Bækur
Einar Falur Ingólfsson
Faðirinn sem í þessari stuttu skáldsögu Maríu José Ferrada frá Síle er aðeins nefndur D hóf starfsferil sem farandsölumaður daginn sem fyrsti maðurinn steig fæti á tunglið, það var atburður sem sýndi að heimum má breyta og eitt sem átti eftir að breytast og hverfa á árunum þar á eftir var starf farandsölumanna. En D veit það ekki þá, ferðast flesta daga milli smábæja í jakkafötum og stífburstuðum skóm og selur járnvöruverslunum „nagla, sagir, hamra, hurðarhandföng og gægjugöt frá fyrirtækinu Kramp“ (17). Og þegar hann hefur sinnt starfinu í rúman áratug ákveður þá sjö ára dóttir hans, sem er kölluð M, að verða aðstoðarmanneskja föður síns. Og það er hún sem segir söguna, einhverjum árum seinna, sögu sem einkennist af einföldu sjónarhorni barnsins, hrifnæmu, spyrjandi og varpandi ævintýralegum ljóma á það sem lesandinn sér samt að er nöturlegur veruleiki hversdagsins á vegum úti, í samfélagi drykkfelldra farandsölumanna. Í skugganum, og lítt sýnileg í frásögninni, er sýnilega veik og fáskiptin móðir, sem áttar sig ekki á því að barnið mætir ekki í skólann suma daga vikunnar heldur er á flandri með föður sínum, þar sem hún aðstoðar hann við sölumennskuna og fær fyrir það hluta innkomunnar.
Feðginin í Kramp minna óneitanlega á önnur flakkandi feðgin í vinsælli bíómynd, Paper Moon, sem O'Neal-feðginin Ryan og Tatum léku við miklar vinsældir og var myndin frumsýnd 1973, sama ár og farandsölumaðurinn í sögunni gengur í hjónaband. Þetta var fyrsta kvikmyndin sem rýnir sá í höfuðborginni, í minninguni átta ára gamall í fullum sal Háskólabíós, og Ferrada leikur sér skemmtilega með það í sögunni að gefa M útlit og frakka framkomu stelpunnar í kvikmyndinni, þar sem hún aðstoðar föður sinn í ýmsum ævintýrum sem eiga að afla þeim tekna. Ferrada vísar líka beint til kvikmyndarinnar, þegar feðginin D og M hafa kynnst ljósmyndaranum E, sem freistar þess að fanga drauga á filmur sínar. Barnið áttar sig ekki á því hvað hann á við en þar er vísað til þess að E reyni að skrásetja grimmdarverk stjórnvalda í Síle – þetta er tími ógnarstjórnar einræðisherrans Pinochets. En E starfar sem sýningarmaður í kvikmyndahúsi og suma morgna sitja feðginin með honum þar og horfa endurtekið á eftirlætis kvikmyndir og hún man að þau sáu til dæmis Chaplin-syrpu tvisvar og Pappírstungl tvisvar, sátu þar og reyktu öll meðan þau horfðu á svarthvít ævintýrin á tjaldinu. Talsvert kemur einnig við sögu annar sölumaður, S, sem D leyfir dóttur sinni einnig að aðstoða suma daga við að heilla kaupmenn svo þeir panti meira af vörum hjá þeim báðum.
María José Ferrada vinnur líka með eigin fjölskyldusögu því faðir hennar var og er farandsölumaður, eins og fram kemur í upplýsandi eftirmála þýðandans, Jóns Halls Stefánssonar, um höfundinn og verk hennar. „Hin gullnu ár hans í bransanum voru níundi áratugurinn, það tímabil sem er til umfjöllunar í Kramp, og rétt eins og aðalpersóna skáldsögunnar, M, fékk María José stundum að fara með föður sínum í söluferðir.“ (109) Höfundurinn gjörþekkir því heim farandsölunnar, og sagt er að hún taki ýkjusögur sölumannanna beint úr þeim heimi, en skáldsagan sé þó ekki sjálfsævisöguleg.
Þetta er fyrsta skáldsaga höfundarins, kom út árið 2017, en áður hafði hún getið sér orð sem höfundur bóka fyrir börn og hefur sent frá sér yfir tuttugu slíkar, textar hennar í þeim eru ljóð eða prósaljóð og segir þýðandinn þær kallast með ýmsum hætti á við Kramp og aðra skáldsögu sem hún hefur síðan sent frá sér.
Sagan er sögð með einföldu og barnslegu máli, en myndríku og vel mótuðu. Að sumu leyti er frásögnin nokkuð fyrirsjáanleg framan af en hvörf verða þegar myrk öflin í samfélaginu nema einn daginn þá E og D á brott; „mín takmarkaða lífsreynsla nægði til að skilja að það sem við höfðum flækst inn í var dauðans alvara“, (78) segir M, enda á E ekki afturkvæmt. En móðirin lifnar við, tekur til sinna ráða og fer á brott með M. Þegar hún nær næst að hitta föður sinn er heimurinn breyttur, skilningur hennar meiri og hún sér í gegnum dapurlegar blekkingar hans.
Kramp er athyglisverð og vel skrifuð stutt saga, þar sem með sérstökum áhugaverðum hætti er unnið með dimmt tímabil í sögu Síle, en margir höfundar Suður-Ameríku hafa á síðustu áratugum leitað ýmissa og oft frumlegra leiða til að takast á við þjóðfélagslegar hræringar og átök í heimalöndum sínum. Þýðing Jóns Halls fangar vel og á lipran hátt frásagnarhátt og sjónarhorn barnsins, sem miðlar lífsreynslu sinni úr farandsölumennsku í heimi ógnarstjórnar og ofbeldis.