Seigla Guðmundur Bragi Ástþórsson hjá Haukum sækir að marki Vals. Aron Dagur Pálsson reynir hvað hann getur til að stöðva för hans.
Seigla Guðmundur Bragi Ástþórsson hjá Haukum sækir að marki Vals. Aron Dagur Pálsson reynir hvað hann getur til að stöðva för hans. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Haukar gerðu sér lítið fyrir og völtuðu yfir þunnskipað lið Íslandsmeistara Vals á heimavelli sínum í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í gærkvöldi. Urðu lokatölur 33:14, en staðan í hálfleik var 13:4

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Haukar gerðu sér lítið fyrir og völtuðu yfir þunnskipað lið Íslandsmeistara Vals á heimavelli sínum í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í gærkvöldi. Urðu lokatölur 33:14, en staðan í hálfleik var 13:4.

Með sigrinum tryggðu Haukar sér sæti í undanúrslitunum og 2:0-sigur í einvíginu. Haukar byrjuðu vægast sagt betur, því staðan var 6:0 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Björgvin Páll Gústavsson varði ágætlega í marki Vals og kom í veg fyrir frekari niðurlægingu.

Aðrir hjá Val létu lítið fyrir sér fara, Haukar gengu á lagið og unnu að lokum stórsigur, sem var aldrei í hættu. Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði sjö mörk fyrir Hauka og Aron Rafn Eðvarðsson varði 18 skot í markinu. Stiven Tobar Valencia skoraði fjögur fyrir Val.

Haukar mæta Aftureldingu í undanúrslitum, en Mosfellingar unnu 24:23-heimasigur á Fram og tryggðu sér 2:0-sigur í einvíginu. Afturelding komst í 6:2 snemma leiks og var staðan í hálfleik 13:9. Framarar neituðu að gefast upp og minnkaði muninn í eitt mark, þegar rúm mínúta var eftir. Fram fékk svo tækifæri til að jafna í blálokin, en það tókst ekki og Afturelding fagnaði vel.

Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði átta mörk fyrir Aftureldingu og þeir Mario Coric og Stefán Darri Þórsson fjögur hvor fyrir Fram.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson