Á síðasta fundi mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs Reykjavíkur var í bókun kallað eftir umsögn Mannréttindaskrifstofu borgarinnar um hvort nýtt samkomulag um öryggismyndavélar í Reykjavíkurborg væri í samræmi við mannréttindastefnu borgarinnar

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Á síðasta fundi mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs Reykjavíkur var í bókun kallað eftir umsögn Mannréttindaskrifstofu borgarinnar um hvort nýtt samkomulag um öryggismyndavélar í Reykjavíkurborg væri í samræmi við mannréttindastefnu borgarinnar. Jafnframt kallar ráðið eftir umsögn frá persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar um hvort samkomulagið sé í samræmi við persónuverndarlöggjöf. Óskar ráðið eftir að umsagnir þessar verði tilbúnar til framlagningar og kynningar í ráðinu eigi síðar en 31. maí nk.

Eftirtaldir tóku þátt í fundinum: Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ellen J. Calmon, Þorvaldur Daníelsson, Trausti Breiðfjörð Magnússon, Friðjón R. Friðjónsson og Helga Þórðardóttir.

Fulltrúi Flokks fólksins, Helga Þórðardóttir, bókaði að hún væri sátt við þetta samkomulag enda tilbúin að ganga býsna langt til að tryggja öryggi borgaranna og gesta hennar. Flokkur fólksins hafi viljað sjá slíkar myndavélar þar sem börn stunda nám og leik, t.d. á skilgreindum leiksvæðum barna. Það sé þekkt að þeir sem vilja skaða börn leiti iðulega á staði og á svæði þar sem finna má börn. Börnin í borginni verði að geta verið örugg á leiksvæðum.

„Í Reykjavíkurborg eru hvergi myndavélar á leiksvæðum barna svo vitað sé. Þetta á jafnt við um leiksvæði sem eru eldri sem og nýuppgerð,“ segir m.a. í bókun Helgu.

Borgarráð samþykkti í síðasta mánuði að tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra samkomulag Reykjavíkurborgar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóra og Neyðarlínunnar ohf. um kaup, uppsetningu og rekstur á öryggismyndavélakerfi í miðborg Reykjavíkur. Fram kemur í bréfi Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar aðstoðarlögreglustjóra að töluverð uppbygging hafi verið í miðborginni sl. ár, frá því að síðustu myndavélar voru settar upp fyrir nokkrum árum. Þörf sé á að þétta netið og koma upp fleiri myndavélum sem og myndavélum sem lesa bílnúmer.

Fjölmennur leiðtogafundur

Lögreglan telur sérstaklega mikilvægt að fjölga myndavélum í nágrenni Hörpu. Þar verður leiðtogafundur Evrópuráðsins haldinn dagana 16.-17. maí nk. Á sjötta tug þjóðarleiðtoga auk fylgdarliðs hafa boðað komu sína og eru margir þeirra með hátt öryggisstig, eins og lögreglan orðar það.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson