Kjaradeila ellefu félaga í BSRB og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) er í hörðum hnút hjá ríkissáttasemjara. Ekki er deilt um almennar launabreytingar í skammtímasamningi eins og gerðir hafa verið á vinnumarkaðinum, heldur er…

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Kjaradeila ellefu félaga í BSRB og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) er í hörðum hnút hjá ríkissáttasemjara. Ekki er deilt um almennar launabreytingar í skammtímasamningi eins og gerðir hafa verið á vinnumarkaðinum, heldur er kominn upp mikill ágreiningur vegna launamunar á milli félagsmanna í BSRB-félögum og í aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins (SGS), sem vinna sambærileg störf hjá sveitarfélögunum. BSRB krefst þess að launamunur vegna fyrstu þriggja mánaða ársins 2023 verði leiðréttur en hann er metinn á 128 þús. kr. að meðaltali auk launatengdra gjalda en því hefur SNS alfarið hafnað.

Samningar SGS-félaganna við sveitarfélögin voru gerðir í mars 2020 og gilda út september nk. Þeir fela í sér hækkun með viðbótarlaunatöflu, sem kom til framkvæmda um síðustu áramót. Samningar BSRB-félaganna sem gerðir voru á sama tíma fyrir starfsmenn þeirra runnu hins vegar út 31. mars sl. Forsvarsmenn SNS halda því fram að BSRB-félögunum hafi staðið til boða í mars 2020 að gera sams konar samning og gerður var við SGS með viðbótarlaunatöflunni og gildistíma út september 2023. Bæjarstarfsmannafélögin í BSRB hafi hafnað því og viljað semja til 31. mars.

Stóð til boða að sögn SNS

SNS segir að sveitarfélögin hafi að fullu efnt samninga sem gerðir voru. Ekki komi til greina að verða við þeirri kröfu að sveitarfélögin leiðrétti ákvörðun stéttarfélaganna í BSRB á sínum tíma um að hafna þessum samningi sem þeim hafi þá staðið til boða.

Alvarleg staða er því komin upp sem tekin var fyrir í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sl. mánudag. Þar var lagt fram minnisblað SNS og bréf sem BSRB-félögin sendu stjórninni, þar sem þau lýsa sinni afstöðu og kröfu um leiðréttingu. Á minnisblaði SNS segir að verði ákveðið „að verða við kröfu bæjarstarfsmannafélaganna myndi það þýða að slík eingreiðsla myndi flæða yfir á aðra viðsemjendur SNS. Ljóst er að viðbótarkostnaður sveitarfélaga við að mæta þessari nýju kröfu bæjarstarfsmannafélaganna yrði um 1 milljarður króna og ef aðrir viðsemjendur SNS myndu fá slíkt hið sama myndi kostnaðurinn fara yfir 3 milljarða króna.“

Starfsmennirnir sem um ræðir og eru ýmist í félögum innan BSRB eða SGS vinna gjarnan hlið við hlið á leikskólum, grunnskólum, heimilum fatlaðra, í áhaldahúsum og víðar hjá sveitarfélögunum. Í bréfi BSRB segir að þessi mismunun í launum stangist m.a. á við jafnlaunaákvæði og lagaskyldu sem hvíli á atvinnurekendum að tryggja jöfn laun og kjör fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Rifjað er upp að samningarnir í mars árið 2020 hafi verið undirritaðir skömmu áður eða eftir að boðuð verkföll áttu að hefjast og samningamenn verið í kapphlaupi við tímann að ljúka samningum vegna COVID-19 faraldursins. „Það rekur engan í samninganefndum BSRB minni til þess að skýrt hafi komið fram í viðræðunum að til boða stæði launahækkun frá 1. janúar 2023 þó gildistíminn hafi vissulega verið ræddur, enda stærri mál sem voru í forgangi að ljúka til að afstýra mætti verkföllum,“ segir í bréfinu.

Harður tónn

Tekið er fram að samninganefndir BSRB-félaganna hafi ekki heimild til að ganga frá kjarasamningum „nema þetta misrétti sem er á ábyrgð launagreiðenda verði leiðrétt, enda yrðu samningarnir að öðrum kosti felldir í atkvæðagreiðslu“. Á vef Sameykis í gær eru þau ummæli höfð eftir Þórarni Eyfjörð, formanni félagsins, að stjórn sambands sveitarfélaga vilji að BSRB-hópurinn verði af 25% hækkunum sem samanburðarhóparnir fái í sinn vasa. Komið hafi fram harður tónn í formannahópi BSRB og hjá félagsfólki vegna óbilgirni sveitarfélaganna og vilji sé til að skipuleggja verkföll opinberra starfsmanna sem starfa hjá sveitarfélögunum.

Höf.: Ómar Friðriksson