— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Innheimtustofnun sveitarfélaga mun leiðrétta ofteknar innheimtuþóknanir vegna vangoldinna meðlagskrafna sem stofnunin innheimti á tímabilinu nóvember 2018 þar til í desember 2021. Alls er fjöldi leiðréttinga 906 og nemur heildarupphæð endurgreiðslna um 70 milljónum króna

Innheimtustofnun sveitarfélaga mun leiðrétta ofteknar innheimtuþóknanir vegna vangoldinna meðlagskrafna sem stofnunin innheimti á tímabilinu nóvember 2018 þar til í desember 2021.

Alls er fjöldi leiðréttinga 906 og nemur heildarupphæð endurgreiðslna um 70 milljónum króna. Þar af eru vextir og dráttarvextir um sjö milljónir króna.

Fram kemur í tilkynningu að þegar ný stjórn stofnunarinnar tók við í desember 2021 hafi blasað við henni, að verulegur vafi léki á lögmæti innheimtuþóknana. Leitað var eftir lögfræðiáliti frá Lagastofnun Háskóla Íslands til að fá úr því skorið hvort lagaheimild hefði verið fyrir því að leggja sérstaka þóknun á innheimtu stofnunarinnar sem beindist að launagreiðendum. Lögfræðiálitið var afdráttarlaust um að slík lagaheimild væri ekki til staðar. Því setti Innheimtustofnun sveitarfélaga strax af stað vinnu við að endurgreiða þeim einstaklingum innheimtuþóknun sem höfðu innt greiðsluna af hendi.