Baksvið
Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi gripið til lagabreytinga, til að hvetja íslenskar útgerðir til að hefja skipulagðar veiðar á bláuggatúnfiski, hefur enn sem komið er enginn sýnt þeim áhuga. Tvísýnt er því hvort breytingarnar sem stjórnvöld hafa gripið til munu duga til þess að Íslendingar fari að stunda veiðarnar að einhverju marki.
Fiskistofa auglýsti 31. mars síðastliðinn að búið væri að opna fyrir umsóknir um leyfi til línuveiða á bláuggatúnfiski og að gert væri ráð fyrir að íslenskar útgerðir gætu veitt 212 tonn á árinu. Í boði voru þrjú leyfi sem veita heimild til að stunda línuveiðar á túnfiski á tímabilinu 1. ágúst til 31. desember á veiðisvæði norðan 42°00,00´N milli 10°00,00´V og 45°00,00´V.
„Það hafa engar umsóknir borist um túnfiskveiðar og enginn sýnt þeim áhuga,“ segir í svari Fiskistofu er leitað var upplýsinga um stöðu leyfisveitinganna. Umsóknarfrestur er þó til 1. júní og því ekki útilokað að breyting verði þar á.
Breyttu lögum
Alþingi samþykkti 15. júní síðastliðinn lagabreytingar sem áttu að vera til þess fallnar að hvetja íslenskar útgerðir til að hefja túnfiskveiðar, en matvælaráðuneytið hefur um nokkurt skeið haft til skoðunar „valkosti um hvernig túnfiskveiðar geti hafist að nýju og orðið hluti af íslenskum sjávarútvegi til framtíðar, með fullnýtingu hlutdeildar Íslands,“ eins og það var orðað í greinargerð frumvarpsins.
Þar sagði að frumvarpið hefði verið unnið í samráði við hagsmunaaðila með markmið um að „viðhalda veiðireynslu og hlutdeild Íslands í veiðunum til framtíðar og tryggja þjálfun og þekkingu á veiðunum sem nýst geta til veiða um ókomna tíð“. Töluvert er í húfi því íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum tryggt Íslendingum miklar veiðiheimildir í bláuggatúnfiski á vettvangi Atlantshafs-túnfiskveiðiráðsins (ICCAT).
Helstu breytingar á lögum fólu í sér tímabundnar heimildir sem heimila íslenskum aðilum að taka á leigu sérhæfð erlend skip til veiða á bláuggatúnfiski til að viðhalda veiðireynslu Íslands, kanna hagkvæmni veiðanna og byggja upp innlenda sérþekkingu á slíkum veiðum.
Vegna þessa var fyrirspurn beint til matvælaráðuneytisins þar sem spurt var hvort ráðuneytið væri með upplýsingar um nokkurn íslenskan aðila sem hefði sýnt túnfiskveiðum áhuga og hvort ráðuneytið hygðist leita frekari leiða til að hvetja íslenskar útgerðir til slíkra veiða.
Svarið var stutt en þar sagði: „Ráðuneytið hefur fundað nýverið með SFS (Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi) þar sem farið hefur verið yfir stöðu veiðiheimilda og tækifæri fyrir íslenskar útgerðir til veiða. Í gildandi reglugerð um veiðarnar er umsóknartímabil um leyfi til veiða frá 1. apríl til 1. júní nk. Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum.“
Nokkur tilkostnaður
Skilyrði fyrir því að Fiskistofa úthluti leyfi til túnfiskveiða er meðal annars að viðkomandi aðili hafi almennt leyfi til veiða í atvinnuskyni, að skip sé að lágmarki 500 brúttótonn að stærð og að viðkomandi búi yfir fullnægjandi útbúnaði til veiðanna og meðhöndlunar bláuggatúnfiskafla.
Útgerðaraðilar sem blaðamaður hefur rætt við segja mikla óvissu tengda veiðunum og telja ekki fýsilegt að láta á túnfiskveiðar reyna, með öllum tilheyrandi kostnaði, nema fyrirsjáanleiki sé tryggður með kvóta eða leyfi til margra ára í senn.
Fjöldi álitamála vegna túnfiskveiða
Þekking og reynsla afgerandi
„Lítill fyrirsjáanleiki getur vel verið ein ástæða, en strax og útgerðir telja trúlegt að túnfiskur verði kvótasettur hefði ég haldið að þær byrjuðu að stunda túnfiskveiðar til að afla sér þeirrar veiðireynslu sem úthlutun heimilda myndi lögum samkvæmt seinna meir vera miðuð við,“ svarar Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, beðinn um að rýna í hvaða ástæður kunna að liggja að baki þess að íslenskar útgerðir hafa ekki sótt meira í túnfiskveiðar
Sveinn tekur þó fram að hann hafi ekki skoðað málið mikið og því séu svör hans almenns eðlis, sennilega mest vangaveltur.
„Ýmsar aðrar ástæður gætu einnig verið til staðar. Þekking á veiðislóð er ein. Önnur gæti verið að það sé erfitt að stunda veiðar á túnfiski samhliða öðrum veiðum, erfiðara en t.d. veiðar á þorski, ufsa og ýsu. Ég veit ekki að hve miklu leyti það myndi þurfa að útbúa skip og báta sérstaklega til veiða á túnfiski, og hvort það væri mikil fyrirhöfn eða kostnaðar að skipta um veiðarfæri í sömu veiðiferðinni, eða sérbúa skip til veiða á túnfiski.“
Hann segir einnig vakna spurningar í kringum vinnslu aflans, bæði hvort þurfi að vinna hann og ef svo er þá hve mikið. Einnig sé óljóst hvort hægt er að nota þau vinnsluhús og -búnað sem fyrir er.
„Loks er það spurning um markaðinn. Það tekur tíma að afla sér þekkingar á þeim markaði þar sem á að selja afurðirnar, og ég veit ekki hvort íslensk fyrirtæki hafa einhverja sérhæfingu á þessu sviði. Síðast en ekki síst er þetta spurning um það um hversu mikinn afla gæti verið að ræða. Ef sá afli sem skip gætu sótt er lítill, er óvíst að útgerðir hefðu nægjanlegan áhuga á að stunda þessar veiðar,“ segir Sveinn.
Spurður hvort launakostnaðurinn hér á landi geri það að verkum að asískar útgerðir séu frekar tilbúnar að sigla níu þúsund mílur á túnfiskmiðin suður af Íslandi en íslenskar útgerðir, svarar hann: „Auðvitað skipta atriði eins og launakostnaður máli, en íslensk fyrirtæki hafa sýnt áður að hár launakostnaður þarf ekki að standa samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs fyrir þrifum.“