Höskuldur Ólafsson
hoskuldur@mbl.is
Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar voru veitt í Ráðhúsinu í gær, á síðasta vetrardegi, og kom það í hlut borgarstjórans í Reykjavík, Dags B. Eggertssonar, að afhenda verðlaunin við hátíðlega athöfn.
Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt í þremur flokkum bóka fyrir börn og ungmenni; flokki bóka frumsaminna á íslensku, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga. Arndís Þórarinsdóttir var verðlaunuð fyrir bókina Kollhnís í flokki frumsaminna bóka á íslensku; Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir var verðlaunuð fyrir Héragerði: ævintýri um súkkulaði og kátínu í flokki myndlýsinga og Baldvin Ottó Guðjónsson var verðlaunaður fyrir Einu sinni var mörgæs í flokki þýðinga.
Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru elstu barnabókaverðlaun landsins en þau voru fyrst veitt fyrir 50 árum sem Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1973. Árið 2016 voru Dimmalimm-verðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur sameinuð og urðu flokkarnir þá þessir þrír. Verðlaunaféð er 350.000 krónur í hverjum flokki.
Samkvæmt upplýsingum frá borginni fékk dómnefndin í ár rúmlega 80 bækur til skoðunar. Fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokkanna þriggja. Dómnefnd verðlaunanna skipuðu þau Sunna Dís Jensdóttir, formaður, Ragnheiður Gestsdóttir og Arngrímur Vídalín.
Hjartanístandi og raunsönn
Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur, sem Mál og menning gefur út, hefur þegar fengið Íslensku bókmenntaverðlaunin og Fjöruverðlaunin auk þess sem bókin var nýverið tilnefnd fyrir Íslands hönd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og því margverðlaunuð og viðurkennd.
Þetta getur ekki hafa komið þér á óvart, eða hvað?
„Jújú, það er aldrei neitt gefið í svona löguðu. Maður veit aldrei hvernig bækur hitta lesendur fyrir þannig að það kemur manni alltaf ánægjulega á óvart þegar fólk vill veita manni viðurkenningu eða verðlaun. Þessi verðlaun hafa líka sérstaka þýðingu fyrir mig í ljósi langrar sögu þeirrra. Hálf öld er langur tími og á upphafsárum þeirra voru barnabækur settar skör lægra en bækur fyrir fullorðna. Þannig að aðstandendur þeirra sýndu mikla framsýni og virðingu fyrir þessum bókmenntaflokki sem ég held að verðlaunin standi enn fyrir.“
Í umsögn dómnefndar um Kollhnís segir: „Af eftirtektarverðri næmni, mannskilningi og ritfærni fjallar Arndís Þórarinsdóttir í bók sinni Kollhnís um brostnar vonir og væntingar, snúin fjölskyldutengsl, bróðurást og einhverfu. Bókin er í senn fyndin og falleg, hjartanístandi og raunsönn. Hún heldur lesanda frá upphafi og ætti að höfða til breiðs aldurshóps lesenda.“
Sterk höfundareinkenni
Lóa Hlín hefur skrifað og myndlýst bækur fyrir börn um árabil en aðeins fengið eina tilnefningu til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar svo segja má að hennar tími hafi verið kominn. Kannski fyrir löngu.
Kom þetta þér á óvart?
„Ég held það. En ég man það eiginlega ekki. Ég bjóst alla vega ekkert við þessu. Ég er mikið í væntingastjórnun gagnvart sjálfri mér svo að ég verði ekki fyrir vonbrigðum. Ég var alla vega mjög glöð þegar ég fékk fréttirnar og þær eru mér mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut. Maður er alltaf við það að gefast upp á þessum barnabókamarkaði en þetta hvetur mann áfram.“
Í umsögn dómnefndar um Héragerði: ævintýri um súkkulaði og kátínu, sem Salka gefur út, segir: „Myndhöfundareinkenni Lóu Hlínar eru mjög greinileg í bókinni Héragerði, en um leið er líka auðséð að bókin er ætluð eldri lesendum en hefðbundnar myndabækur. Ekki bara vegna þess að textinn er lengri og þyngri (ef hægt er að nota það orð um svo sprellfjörugan texta), heldur eru sjónrænir þættir eins og litur á síðum og letri markvisst notaðir til að styrkja upplifunina og auðga lesturinn. Mikilvægt er að lesendur fái að upplifa að bók getur verið bæði fallegur og spennandi hlutur í sjálfu sér, jafnvel boðið upp á óvænta upplifun eins og litla bók í leynivasa! Það er skemmtilegt – og ákaflega mikilvægt – að nú skuli sífellt fjölga myndlýstum bókum fyrir lesendur sem komnir eru yfir hefðbundinn myndabókaaldur og gott að sjá myndræna útfærslu sem höfðar til þeirra notaða af svo mikilli leikni – og svo mikilli gleði.“
Skáldskapur flytur fjöll
Einu sinni var mörgæs er önnur þýðing Baldvins Ottós en í fyrra þýddi hann Sjóræningarnir eru að koma og komu báður bækur út hjá bókaútgáfunni Kvisti.
„Við hjónin vorum bæði tilnefnd í ár. Ásta Ólafsdóttir konan mín, sem á Kvist og þýddi Brandur er fluttur út, var líka tilnefnd fyrir sína þýðingu. Við vorum alveg í skýjunum með tilnefningarnar en þetta var virkilega óvænt og skemmtilegt að fá þessi verðlaun,“ segir Baldvin Ottó.
Hvaða þýðingu hafa svona verðlaun fyrir þig?
„Þetta er mest heiðurinn fyrir mig þar sem ég hef ekki lagt þetta fyrir mig að neinu ráði. Og þetta hvetur okkur hjónin áfram í því að gefa út góðar og vandaðar barnabækur á íslensku.“
Í umsögn dómnefndar segir: Í Einu sinni var mörgæs nær Magda Brol að fanga þá staðreynd að skáldskapurinn flytur fjöll – og jafnvel mörgæsir líka. Lesendum er boðið í ævintýraför með Magna mörgæs sem einn daginn rekst á stóran, rauðan, blaktandi-flaktandi hlut sem reynist vera bók. Fjör, fyndni og forvitni ráða för í verkinu og leysir Baldvin Ottó Guðjónsson þýðinguna skemmtilega af hendi og tekst vel að koma til skila vandræðagangi og fróðleiksfýsn mörgæsanna. Boðskapur textans er slíkur að hann vekur hlýju í hjarta bókaunnenda þvert á aldur.“