonar verkefnisstjóra verða gröfuskipið Reynir og flutningapramminn Pétur mikli notuð við dýpkun við hafnargarðinn.
Þetta eru afkastamikil tæki sem notuð hafa verið víða um land. Við rekstur stálþils og vinnu kringum það verk verður notaður krani með lofthamri/ hydrolískum hamri, vörubílar, dráttarbílar, lyftarar, hjólavélar, vagnar og margt fleira.
Útboð á stálkaupum fyrir framkvæmdina fór fram í byrjun árs 2022 og var stálið afhent á Akranesi í september. Lægsta tilboðið var nálægt 285 milljónum króna. Tekið var fram að 100% af stálinu var framleitt úr endurunnu stáli sem samræmist stefnu Faxaflóahafna.
Stækkun bryggjunnar á Akranesi er mikilvægur liður í þeirri uppbyggingu sem er að eiga sér stað á Akranesi. Þetta kom fram þegar Inga Rut Hjaltadóttir, sviðsstjóri framkvæmdasviðs, og Sigurður Jökull Ólafsson markaðsstjóri kynntu verkið á heimasíðu Faxaflóahafna í fyrrahaust.
Stækkunin muni bæta aðstöðu fyrir fiskiskip og stærri skip sem sækja auðlindir á hafi. Tækifæri samhliða stækkun sé að sækja á fengsæl mið í botnfiski eða uppsjávarfiski. Einnig liggi möguleikar í fengsælum miðum grjótkrabba í Faxaflóa eða styðja við ný verkefni í loftslagstengdri ræktun á sjávargrænmeti og kræklinga- eða ostruræktun.
Stærri farþegaskip komast að
Jafnframt muni stækkun gera millistórum farþegaskipum kleift að leggjast að bryggju á Akranesi og þannig bjóða farþegum skipanna að upplifa það sem Akranes og nærumhverfi hefur upp á að bjóða, t.d. Guðlaugu við Langasand, vitasvæðið á Breið, Byggðasafnið í Görðum og frábæran golfvöll.
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness segir að uppbygging hafnarinnar muni auka forskot Vesturlands í að taka virkari þátt í ferðaþjónustu. „Stækkunin mun verða gríðarleg styrking okkar landshluta og eru mörg tækifæri í sjónmáli. Við á Akranesi eigum margt inni og erum full tilhlökkunar að móta Akranes sem spennandi og eftirsóknarverðan ferðamannastað,“ sagði Sævar Freyr.
Lagfæringa þörf
Ókyrr höfn
Hafnaraðstæður á Akranesi eru fremur þröngar, sem skapast af legu hafnar og formi. Þetta sagði Jón Þorvaldsson þáverandi aðstoðarhafnarstjóri í minnisblaði í maí 2017.
Markvisst var unnið að því að verja höfnina fyrir þungum sjó, sem fylgir sterkum suðvestanáttum og öldu sem stendur beint á hafnargarðinn, segir Jón. Með endurbótum á garðinum hafi tekist að verja höfn fyrir ágjöf, en ölduhreyfingar við ákveðnar aðstæður utan hafnar hafa valdið sogi í höfninni, sem skapar ókyrrð fyrir skip í viðlegu. Ýmislegt hafi verið gert til að koma í veg fyrir þessa ókyrrð, en án fullnægjandi árangurs. Það hefur löngum verið þekkt að hreyfingar skipa við bryggjur hafi verið nálægt efri mörkum þess sem ásættanlegt þyki. Komið hafi fyrir að hreyfingar togara hafi verið það miklar að pollar hafi slitnað upp af köntum.