Hvar ert þú nú? nefnist heimildastuttmynd eftir leikstjórann Steiní Kristinsson, sem er listamannsnafn Steinars Þórs Kristinssonar, sem sýnd verður í Bíó Paradís 22. apríl kl. 15 og í Félagsheimilinu á Flúðum 27. apríl kl. 20.30. Báðar sýningar eru til styrktar Píeta-samtökunum.
Í myndinni fjallar Steiní „um besta vin sinn, Kristin Þór, sem féll fyrir eigin hendi í september. Í sorginni byrjaði Steiní að skoða og safna saman þeim myndbrotum sem hann átti af Kristni til þess að fagna lífi hans. Í þeim sá hann dreng sem elskaði vini sína heitt, naut lífsins og kunni að atast í fólki sínu,“ segir í tilkynningu. Þar kemur fram að vinahópur Kristins skipuleggi viðburðina til styrktar Píeta-samtökunum „til minningar um vin þeirra sem tók sitt eigið líf svo færri feti sömu slóð og hann; sjálfsvíg er ekki leiðin“.