Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Haukar gerðu sér lítið fyrir og völtuðu yfir þunnskipað lið Íslandsmeistara Vals á heimavelli sínum í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í gærkvöldi. Urðu lokatölur 33:14, en staðan í hálfleik var 13:4.
Með sigrinum tryggðu Haukar sér sæti í undanúrslitunum og 2:0-sigur í einvíginu. Haukar byrjuðu vægast sagt betur, því staðan var 6:0 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Björgvin Páll Gústavsson varði ágætlega í marki Vals og kom í veg fyrir frekari niðurlægingu.
Aðrir hjá Val létu lítið fyrir sér fara, Haukar gengu á lagið og unnu að lokum stórsigur, sem var aldrei í hættu. Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði sjö mörk fyrir Hauka og Aron Rafn Eðvarðsson varði 18 skot í markinu. Stiven Tobar Valencia skoraði fjögur fyrir Val.
Haukar mæta Aftureldingu í undanúrslitum, en Mosfellingar unnu 24:23-heimasigur á Fram og tryggðu sér 2:0-sigur í einvíginu. Afturelding komst í 6:2 snemma leiks og var staðan í hálfleik 13:9. Framarar neituðu að gefast upp og minnkaði muninn í eitt mark, þegar rúm mínúta var eftir. Fram fékk svo tækifæri til að jafna í blálokin, en það tókst ekki og Afturelding fagnaði vel.
Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði átta mörk fyrir Aftureldingu og þeir Mario Coric og Stefán Darri Þórsson fjögur hvor fyrir Fram.