Kristinn Sigtryggsson
Kristinn Sigtryggsson
Tími kominn til athafna. Nýtum okkur hlutleysi og herleysi Íslands. Horfumst í augu við stöðuna.

Kristinn Sigtryggsson

Kæri lesandi. Mörgum finnst ég eflaust hafa farið mikinn í fyrstu grein minni um greiningu áhættu og aðgerðir sem á næstu árum og áratugum kunna að vera nauðsynlegar. Ég hef bara lært það af langri reynslu að það er best að horfa beint framan í hlutina eins og þeir eru eða okkur finnst stefna í að þeir verði. Skoðum nú aðeins þær áskoranir sem atvinnuvegir okkar og annarra kunna að standa frammi fyrir.

Sú samhæfða vinna sem ég lagði til í fyrstu grein minni mundi nýtast okkur vel, jafnvel þótt okkur auðnaðist að hindra það að jörðin umbreyttist verulega vegna loftslagsvárinnar. Sameiginlegur vettvangur um hlýnun jarðar og aðgerðir hennar vegna skapa líka tækifæri fyrir atvinnuvegina til að taka samtalið um hvernig best verði að vinna saman í að takast á við hina ýmsu áhættuþætti sem munu birtast, einn af öðrum. Það sem blasir við núna eru margar kröftugar eldstöðvar sem gætu gosið í einu eða með stuttu millibili. Þar að auki virðist ljóst að Reykjanesið sé komið af stað í einhverja atburðarás sem gæti orðið erfiðasti þátturinn í þessari gosa- og skjálftaröð.

Litlar spýjur hafa komið úr fjallshlíðum okkar, nógu stórar samt til að valda stórhættu á viðkomandi landsvæðum eins og Austfirðingar hafa nýlega reynt. Þær eru áminning og viðvörun til okkar um það sem fram undan kann að leynast. Undir Grænlandsjökli og Suðurskautslandinu eru milljarðar tonna af vatni sem bíða eftir að fá útrás. Þar gæti stóra skriðuhættan leynst, eins og ég hef minnst á áður.

Nú þegar er hafin vinna hjá Almannavörnum og Þjóðaröryggisráði við greiningar á vandanum til að geta svo byggt nauðsynlegar aðgerðir á. Sjálfbærni verður væntanlega ofarlega á blaði í þeirri vinnu.

Þarf ekki landbúnaðurinn að vera þar í fararbroddi, með plön um lausnir er snúa að náttúruhamförum í landinu og á heimsvísu? Þarf hann ekki að huga að nýjum áhættuþáttum í ljósi þess sem okkur er nú orðið ljóst? Hann þarf að taka mið af breyttum neysluvenjum sem fyrirsjáanlegar eru. Neysla á kjöti verður áfram á undanhaldi. Staðsetning geymslustaða birgða þarf ítarlega skoðun. Hvaða framleiðslu er hægt að halda gangandi ef afhending orku lamast um lengri eða skemmri tíma?

Sjávarútvegurinn fylgist grannt með breytingum í lífríki sjávar. Hann þarf að halda þeirri vinnu áfram og efla hana til mikilla muna. Hann ætti líka að huga að framtíðarskipan hafna. Munu bryggjur hugsanlega fara í kaf? Er aðstaða í landi, svo sem vinnslur, geymslur og athafnasvæði, of viðkvæm fyrir hækkun sjávar? Það eru ýmis vandamál í sjónmáli, sem nauðsynlegt er að geta brugðist hratt við. Það færi margt úr skorðum hjá okkur ef við hefðum ekki aðgang að þessari gullkistu okkar, fiskimiðunum.

Iðnaðurinn þarf að huga að öllum sömu vandamálum og fjallað er um hér að framan. Stóriðjan er líka með mestalla sína vinnslu nánast í fjöruborðinu og það getur orðið bæði seinvirkt og tímafrekt að verja þessi stóru og afkastamiklu fyrirtæki áföllum. Smærri þjónustuiðnaður þarf að vera tilbúinn að takast á við mikla aukningu og nýjar tegundir verkefna í breyttu umhverfi.

Þær áskoranir sem við ferðaþjónustunni blasa snúa ekki síst að því hvernig úr þessum málum spilast hjá okkur og hjá nágrannaþjóðunum. Það eru miklar fjárfestingar og sumar mikið skuldsettar í þessari grein, t.d. í hótelum, veitingastöðum, afþreyingu og ekki síst í fluginu. Rekstraraðilar hafa reynt að koma sér upp verkfærum til að geta tekist á við skammtímasveiflur en eignirnar í greininni eru sérhæfðar og meiri háttar endurskipulagning getur tekið langan tíma og mikla fjármuni.

Allar atvinnugreinar þurfa að endurhugsa áhættugreiningar sínar. Hér hefur aðeins verið tæpt á fáeinum atriðum til að hefja umræðuna. Í næsta pistli mun ég fjalla um þjónustugreinarnar.

Megi ljósið fylgja ykkur hvert sem þið viljið ganga.

Höfundur er endurskoðandi á eftirlaunum.

Höf.: Kristinn Sigtryggsson