Össur Torfason fæddist 17. desember 1939. Hann lést 10. apríl 2023.
Útför fór fram 19. apríl 2023.
Í dag verður borinn til grafar á Egilsstöðum Össur Torfason frá Felli í Dýrafirði. Þar fæddist hann og ólst upp. Það voru ætíð mikil samskipti milli fjölskyldnanna á Felli og Mýrum á uppvaxtarárum Össurar. Skipst var á jólaboðum og segja má að börnin á Felli og Mýrum hafi verið eins konar uppeldissystkini, svo mikill samgangur var milli bæjanna. Þegar Össur, Bergur bróðir hans og Bergsveinn á Mýrum festu ráð sín fór það fram í sameiginlegri hjónavígslu í Mýrakirkju. Össur og hans góða kona Anna héldu fljótlega suður á bóginn og síðar austur til Egilsstaða. Þar stundaði Össur m.a. verslunarstörf. Hann fór síðar að handleika byssur, gerðist eftirlitsmaður með hreindýraveiðum og leiðsögumaður með fólki sem þær veiðar stunda. Hann eignaðist byssu mikla og góða sem hlaut nafnið Feita Berta eftir frægri stórbyssu Þjóðverja. Þegar ég frétti af vopnaburði Össurar þar eystra datt mér í hug að þénanlegt væri að fá hann til varpgæslu og refaveiða hér á Mýrum. Það gekk eftir, hann brást vel við tilmælum um þetta, kom hingað í 14 vor: Anna, Berta og Össur minn / öll með brosum hýrum / æðar bæta búskapinn / er birtast þau á Mýrum. Hér var um langan veg að fara: Um endilanga Ísastorð / óku sínum vagni. Össur fór ungur að fást við vísnagerð og hélt því áfram þar til undir það síðasta. Hann orti einkum ferskeytlur en var þó ekki fastbundinn af reglum um stuðla og höfuðstafi. Einkenni vísnagerðar hans var gamansemin. Gæslufólki í Mýravarpi hefur verið sett sú regla að skila frumortri vísu að morgni eftir vökunótt. Þessi regla hefur nú verið í gildi í um 30 ár. Vel tókst Össuri að skila sínu að þessu leyti eins og í öllu öðru. Þeir vökumenn sem starfað hafa lengst og best í Mýravarpi hafa fengið sérstakt diplom eða heiðursskjal fyrir ómetanlega aðstoð. Össur var fyrstur til að fá þessa viðurkenningu. Allt er þetta til gamans gert og til að stytta vökustundir. Við erum með herráð, prótokollmeistara og hertitla s.s. gran comandante, varpskálkur og skollíales. Össur var ötull þátttakandi í öllu þessu. Herráðið kom saman hvern morgun kl. 6 til kaffidrykkju. Þar skiluðu menn kveðskap sínum og ákvarðanir voru teknar í ýmsum málum, s.s. nöfn á refum og aðgerðir næstu nótta. Ekki fór það fram hjá Dýrfirðingum þegar Össur var kominn í fjörðinn og margur hrökk upp af værum svefni: ... hálfur fjörður hrykktist til / er hrollinn tók úr Bertu. Anna bar ekki vopn en hún gegndi mikilvægu hlutverki, sat heima í bæ með sjónaukann, horfði yfir varplandið og tilkynnti skyttum í talstöð hvar refi væri að finna: Eyru og augu okkar var / í æði margar nætur.
Við þökkum Össuri fyrir mikilvæga aðstoð, ævilanga vináttu og glaðværðina sem jafnan fylgdi komum hans að Mýrum. Önnu og öðrum ættingjum vottum við innilega samúð.
Valdimar H. Gíslason, Edda Arnholtz og Elínbjörg Snorradóttir.
En komin eru leiðarlok
og lífsins kerti brunnið
og þín er liðin æviönn
á enda skeiðið runnið.
Í hugann kemur minning mörg,
og myndir horfinna daga,
frá liðnum stundum læðist fram
mörg ljúf og falleg saga.
Þín vinartryggð var traust og föst
og tengd því sanna og góða,
og djúpa hjartahlýju og ást
þú hafðir fram að bjóða.
Og hjá þér oft var heillastund,
við hryggð varst aldrei kenndur.
Þú komst með gleðigull í mund
og gafst á báðar hendur.
Svo, vinur kæri, vertu sæll,
nú vegir skilja að sinni.
Þín gæta máttug verndarvöld
á vegferð nýrri þinni.
Með heitu, bljúgu þeli þér
ég þakka kynninguna,
um göfugan og góðan dreng
ég geymi minninguna.
(Höf. ók.)
Það reyndist mér mikið gæfuspor þegar ég kom til ykkar í Gnoðarvoginn. Ekki aðeins kynntist ég ykkur heldur honum Dodda, sem síðan hefur verið maðurinn minn, mér til mikillar gæfu. Þar sem Doddi var og er vinur ykkar þá fékk ég ykkur í kaupbæti, þó svo við flyttum annað síðar. Sú vinátta hefur ávallt verið mikilvæg og enga aðra á ég slíka. Mannkostir þínir, Össi minn, hafa alltaf verið alveg einstakir.
Mér var farið að bjóða í grun hvert stefndi með heilsu þína svo þegar ég fékk tækifæri til þá tók ég utan um þig og hélt fast þar til þú fórst að ókyrrast. Þetta faðmlag er mér mikilvægt og mun alltaf verða.
