Neskaupstaður Alvarlegasti atburður vetrarins var þar í bæ í lok mars þegar snjóflóð féllu á hús og mannvirki svo íbúarnir þurftu að flýja hús sín.
Neskaupstaður Alvarlegasti atburður vetrarins var þar í bæ í lok mars þegar snjóflóð féllu á hús og mannvirki svo íbúarnir þurftu að flýja hús sín. — Morgunblaðið/Eggert
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Nýliðinn vetur hefur verið óvenju kaflaskiptur hvað hita varðar. Hlýir kaflar og kaldir hafa skipst á í allan vetur og met fallið á báða bóga.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nýliðinn vetur hefur verið óvenju kaflaskiptur hvað hita varðar. Hlýir kaflar og kaldir hafa skipst á í allan vetur og met fallið á báða bóga.

Fyrstu dagar vetrarins í lok október 2022 voru hlýir og síðan tók við afar hlýr nóvember um allt land. Meðalhiti mánaðarins var sá hæsti sem mælst hefur í nóvember á landsvísu. Hann var um þremur gráðum hlýrri en að meðallagi og sló naumlega hitamet nóvembermánaðar frá 1945. Mánuðurinn var með hlýjustu nóvembermánuðum sem mælst hafa á mörgum veðurstöðvum, t.a.m. sá hlýjasti frá upphafi mælinga í Grímsey, á Teigarhorni og á Hveravöllum.

Síðan tók við fjögurra mánaða kafli, desember-mars, sem Veðurstofan skilgreinir sem vetur. Veðurstofuveturinn svokallaði var óvenjulega kaldur á landinu öllu. Þetta kom fram í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar. Á landsvísu hafði veturinn ekki verið eins kaldur síðan 1994-1995.

Löng kuldtíð tók við

Eftir mjög hlýjan nóvembermánuð hófst nær samfelld kuldatíð á landinu sem stóð frá 7. desember til 19. janúar. Kuldatíðin var sérstaklega óvenjuleg á suðvesturhorninu, og voru þessar sex vikur t.d. þær köldustu í Reykjavík síðan 1918 (en þá var mikið kaldara). Á þessu tímabili var þrýstingur sérlega hár, vindur hægur og það var óvenju þurrt og bjart, sérstaklega suðvestanlands. Það var umhleypingasamt seinni hluti janúar og í febrúar.

Töluverðir vatnavextir voru í ám í kjölfar leysinga um miðjan febrúar. Ástandið var verst á vestanverðu landinu. Þar flæddu ár víða yfir bakka sína og skildu sums staðar eftir sig stærðar klaka eftir að hafa rutt sig eftir kuldatíðina fyrr um veturinn.

Það kólnaði svo aftur í mars og nánast samfelld kuldatíð ríkti frá 6. til 28. mars. Að tiltölu var þá kaldast á norðaustan- og austanverðu landinu. Það var óvenju þurrt og sólríkt á Suðvesturlandi á þessu tímabili. Úrkoma var oftast lítil og veturinn í heild mjög snjóléttur um landið sunnan- og vestanvert, þrátt fyrir kuldann, segir Trausti Jónsson veðurfræðingur. Meiri snjór var norðaustan- og austanlands. Snjór sýndi sig mjög seint suðvestanlands, ekki fyrr en um miðjan desember, en upp úr því olli hann miklum samgönguvandræðum í nokkra daga, þótt ekki væri um afgerandi stórviðri að ræða að mati Trausta.

Það var mjög úrkomusamt á Austfjörðum í lok mars og snjóþungt. Mikill fjöldi snjóflóða féll á svæðinu á tímabilinu 27. til 31. mars, þau stærstu féllu í Neskaupstað og ollu þar miklu tjóni eins og menn muna. Það var tiltölulega smátt veðurkerfi sem olli þessari óvenjulegri snjókomu og snjóflóðum austanlands, að sögn Trausta.

Kaldur vetur í Reykjavík

Meðalhiti í Reykjavík (desember-mars) var -1,3 stig og er það 2,1 stigi undir meðallagi sömu mánaða 1991 til 2020, en 2,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Veturinn er í 25. sæti yfir köldustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík árið 1871. Veturinn í Reykjavík var sá kaldasti síðan 1995. Á Akureyri var meðalhiti vetrarins -2,2 stig sem er 1,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,9 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var veturinn í 48. sæti yfir köldustu vetur frá upphafi samfelldra mælinga á Akureyri 1881. Þar líkt og í Reykjavík var veturinn sá kaldasti síðan 1995.

Fyrri helmingur aprílmánaðar hefur verið óvenju hlýr. Þetta kemur fram á bloggi Trausta Jónssonar. Meðalhiti í Reykjavík var 5,3 stig, +2,5 stigum ofan meðallags sömu daga 1991-2020 og +2,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er hlýjasta aprílbyrjun aldarinnar í Reykjavík, en kaldastir voru sömu dagar árið 2006, meðalhiti þá +0,4 stig. Á langa listanum er hiti nú í 7. hlýjasta sæti (af 151). Á Akureyri er meðalhiti nú 4,8 stig, +3,2 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +3,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.

Þetta er hlýjasti fyrri hluti mánaðarins um allt sunnan- og vestanvert landið og á miðhálendinu, en í 2. til 3. hlýjasta sæti á Norður- og Austurlandi, segir Trausti. Hann segir ekki víst að þessi hlýindi dugi út mánuðinn. En þeir dagar teljast ekki með í þessu yfirliti, það er komið sumar.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson