Þúsundir manna flýðu Kartúm, höfuðborg Súdans, í gær, á fimmta degi átakanna milli RSF-vígasveitanna og stjórnarhers landsins. Talið er að rúmlega 270 óbreyttir borgarar hafi fallið í átökunum, en fátt bendir til þess að þeim ljúki á næstunni.
RSF-sveitirnar og stjórnarherinn samþykktu í gær að virða sólarhringsvopnahlé, sem átti að hefjast kl. 16 að íslenskum tíma, en skothríð heyrðist enn í höfuðborginni eftir þann tíma. Var það annan daginn í röð sem fallið var frá fyrirhuguðu vopnahléi, en yfirlýst markmið þess var að gefa óbreyttum borgurum færi á að forða sér og að gefa hjálparsamtökum kost á því að aðstoða nauðstadda.
Erlend ríki hófu í gær undirbúning að því að flytja ríkisborgara sína á brott frá Súdan, en fregnir hafa borist af því að hjálparstarfsmenn hafi orðið fyrir líkamsárásum og kynferðisofbeldi í átökunum.
Götubardagar og loftárásir
Sjónarvottar sögðu við AFP-fréttastofuna að vígamenn RSF-sveitanna færu nú um götur Kartúm á vopnbúnum pallbílum, en að orrustuþotur stjórnarhersins sveimuðu yfir og reyndu að skjóta á þá.
Íbúar borgarinnar hafa að mestu leyti neyðst til að halda sig inni á heimilum sínum, en skortur er á bæði rafmagni og drykkjarvatni víða um borgina.
Clement Deshayes, sérfræðingur í málefnum Súdans við Sorbonne-háskóla í París, sagði við AFP í gær að þrátefli ríkti nú í átökunum, og að ýmislegt benti til þess að ástandið myndi versna áður en stríðandi fylkingar gætu hugsað sér að koma að samningaborðinu.