Allar góðar vættir styrki hana Önnu þína og Rósu, sem og alla þá sem þótti vænt um þig.
Rúna Knútsdóttir.
Minning
Kæri bróðir, kveðju sendum,
komið er að hinsta degi.
Almættið þig ávallt geymi
og englafjöld á himnavegi.
Allar stundir þér við þökkum,
þökkum alla gæsku þína.
Seinna sumarlands á grundum
saman munum rósir tína.
(Guðrún Margrét Tryggvadóttir)
Kær reglubróðir og félagi í Alþjóðlegri frímúrarareglu karla og kvenna, Le Droit Humain, Össur Torfason, hvarf til hins eilífa austurs að morgni annars páskadags, 10. apríl sl., eftir erfið veikindi. Hann var á 84. aldursári. Össur gekk í regluna í febrúar 1997 og hafði því starfað hátt á þriðja áratug. Við systkini hans í reglunni munum sannarlega sakna hans sárt, hann var hæglátur í fasi, drengur góður og sannur vinur vina sinna. Við þökkum honum öll hans góðu störf, bæði í embættum en ekki síður ef eitthvað þurfti að smíða eða lagfæra, því að hann var smiður góður og sérlega handlaginn. Eftirfarandi ljóðlínur lýsa þessu ljúfmenni ef til vill best:
Hann var með vorið vistað í sálinni
og sólina og eilíft sumar í hjartanu.
Og hamingjan felst í því
að vera með vorið vistað í sálinni
og sólina og eilíft sumar
í hjartanu.
(GMT)
Eftirlifandi eiginkona Össurar er kær systir okkar, Mary Anna Hilmars Hjaltadóttir. Elsku Anna, við sendum þér, dóttur ykkar Önnu Sigurrós, maka hennar og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur. Minningin um góðan dreng lifir.
F.h. systkinanna í Eir,
Guðrún Margrét Tryggvadóttir.
Þegar svarta hárið er löngu orðið hvítt og aldurinn farinn að segja til sín er ekki nema von að þeim fjölgi gömlu vinunum sem hverfa yfir móðuna miklu. Össur Torfason (Össi) er einn þeirra. Hann var næstyngstur barnanna á Felli í Dýrafirði, vinafólks okkar fjölskyldunnar á Mýrum og helsti leikfélagi minn meðan við vorum enn að vaxa úr grasi fyrir vestan. Meðan ég var að baksa við að læra stafina og stauta mig fram út atkvæðunum við endann á bandprjóninum sem faðir minn stýrði beið Össi við hlið mér eftir að röðin kæmi að sér, eða var hann á undan mér? Faðir minn var ekki kennari, en hann þótti laginn að halda okkur að námi og nutum við Össi þess fyrstu veturna, sem nú myndi kallast fyrsti, annar og þriðji bekkur.
Það kom fyrir að veður spilltust meðan á kennslunni stóð, þannig að ekki þótti fært fyrir lítinn dreng að fara milli bæja og þá fengum við Össi að deila rúmi í Gráu stofunni, og var þá oft farið seint að sofa þegar sögubrunnurinn, Valdi bróðir, komst á flug í spennandi lygasögum frá rúminu hinum megin í stofunni.
Við Össi eignuðust báðir hjól um svipað leyti, og raunar lærði ég að hjóla á túninu á Felli. Össi studdi mig upp á hjólið og ýtti mér af stað niður bratt túnið, og nú var að duga eða drepast, en ég komst heill frá þessari lífsreynslu. Af fjölmörgum ævintýraferðum, sem við fórum saman hjólandi, er mér nú minnisstæðust svipmynd af sumardeginum fyrsta þegar ég var tíu ára. Það hafði verið mikill snjór um veturinn, en nú kom bloti, því skaparinn vildi minna á að sumarið væri á næsta leiti. Við vorum staddir á fjárstíg nokkru fyrir ofan Hrólfsnaustin, þaðan sem Hannes Hafstein lagði frá landi til að taka togara í landhelgi haustið 1899. Þá ferð kannast margir við því hann var hætt kominn en þrír menn af bátnum drukknuðu. Þar sem við stóðum var snarbrattur skafl niður í tjörn sem myndast hafði af leysingavatni niðri á sjávartúninu fyrir ofan Hrólfsnaustin.
Þarna brunuðum við niður skaflinn á fleygiferð, því við vildum vita hvor okkar kæmist lengra út í tjörnina, sem var dýpri en við hugðum. Þegar við komum úr kafinu áttum við í mesta basli við að draga hjólin á þurrt land, en báðir þóttumst við hafa unnið. Svo hristum við okkur eins og hundar og undum buxur og yfirhafnir.
Margs annars er að minnast frá þessum æskuárum okkar, en þegar frá leið gengum við hvor sinn veginn og leiðir okkar lágu þá sjaldnar saman. Ég hafði þó fyrir venju að hringja í Össa vin minn á afmælisdaginn hans, og þá brá ávallt fyrir þeirri glettni sem var eitt einkenna hans í æsku. Þegar ég talaði við hann síðast þóttist ég vita að það færi að styttast í leiðarlokin. Ég færi Önnu konu hans og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.
Davíð Gíslason.