Vinsæl Tónlistarkonan Dua Lipa á fjögur lög á topp-10-listanum.
Vinsæl Tónlistarkonan Dua Lipa á fjögur lög á topp-10-listanum.
Þegar litið er á lista frá Spotify yfir þau 100 lög sem oftast er streymt má sjá að karlar eru áberandi í hópi flytjenda. Aðeins 13% laganna eru í flutningi kvenna að hluta eða heild. Þetta kemur fram í frétt SVT

Þegar litið er á lista frá Spotify yfir þau 100 lög sem oftast er streymt má sjá að karlar eru áberandi í hópi flytjenda. Aðeins 13% laganna eru í flutningi kvenna að hluta eða heild. Þetta kemur fram í frétt SVT. Af þeim 90 flytjendum (hljómsveitir, sólólistamenn og dúettar) sem syngja í lögunum hundrað eru aðeins 12 konur.

„Ég er ekki hissa,“ segir Josephine Forsman, trommari hljómsveitarinnar Sahara
Hotnights. „Karlar hlusta mun oftar á lög í flutningi karla en kvenna en konur hlusta á bæði kyn,“ segir Forsman og bendir á að þetta eigi sér sögulegar skýringar þar sem körlum hafi í gegnum tíðina frekar verið hampað. Segir hún fjölmiðla einnig bera ábyrgð, þar sem algengara sé að fjalla um karlmenn sem höfunda og konur sem neytendur tónlistar. Kallar hún eftir því að almenningur opni eyru sín og hlusti á tónlist fleiri kvenna. Á topp-10-listanum er aðeins ein kona, bresk-albanska tónlistarkonan Dua Lipa, sem á fjögur lög á topp-100-listanum.

Ann Werner, dósent í kynjafræði og lektor í tónlistarfræði, telur ábyrgð Spotify mikla. Bendir hún á að spilunin stýrist af algrími, sem hampi því sem þegar er vinsælt. Samkvæmt frétt SVT eru forsvarsmenn Spotify ekki hissa á tölunum, telja að þær endurspegli einfaldlega tónlistarbransann en kynjahlutfallið muni jafnframt hægt og bítandi lagast með tímanum. „Við horfum heildstætt á undirliggjandi þætti, en það er þannig sem hægt er að breyta hlutum með tímanum,“ segir Johan Seidefors, yfirmaður norrænudeildar Spotify. Hann vísar því hins vegar á bug að algrímið gagnist fyrst og fremst karlkyns listamönnum.